03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

88. mál, grunnskólar

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. hefur, sýnist mér, góðan tilgang, eins og fram kemur í grg. þess og eins og mér virtist í meginatriðum vera túlkað af frsm. hér og þeim sem það flytja, en eins og fram kemur er tilgangurinn með þessu frv. að leggja áherslu á að vernda beri friðhelgi einkalífsins, sporna gegn pólitískum áróðri og virða rétt foreldra til að fræðsla í skólum gangi ekki gegn trúar- og lífsskoðunum foreldranna. Þetta er góður tilgangur að mínum dómi, og ég get sagt með sanni að markmið af þessu tagi í skólamálastefnu er mér að skapi. Ég geri þá kröfu, að friðhelgi einkalífs sé alls staðar virt í opinberu lífi og hvarvetna í þjóðfélaginu og þá kröfu, að friðhelgi einkalífs sé alls staðar virt í opinberu lífi og hvarvetna í þjóðfélaginu og þá ekki síst í skólum landsins. Þetta tel ég vera grundvallaratriði í því þjóðfélagi sem ég vil búa í og geri kröfur til. Ég tel líka að pólitískur áróður megi ekki eiga sér stað í skólafræðslu, og ég tel kennurum skylt að haga þannig kennslu sinni að hún gangi ekki vísvitandi gegn trúar- og lífsskoðunum foreldra barnanna. Allt þetta get ég tekið undir og ég tel það skyldu kennara að temja sér hlutlægni í fræðslustarfi, og ég legg áherslu á þetta orð: „hlutlægni,“ og að þeim beri að forðast sem verða má öll afskipti af einkahögum nemenda og láta sem þeir viti sem minnst af trú þeirra og lífsskoðun öðruvísi en í þeim tilgangi að virða slíkt. Ég sé því ekki neinn mun á viðhorfum mínum í þessu efni og flm. þessa frv, og get því tekið undir það með hv. 6. þm. Reykv., að þetta frv. er vissulega mjög almenns eðlis. Ég held líka að það megi fullyrða að alþm. aðhyllist almennt þessi viðhorf og reyndar almenningur yfirleitt í þessu landi. Ég held að það geti varla verið ágreiningur um að skólarnir virði friðhelgi einkalífs og sporni gegn vísvitandi áróðri í pólitík og trúarefnum.

En hitt kann svo aftur að vera hugleiðingarefni, hvort grunnskólalögin tryggi nægilega vel, eins og þau eru orðuð nú, að þessum markmiðum verði náð. Ég vil taka það fram, að ég hef ekki á móti því, að það efni sé rætt og athugað eins og hv. þm., sem þetta frv. flytja, hafa gert. Það er engin löggjöf fullkomin, síst af öllu er orðalag löggjafar fullkomið, og hversu traust sem löggjöf annars kann að vera er alveg ljóst að hún er háð eða undirorpin breytingum og þá skiptir ekki máli hversu vel er annars til hennar vandað. Þetta getur vissulega átt við grunnskólalögin sem öll önnur lög og lagabálka. Reynslan verður að skera úr í þessu efni og grunnskólalög eru ekki hafin yfir gagnrýni.

En þó vil ég leyfa mér í þessu sambandi að taka það fram í sambandi við framlagningu þessa frv. og geta þess, sem ég tel mjög mikilvægt að menn fái upplýsingar um, að um þessar mundir er nefnd, sem fyrir tveimur árum var skipuð til að endurskoða grunnskólalögin, að ljúka störfum. innan fárra daga er von á áliti þessarar nefndar og þar mun að finna ýmsar upplýsingar um framkvæmd eða hvernig til hefur tekist um framkvæmd grunnskólalaga nr. 63/1974, og auk þess hef ég frétt, þó að ég hafi ekki séð nál. enn, að það séu býsna margar tillögur um breytingar á einstökum greinum og köflum laganna, þannig að af þessu má verða ljóst að áður en langt um líður er trúlegt, að lögð verði fyrir Alþ. skýrsla um framkvæmd grunnskólalaga til þessa, og trúlegt, að mjög fljótlega komi einnig fram frv. til breytinga á grunnskólalögum byggt á þeirri skýrslu. Ég hef að sjálfsögðu þann fyrirvara á um þetta, að mér hefur enn ekki borist álit endurskoðunarnefndar grunnskólalaga, en eins og ég segi er það væntanlegt mjög fljótlega og eftir því sem ég best veit er þar um ítarlegt nefndarálit að ræða og ýmsar tillögur til breytinga á grunnskólalögum. Ég vil alveg sérstaklega geta þessa í sambandi við þetta frv. og frekari umfjöllun þess hér í þinginu, t.d. í þn. En að öðru leyti tek ég ekki að svo komnu neina afstöðu til frv., síst af öllu hvað varðar smáatriði þess, eins og þau koma fram í frv., og túlkun þeirra hv. þm. sem bera það fram.