03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

139. mál, söluskattur

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir undirtektir undir þetta mál og fagna sömuleiðis yfirlýsingum hans um þá stefnu sem hann er að vinna að: að létta af ýmsum gjöldum og álögum varðandi tæknivæðingu í fiskiðnaði.

Hann nefndi hér samkeppnisiðnað og fiskiðnað og taldi fiskiðnaðinn vera samkeppnisiðnað. Ég fagna því vegna þess að þetta er gamalt baráttumál fiskiðnaðarins. Raunverulega, ef ég má orða það þannig, er fiskiðnaðurinn eini iðnaðurinn hérlendis sem stendur í verulegri samkeppni — reyndar ekki innanlands, heldur á erlendum mörkuðum. Fiskiðnaðurinn er eini iðnaðurinn hér sem stendur í samkeppni við erlendan fiskiðnað, sem er stórlega ríkisstyrktur í öllum löndunum í kringum okkur, eins og menn vita.

Hv. þm. Guðrún Hallgrímsdóttir kom hér upp og taldi að ekki væri hægt að framkvæma frv. Þetta var sagt án nokkurra röksemda og er býsna einkennilegur málflutningur að halda því fram án rökstuðnings, að ekki sé hægt að framkvæma eitthvað. Ég lýsti í framsöguræðu minni þeim tollaflokkum, sem um væri að ræða, sem gera yfirleitt kleift að framkvæma þetta. Þykir mér býsna einkennilegur málflutningur hv. þm. að rökstyðja ekki fullyrðingar sínar. En ég get tekið undir það sem hún sagði, að stórauka ber lánafyrirgreiðslu til íslensks rafeindaiðnaðar. Það styð ég fyllilega.

En það er ekki það sem fjallað er um í þessu frv. Eins og ég sagði í framsögu minni er hér um að ræða lítið skref, en í rétta átt. Þetta mál, sem um er fjallað í frv., er það mál sem brennur á fiskiðnaði sem er að tölvuvæða sig og auka stórlega fjárfestingu sína einmitt á þeim sviðum sem þetta frv. fjallar um. Þetta mál brennur ekki einungis á fiskiðnaðinum, heldur langar mig til að vitna aftur í þau ummæli sem framleiðendur þessara tækja höfðu við mig, að þeir mundu meta þetta frv. mjög mikils ef samþ. yrði. En samþykkt þessa frv. firrir okkur engan veginn því að styðja enn meira við bakið á þessum iðnaði og þá með þeim aðgerðum og þeim hugmyndum sem hæstv. sjútvrh. lýsti m.a. áðan.