03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

139. mál, söluskattur

Guðrún Hallgrímsdóttir:

Herra forseti. Í því frv. til l., sem hér var mælt fyrir, er lagt til að fella niður söluskatt á ákveðnum tækjum í ákveðnum tilgangi. Ég held að flestir, sem til þessara mála þekkja, telji þetta með öllu óframkvæmanlegt, en þótt það væri framkvæmanlegt tel ég í því felast ákaflega lítinn stuðning við íslenskan iðnað, — í þessu tilfelli við þann iðnað sem hér er talað um, hinn unga íslenska rafeindaiðnað. Mikill hluti þessarar framleiðstu er enn þá, því miður, innfluttur. Ég tek hins vegar ríkulega undir þær kröfur, sem komu fram í máli frsm., að styðja beri þessa grein iðnaðar, og ég bendi á að íslenskur fiskiðnaður býður stórbrotna möguleika til að byggja upp alíslenskan rafeindaiðnað þar sem íslenskt hugvit og tæknikunnátta fá notið sín. Smæð heimamarkaðarins er víðast hvar þröskuldur fyrir iðnþróun hjá okkur hérlendis, en íslenskur fiskiðnaður er svo umfangsmikill að erlend fyrirtæki vilja töluvert á sig leggja til að ná þeim markaði. Það hefur sýnt sig hvað snertir aðrar fiskvinnsluvélar. Hér þarf því að bregða skjótt við, en með allt öðrum hætti en lagt er til í þessu frv.

Ég vil minnast á örfáar almennar stuðningsaðgerðir og er þar fyrst að taka lánamál. Fyrirtæki í rafeindaiðnaði þurfa t.d. að liggja með stóran og dýran „lager“ af hlutum til framleiðslu sinnar, en þessi „lager“ er ekki veðhæfur. Einnig þarf að auka skilning meðal þjóðarinnar á að nota íslenskan búnað, en ekki innfluttan. Þá kemur það til, að enn er ekki búið að fullhanna þau kerfi sem hér koma að mestu gagni fyrir íslenskan fiskiðnað. Það er raunverulega eftir að hanna heildarkerfi til tölvuúrvinnslu. Hér gæti hið háa Alþingi komið af myndarskap inn og stutt við íslenskan rafeindaiðnað. — Ég vildi aðeins benda á þetta.