03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

142. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 172, sem er um breytingar á lögum nr. 80/1971 um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, þ.e. á II. kafla þeirra laga sem fjallar um áhafnadeild sem greiðir hluta fæðiskostnaðar fiskimanna annarra en á togurum sem eru yfir 500 brúttólestir að stærð, e,n á þeim hafa skipverjar frítt fæði.

Á árinu 1969 var ákveðið að hluti af útflutningsgjaldi skyldi renna til áhafnadeildarinnar í því skyni að hún greiddi hluta af fæðiskostnaði áhafna á fiskibátum. Var þetta gert í samræmi við samkomulag milli samtaka sjómanna og útvegsmanna með það fyrir augum að létta fæðiskostnað áhafna á fiskibátum í átt að því sem þá var á togaraflotanum, en áhafnir á togurum höfðu frá upphafi haft frítt fæði í samræmi við samninga við togaraeigendur. Að öðru leyti er aðdragandinn að stofnun áhafnadeildar rakinn í upphafi grg. fyrir frv.

Strax í upphafi, og svo er enn, var ákveðið að flokka fiskiskipin, sem fæðisgreiðslur tóku til, í þrjá stærðarflokka og voru greiðslur misháar eftir þeim flokkum: lægstar í smæsta flokknum og hæstar í stærsta flokknum. Undir þann flokk komu svo skuttogarar undir 500 brúttórúmlestum þegar þeir komu til sögunnar. Bæði þessi atriði, þ.e. upphæð fæðisgreiðslna og stærðarflokkar skipa, voru bundin í lögum.

Óhætt er að segja að svo til strax bar á því, að ekki gætti samræmis í upphæðum fæðisgreiðslna á milli hinna þriggja stærðarflokka skipanna. Nokkuð var reynt að bæta hér um með lögum nr. 53/1974, er stærðarflokkun skipanna var breytt svo og upphæð fæðisgreiðslna. Samt náðist ekki æskilegur árangur. Eftir frekari breytingum var lengi vel ekki leitað, líklega vegna þess hve lagabreytingar eru svifaseinar og þungar í vöfum. En við þetta hefur það síðan bæst, að teknar hafa verið upp á seinustu árum loðnuveiðar í stórum stíl og hlutur hinna minni skuttogara í fiskveiðum hefur stóraukist. Hafa menn því hallast að því, að taka þurfi upp nýtt fyrirkomulag um flokkun skipastólsins með tilliti til fæðisgreiðslna og þurfi þá engan veginn að vera um að ræða stærðarflokkun eina saman. T.d. má hugsa sér að loðnuflotinn verði í sérflokki og togaraflotinn einnig. Líklega verður áfram um stærðarflokkun bátaflotans að ræða, þótt það sé ekki einhlítt. Í því sambandi hefur m.a. verið rætt um sérstöðu útilegubáta og jafnvel síldveiðibáta eftir að síldveiðar eru orðnar umfangsmikill útgerðarþáttur á ný eftir að Suðurlandssíldarstofninn rétti við og þær stunda skip víðs vegar að af landinu.

Eins og ég hef þegar sagt hafa þessi mál verið töluvert til umræðu og framarlega í kröfugerð sjómanna hefur verið ósk um að fæðið verði að fullu greitt. M.a. voru kröfur um þetta háværar í deilu sjómanna og útvegsmanna á Ísafirði s.l. vetur. Þeirri deilu lauk m.a. eftir að lofað hafði verið að fæðisgreiðslur til sjómanna skyldu teknar til endurskoðunar. Ég hét því að beita mér fyrir þessu. Afhenti ég sáttasemjara bréf þar sem ég segi m.a., með leyfi forseta:

„Ég tel rétt, að deiluaðilar sendi stjórn Aflatryggingasjóðs bréf þar sem óskað er eftir ýmsum lagfæringum, m.a. um samræmingu tveggja efstu flokkanna, og að nýr flokkur verði stofnaður vegna útileguskipa sérstaklega. Athugun á slíkum breytingum er þegar hafin. Að því er ég best veit er þörf lagabreytinga. Fyrir slíkum lagabreytingum mun ég beita mér eins og frekast verður talið fært.“

Aflatryggingasjóði var ritað eins og ég lagði þarna til. Sjálfur ræddi ég við formann aflatryggingasjóðsstjórnar alloft um málið. Málið var þegar tekið til meðferðar og fjallað um það á mörgum fundum. Í ljós kom fljótlega að málið var ekki eins einfalt, ef því átti að gera góð skil, og e.t.v. var talið. Upplýsingasöfnun tók töluverðan tíma, sérstaklega frá hinum ýmsu minni bátum. Niðurstaða stjórnar Aflatryggingasjóðs varð jafnframt sú að mæla með því við mig, að frv. það, sem hér liggur nú fyrir flutt og ég mun nú lýsa, yrði flutt.

Eins og af þessu kemur fram eru hugmyndir manna um þessi efni vart fullmótaðar. Til þess að svo megi verða þótti rétt að vita hvort löggjafinn vildi leggja sitt af mörkum til að auðvelda úrlausn þessa vandamáls, og mun ég nú lýsa meginkjarna frv.

Í 2. mgr. 2. gr. frv. er lagt til að upphæð fæðisgreiðslna og flokkun skipa verði ákveðin með reglugerð í stað þess að þessi atriði séu bundin í lögum. Er það að sjálfsögðu gert á grundvelli þess sem ég lýsti áðan um flókna samsetningu flotans sem erfitt er að ákveða án tíðra breytinga í lögum. Við setningu reglugerðar yrði að sjálfsögðu leitað atfylgis samtaka fiskimanna og útgerðarmanna, enda er þetta þeirra mál fyrst og fremst. Ég hef trú á að takast megi gott samstarf samtakanna um þetta efni í samráði við stjórn Aflatryggingasjóðs og sjútvrn. En ekki er að efa að við flokkun skipa og ákvörðun fæðispeninga yrði með hliðsjón af greiðslugetu áhafnadeildar unnið að því að greiðslur sem hlutfall af fæðiskostnaði verði sem allra jafnastar milli þeirra skipaflokka sem í reglugerðinni verða ákveðnir. Einn meginkosturinn við að hafa þessi ákvæði í reglugerð í stað laga er að mjög fljótlegt er að endurskoða reglugerðina að höfðu samráði við hagsmunaaðila ef ágallar eða misrétti eða breyttar aðstæður við útgerð og veiðiskap koma upp á yfirborðið.

Við samningu frv. var tækifærið notað og efnisröðun lagfærð. Þannig eru ákvæðin um alla sem rétt eiga á fæðisgreiðslum sett í sömu grein, þ.e. 15. gr., en þau voru áður bæði í 15. og 17. gr. 17. gr. fjallar nú aðeins um reglugerðina og hvernig hún skuli sett.

Þá eru lagfærð ákvæði 2. mgr. 23 gr. laganna þannig að þau taki aðeins til togara yfir 500 brúttórúmlestum að stærð, enda hefur hún verið þannig framkvæmd í reynd eftir að minni skuttogararnir komu til sögunnar. Orðalaginu „fæðiskostnaði lögskráningarskyldra sjómanna á fiskibátum“ er að sjálfsögðu breytt í „fæðiskostnaði lögskráningarskyldra sjómanna á fiskiskipum“ vegna tilkomu minni skuttogara eftir að lögin voru sett.

Þá er loks lagt til að lög nr. 48/1973, um rétt fiskimanna á opnum fiskibátum, verði numin úr gildi þar sem þau eru felld inn í frv. þetta. Sama gildir um lög nr. 53/1974, sem fjalla um breytta stærðarflokkun fiskiskipa og breytta upphæð fæðisgreiðslna, en þau lög falla um sjálf sig ef efnisatriði þau, sem þau fjalla um, verða framvegis ákveðin með reglugerð.

Í niðurlagi 3. mgr. 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að lögin verði afturvirk og að ákvæði umræddrar reglugerðar skuli gilda frá 1. júní 1980. Að vísu er ljóst að uppgjör aftur í tímann, einkum yfir sumarmánuðina þegar mikið er um afleysingamenn, er ýmsum annmörkum háð. Það er hins vegar staðreynd; að stefnt var að því að breytingin gæti komið til framkvæmda frá og með 1. júní s.l., og segja má að gefið hafi verið undir fótinn með það í svari við fsp. hér á Alþingi s.l. vor. Þótt málið hafi reynst flóknara en talið var og undirbúningur þess tekið lengri tíma en ella tel ég rétt að við þessa tímaáætlun sé staðið. Ég vil jafnframt upplýsa að fjárhagur Aflatryggingasjóðs er það góður að þetta veldur ekki af þeim ástæðum vandræðum.

Vissulega er allerfitt að áætla kostnaðarauka sem áhafnadeild mun hafa af þeim breytingum sem stefnt er að. Talið er að langmestur kostnaður muni stafa af því að gera leiðréttingu á fæðisgreiðslum loðnusjómanna og sjómanna á minni skuttogurum og sé líklegt að greiðslur til þeirra þurfi að hækka um um það bil 25% til að jöfnuður náist við aðra. Kostnaður af þessari hækkun frá 1. júní til 1. des. er talinn munu nema um 163 millj. kr. og þá til ársloka um 180 millj. kr. Með áætluðum hækkunum á matvörulið framfærsluvísitölu gæti þessi kostnaður samtals orðið um það bil 450–500 millj. kr. á næsta ári, þ.e. hækkaðar greiðslur á fæðispeningum til sjómanna. Það skal að vísu skýrt tekið fram, að slík spá, sem byggir á hækkun matvöruliðarins m.a., er ýmsum erfiðleikum háð.

Varðandi fjárhagsstöðu áhafnadeildar er þess að geta, að hún stóð lengi framan af í járnum, en vegna vaxandi afla og hagstæðs erlends afurðaverðs hefur hún styrkst mjög mikið hin síðari ár. Það kom fram m.a. í setningarræðu fiskimálastjóra á Fiskiþingi 24. þ.m. að áætlað ráðstöfunarfé deildarinnar 1. nóv. s.l., þar með taldar áætlaðar og óinnkomnar tekjur af útflutningsgjaldi, væri rúmlega 1.4 milljarðar. Er mér kunnugt um að þessi áætlun er varfærnislega gerð. Einnig er mér óhætt að segja að þeir, sem best þekkja, munu líta svo á að ekki sé ástæða til að svo komnu að ætla að þau auknu útgjöld, sem þær breytingar, sem hér er stefnt að, muni hafa í för með sér fyrir deildina, muni valda henni greiðsluerfiðleikum. Er þá reiknað með svipuðum aflabrögðum og verið hafa undanfarið og svipuðu verðlagi á útfluttum sjávarafurðum. En vegna þeirrar afturvirkni, sem gert er ráð fyrir í frv., og vegna þeirra uppgjörserfiðleika sem hún kann að hafa í för með sér, eins og ég hef áður bent á, vek ég jafnframt athygli á nauðsyn þess að hraða afgreiðslu frv. þannig að unnt sé að setja reglugerð samkv. 2. gr. þess sem allra fyrst og hafa þá umrædda afturvirkni sem allra stysta.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til að frv. þessu verði vísað til hv. sjútvn. að lokinni þessari umr.