22.10.1980
Efri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er vissulega rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, að hér er sannarlega um margþætt mál að ræða. Efni þess frv., sem hér er til umr. í dag, bar töluvert á góma í umr. í Sþ. í gær, eins og eðlilegt má teljast. Erfiðleikarnir, sem blasa við því fyrirtæki sem frv. fjallar um, eru auðvitað af mörgum toga spunnir. Það eru sumpart utanaðkomandi erfiðleikar sem stjórnendur fyrirtækisins hafa ekki fengið að gert með neinum hætti. En öðrum þræði eru þessir erfiðleikar líka innan að og kannske ekki síður.

Það var fyrir forgöngu ríkisins að flugfélögin tvö voru sameinuð á sinum tíma. Og ég hygg að segja megi, þegar menn skoða það mál, að þar hafi e.t.v. verið unnið meir af kappi en forsjá, því að sundrung hefur verið áberandi frá því félögin voru sameinuð. Ég held þess vegna, og það er mitt grundvallarsjónarmið í þessu máli, að þar sem ríkið knúði þessa sameiningu fram á sinum tíma og erfiðleikarnir komu sumpart í kjölfar hennar beri ríkið líka nokkrar skyldur gagnvart þessu fyrirtæki.

Ofan á þetta hefur það svo bæst, að ég sé ekki betur — og heyri raunar á máli ýmissa þeirra sem hér hafa talað í umr. um þetta mál í Sþ. — en jafnvel megi segja að stjórn félagsins hafi illa verið verki sínu vaxin og jafnvel gert skyssu á skyssu ofan. En það, sem er meginatriði þessa máls, er að þeir erfiðleikar, sem nú blasa við í þessum efnum, eru miklu meiri en menn renndu grun í fyrst í haust. Erfiðleikarnir eru svo miklir að fullyrt er að stöðvun blasi við innan tiltölulega skamms tíma verði ekki að gert, og er það vissulega alvarlegt mál.

Ég hygg að segja megi að hæstv. samgrh. hafi unnið allvel að þessu máli, eftir því sem mér hefur sýnst, eftir því sem hann hefur fengið frið til fyrir þeim Alþb.mönnum sem óneitanlega virðast hafa allt að því átt þá ósk að þetta mætti allt fara í rúst svo reisa mætti kannske eitthvað annað á grunninum. Auðvitað eru skiptar skoðanir um ýmislegt það sem gert hefur verið í þessu sambandi, en ég hygg þó að í öllum meginatriðum hafi verið unnið rétt að þessu máli og fulltrúar þingflokka hafa fengið að fylgjast með því á öllum stigum, eins og eðlilegt hlýtur að teljast. Þar er ekkert undan að draga.

Eitt er þó í tengslum við þetta mál sem mér finnst svolítið skrýtið — og er raunar ekki einn um það. Hér á ég við það sem gerst hefur nú alveg nýlega, þegar samgrh. veitir nýju félagi, félagi sem hyggst hefja greinilega farþegaflutninga, félaginu Iscargo, leyfi til flugs á leiðinni milli Íslands og Hollands. Það er búið að rekja sögu þessa máls ítarlega. Áður hafði Arnarflug sótt um leyfi til flugs á þessari leið. Því var ekki svarað. Flugleiðir höfðu þegar tilkynnt fyrir miðjan þennan mánuð að þær hygðust hefja flug á þessari leið.

Nú hefur hv. þm. borist bréf frá Flugleiðum, þar sem ítarlega er fjallað um þetta mál og bent á að þegar flugfélögin voru sameinuð, þá var það ein meginforsenda fyrir því að slíkt var samþykkt, eins og segir í bréfi samgrh. frá þeim tíma, með leyfi forseta: „að sameinað flugfélag eða núverandi flugfélög, sem verða undir þess yfirstjórn, verði tilnefnd til að njóta allra þeirra réttinda til reglubundins áætlunarflugs á erlendum flugleiðum, sem Ísland hefur samkv. loftferðasamningum og það eða þau vilja nýta.“

Hér hefur verið brugðið út af þessari stefnu einhverra hluta vegna. Einhverra hluta vegna er flugfélagi, sem ekki á farþegaflugvél, sem ekki hefur stundað farþegaflug til annarra landa, hefur sennilega hvorki til þess viðhaldsaðstöðu né annan búnað, úthlutað leyfi til farþegaflutninga á þessari leið á sama tíma og félag, sem berst í bökkum og flutt er hér sérstakt frv. um að aðstoða, er að hefja flug á þessari sömu leið samkv. gömlu leyfi og raunar taka þar upp þráðinn sem áður var frá horfið. Þetta er óneitanlega furðuleg ráðstöfun. Og enn furðulegra er það, ef satt er, að þetta fyrirtæki, Iscargo hf., skuli nú leita fyrir sér um hentuga flugvél til leigu eða leigukaupa á mörkuðum í Evrópu á sama tíma og flugvélar Flugleiða standa hér ónotaðar og óseljanlegar. Ég held að það sé komin ástæða til þess að lýsa eftir flugmálastefnu, hver hún er, hvar hún er og hvenær hún verður kynnt hér, vegna þess að það, sem gert hefur verið í þessu, ber ekki vott um það, að neina slíka stefnu sé að finna hjá núv. ríkisstj.

Einn þáttur þessa máls, sem rætt hefur verið um gagnvart Flugleiðum, hefur verið sá, að Flugleiðir fengju aukinn hlut í flutningum hingað til lands á vegum varnarliðsins. Um það er auðvitað allt gott að segja, að leitað sé eftir því að þeir flutningar fari fram með íslenskum flutningatækjum. En einu hjó ég eftir þegar hæstv. utanrrh. var spurður um þessi mál í útvarpi við heimkomu sína frá Bandaríkjunum fyrir skömmu. Þá tók ég ekki betur eftir — vera má að það hafi verið mismæli — en hann talaði um að kannað hefði verið að fá aukna hlutdeild fyrir íslensk flugfélög í þessum flutningum. Leikur mér nú nokkur forvitni á að vita hvort ætlunin er að skipta þessu milli margra aðila eða hvort hér var um mismæli að ræða, sem ég hygg. Í ljósi þess, sem hér er verið að ræða nú og talað hefur verið um, að þetta fyrirtæki nyti góðs af ef hægt væri að ná auknum viðskiptum á þessum markaði, þá væri ekki ófróðlegt að fá svör við þessu.

Í sambandi við þau vandamál, sem hér er í fyrsta lagi um að ræða, grundvallarsamgöngur til og frá landinu, sem eru mikilsverðara mál en svo, að hægt sé að líða það og láta viðgangast að þær stöðvist. Um það hygg ég að allir séu sammála. Í öðru lagi er hér um að ræða atvinnuöryggi nokkur hundruð manna og starfsemi sem beint hefur hingað miklum fjölda ferðamanna á löngum tíma, sem skapað hefur hér miklar tekjur og vinnu, þannig að margfeldisáhrifin af þeim störfum, sem hér er um að ræða, eru áreiðanlega fimmföld, ef ekki meiri.

Í sambandi við þann vanda, sem hér hefur verið og er til umræðu, hefur verið rætt um sölu ýmissa eigna fyrirtækisins. Auðvitað hlýtur það að koma til athugunar. En ég tek undir það sem ýmsir hv. þm. sögðu í umr. í Sþ. í gær, að ég held að það væri í hæsta máta óeðlilegt að selja hlutabréf fyrirtækisins í Cargolux-félaginu, einu stærsta vöruflutningafélagi heims. Ég hygg að slíkt væri ekki skynsamleg ráðstöfun. Hins vegar sýnist ekki þörf á því — (Gripið fram í.) Þeir segja það, það er eftir að reyna á hvort þar er um raunverulegan vilja að ræða, sem ég er ekki ákaflega trúaður a. Hins vegar sýnist manni ekki brýn nauðsyn þess, að Flugleiðir standi í rekstri bílaleigu þar sem standa núna milli 70 og 80 bílar ónotaðir á hverjum einasta degi. Það geta menn séð þegar þeir keyra suður flugvallarveginn. Sömuleiðis má segja að mikill hótelrekstur félagsins orki tvímælis. Ýmsir hafa bent á að e.t.v. væri ástæða til að hugleiða þann möguleika, hvort ekki mætti nýta eitthvað af þessu hótelrými t.d. fyrir stúdentagarð, — ég er ekki að segja að þetta séu raunhæfar hugmyndir, en þessu hefur verið slegið fram, — eða sem hjúkrunarheimili fyrir t.d. aldraða, en skortur á þeim er meiri en svo, að ég þurfi að fara um það mörgum orðum. Sömuleiðis hefur verið bent á að eðlilegt væri að félagið seldi hlutabréf sin í Arnarflugi. Og væri ekki eðlilegt að starfsfólk þess fyrirtækis eignaðist þar hlutdeild og hefði þar eitthvað að segja, eins og ætlunin er og stefnt er að með þessu frv. að starfsfólk Flugleiða fái þar aukin áhrif á stjórn fyrirtækisins, sem er ákvæði í rétta átt?

Ég harma það, að hæstv. samgrh. skuli ekki vera viðstaddur þessar umr. hér, en hann gagnrýndi í gær stjórn fyrirtækisins. Ég hygg að hann hafi gert það alveg með réttu. Og ég er líka persónulega þeirrar skoðunar, að þar hefði mátt kannske kveða nokkru sterkar að orði. Ég held að hjá því geti ekki farið, að sú hugsun flögri að þeim sem fylgst hafa með sögu og þróun Flugleiða undanfarin 2–3 ár, að ýmsar ákvarðanir stjórnarinnar orki vissulega tvímælis, að ekki sé meira sagt. Það má t.d. nefna kaupin á nýju 727–200 þotunni, þar sem hvert viðbótarsæti var keypt mjög dýru verði. Forsenda kaupa á þeirri þotu var raunar sú, að það átti að selja tvær hinar gömlu. Það hefur ekki tekist og engar horfur eru á að það takist, a.m.k. nú á næstu vikum.

Í öðru lagi hefur verið bent á að breiðþotukaupin — þá er ég ekki að tala um þau óhöpp og erfiðleika sem urðu í sambandi við reksturinn, heldur kaupin sjálf — hafi borið að með enn óútskýrðum hætti. Sitthvað fleira mætti til taka. Í rauninni má segja að stjórn eins hlutafélags, sem komið hefur því í slíkar ógöngur með ýmsum hætti eins og nú er ljóst, ætti auðvitað ekkert annað eftir en að segja af sér. En nú er það auðvitað svo, að hér er um að ræða hlutafélag í eigu einstaklinga og ríkið getur ekki sett nein skilyrði um stjórn eða stjórnarmenn. En satt að segja held ég að flestum utanaðkomandi, sem á þetta horfa, hljóti að vera það óskiljanlegt, hvers vegna núv. stjórn og forstjóri félagsins sitja enn eftir alla þá hrakfallasúpu sem þeir aðilar hafa stýrt félaginu inn í. Það er mér a.m.k. óskiljanlegt.

Til þessa frv. er afstaða okkar Alþfl.-manna sú, að þessa tilraun beri að gera í eitt ár. Þeir hagsmunir, sem þarna er um að tefla, eru svo miklir, að við teljum það réttlætanlegt að nokkru sé e.t.v. fórnað til þess að fá úr því skorið, hvort þessi rekstur, eins og hann hefur verið, geti gengið, að markaðsaðstæður verði kannaðar, leitað verði nýrra leiða og kannske það sem meginmáli skiptir, að sambúðin innan félagsins verði bætt þannig að menn vinni saman, en starfið þar einkennist ekki af þeirri sundrung sem ríkt hefur til þessa. Okkur finnst að vísu að ákvæðin í 5. gr. frv. orki tvímælis, þar sem ríkisstj. er heimilað að setja þau skilyrði sem hún telur nauðsynleg. Það væri með ýmsum hætti eðlilegra, að þau skilyrði, sem setja á, ef einhver á að setja, væru talin upp í frv., þannig að þau lægju fyrir þegar það væri samþykkt. En auðvitað er nauðsynlegt að þessi tími, þetta ár, þessi ársfrestur, sem hér er gefinn, verði notaður og notaður vel, hann verði notaður til að ganga úr skugga um það, hvort þessi starfsemi getur gengið eða hvort henni beri að hætta, og þá á ég við Norður-Atlantshafsflugið. Vera má að niðurstaðan verði sú, að fyrir þessu séu ekki lengur þær forsendur sem á sínum tíma voru, en þetta þarf að athuga og athuga vel.

Þetta er sem sagt í meginatriðum afstaða okkar gagnvart þessu frv., að við teljum að nokkru sé fórnandi til að gera þessa tilraun í eitt ár. En að lokum er aðeins eitt sem ég vildi láta koma hér fram að ég óttast. Ég óttast það, að aðgerðir stjórnarinnar og tilkynningar um niðurfellingu flugsins hafi þegar brotið niður markaðskerfi félagsins að svo verulegu leyti að það verði mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, að byggja upp aftur á einu ári. Ég hygg að það muni hafa gerst núna undanfarnar vikur, að úr farpöntunum hafi stórlega dregið, enda ekki nema von þegar ýmis víðlesnustu blöð og tímarit eru búin að tilkynna að félagið sé að hætta þessu flugi. Slíkt þarf auðvitað ekki að koma forráðamönnum Flugleiða á óvart, eins og mér skilst að muni þó e.t.v. vera. Þetta held ég að sé hið hættulega í þessu máli, að það sé búið að eyðileggja meira en auðvelt er að bæta á þeim tíma sem er til stefnu. Og ég held að ef niðurstaðan af þessu verður sú, að þessu flugi beri að hætta, þá sé ástæðan kannske fyrst og fremst sú, hversu fádæma klaufalega stjórn félagsins fór að. Það var engu líkara en hún vildi brjóta þetta kerfi niður, brjóta það til grunna, þannig að þar stæði ekki steinn yfir steini. Það væri vissulega gott ef þessi starfsemi gæti haldið áfram, en til þess þarf að skoða málið. Og það mun ekki standa á okkur Alþfl.mönnum að veita þessu máli hér lið, þannig að það geti gengið tiltölulega fljótt og eðlilega í gegnum hv. deild.