03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

73. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 79 um breytingu á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum nr. S 13. febr. 1976.

Hér er um að ræða annars vegar að veita afslátt frá útflutningsgjaldi sem nemur kostnaði við umbúðir saltsíldarverkunar og er þessi afsláttur ákveðinn í frv. 1 S 600 kr. fyrir hver 100 kg innihalds vegna umbúðakostnaðar og kostnaðar við sérstök hjálparefni. Í 2. mgr. frvgr. er hins vegar gert ráð fyrir að innheimta ekki útflutningsgjald af edikssöltuðum síldarflökum eða söltuðum síldarflökum sem verkuð eru á svipaðan hátt, framleiddum einnig á síldarvertíð 1980, til sölu í löndum Efnahagsbandalags Evrópu.

Núverandi útflutningsgjald er 5.5% af fob-verðmæti útfluttra sjávarafurða og er það hin almenna regla. Í eldri lögum um útflutningsgjald — áður en þeim var breytt 1976 með breytingum á sjóðakerfi sjávarútvegsins var heimilað að draga frá fob-verðmæti saltsíldar ákveðna fjárhæð vegna umbúðakostnaðar. Var þessi heimild t.d. notuð 1975. Eins og fyrr segir var þessi heimild svo felld niður, enda útflutningsgjald þá lækkað verulega og reynt að afnema sem flest sérákvæði.

Síldarsöltun hefur algjöra sérstöðu að því er varðar umbúðakostnað. Tunnurnar eru fluttar inn og síðan út aftur nokkrum mánuðum seinna og eru þá að meðattali nær fimmtungur af því verðmæti sem útflutningsgjald er lagt á. Í öðrum greinum fiskvinnslu er umbúðakostnaður innan við 3% af tekjum.

Kostnaður við hverja tunnu og einkum kostnaður við sérstök hjálparefni, svo sem krydd og sykur, hefur hækkað verulega frá því í fyrra, þegar hann var um 10 100 kr., í um 15 600 kr. Er sú tala lögð til grundvallar.

Jafnframt er í 2. mgr. gert ráð fyrir að fella niður útflutningsgjald af ediksöltuðum síldarflökum. Það var talið nauðsynlegt vegna þess að síðustu árin hefur Efnahagsbandalagið kosið að leggja hækkandi toll á innflutning saltaðrar síldar inn í Efnahagsbandalagið og er jafnframt rætt um það nú að hækka þann toll mjög verulega, nefndar tölur allt upp í 20%, sem mundi að sjálfsögðu koma fullkomlega í veg fyrir að slík síld verði þangað flutt. Tollurinn mun nú vera 5%.

Jafnframt er staðreyndin sú, að eins og hv. þm. vita hefur nokkur sölutregða verið á síld. Að vísu hafa samningar um saltaða síld tekist — ég leyfi mér að segja: vonum framar. Hins vegar hafa verið verulegir erfiðleikar með sölu á frystri síld og ekki séð hvernig því lýkur. Till., sem í frv. felst, mun stuðla að nokkuð aukinni sölu. Var því ákveðið að leggja frv. fram og leita heimilda til að fella niður útflutningsgjald af sérsaltaðri síld og ediksaltaðri síld.

Hér er ekki um neinar stórar upphæðir að ræða. Um þetta er fullkomið samkomulag með hagsmunaaðilum þ.e. sjómönnum, saltendum og útflytjendum. Reyndar er þetta forsenda fyrir því samkomulagi sem varð um verðákvörðun á síld.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. hv. sjútvn.