03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

144. mál, eftirlaun til aldraðra

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna þessu fram komna frv., en hér er verið að auka réttindi þeirra sem hafa rétt samkv. lögum um eftirlaun til aldraðra. Þó sakna ég þess í þessu frv., að ekki skuli vera gerð nánari grein fyrir hvernig kostnaðarskiptingin eigi að vera samkv. því og hverjir raunverulega standi straum af auknum réttindum til ellilífeyrisþega. Hér er um að ræða, eins og fram kom hjá hæstv. félmrh., lið í lausn kjaradeilunnar. En við hljótum að spyrja: Hver stendur undir þeim auknu réttindum sem frv. þessu fylgja? Eru það sjóðir launþega sjálfra sem gera það? Þó að það komi ekki beint fram hér held ég að sé ljóst að það séu lífeyrissjóðirnir og Atvinnuleysistryggingasjóður sem eigi að standa undir þessum auknu réttindum. En ekki felst í þessu frv, eða grg. nein nánari skilgreining á þessu. Það kemur fram síðast í grg.: „Kostnaður af greiðslu lífeyris samkv. II. kafla laganna er hins vegar miklum mun minni og sá útgjaldaauki, sem frv. felur í sér fyrir kostnaðaraðila samkv. 25. gr. laganna, er hverfandi.“ Hér stendur „hverfandi,“ en ég held að það sé nauðsynlegt að þm. fái upplýst hver þessi kostnaðarskipting er og það sé ekki nægjanlegt fyrir þm. að tala um að kostnaður sé „hverfandi.“ Við verðum að fá að vita hver kostnaðurinn er.

Þegar eftirlaunafrv. var til umr. vorið 1979 var því harðlega mótmælt af ýmsum þm. að verið væri að leggja auknar byrðar á Atvinnuleysistryggingasjóð. Fæðingarorlof var að vísu þá fyrir byrði á Atvinnuleysistryggingasjóði, en nú er stefnt að því að létta því af. En á sama tíma og fæðingarorlofi verður létt af Atvinnuleysistryggingasjóði er gert ráð fyrir nýjum byrðum á Atvinnuleysistryggingasjóð, sem felst í frv. um eftirlaun, og þó ég muni ekki nákvæmlega töluna minnir mig að ég hafi heyrt talað um töluna 800 millj. kr.

Einn harðasti andstæðingur þess vorið 1979 að leggja auknar byrðar á Atvinnuleysistryggingasjóð var Eðvarð Sigurðsson. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, grípa niður í ræðu hans hér á þingi þegar hann talar um að leggja eigi auknar byrðar á Atvinnuleysistryggingasjóð. Hann segir á einum stað, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég verð að segja það, að það er a.m.k. frá mínum bæjardyrum séð hreint og beint ömurlegt að núv. hæstv. ríkisstj. skuli standa að slíkri aðför að Atvinnuleysistryggingasjóði sem hér er gert.“

Á öðrum stað segir þessi sami þáv. þm.:

„Ég held að það sé algjörlega ljóst, að eins og lífeyrismálum er komið í landi okkar sé engan veginn sæmandi aðferð að senda þeim, sem átti að aðstoða, reikninginn fyrir kostnaðinum á sama tíma og stór hluti lífeyrisþega hefur fulltryggðan lífeyrissjóð á kostnað skattgreiðendanna í landinu. Ég held að með þessu sé slík mismunun gerð að það eigi ekki að líðast.“

Fleira mætti tína til úr þessari ræðu Eðvarðs Sigurðssonar, en ég sé ekki ástæðu til þess frekar.

Því er ástæða til að spyrja hér nú, þar sem þetta var liður í lausn kjaradeilunnar: Er það með samþykki verkalýðshreyfingarinnar að þessi leið sé farin til að fá þessi auknu réttindi, þ.e. að að hluta til séu þarna lagðar byrðar á Atvinnuleysistryggagasjóð? Kannske er hægt að spyrja líka, — því ég sé ekki hvað það er sem sérstaklega réttlætir að leggja auknar byrðar á Atvinnuleysistryggingasjóð, byrðarnar eru þar fyrir hvort sem það er í formi fæðingarorlofs eða aukinna réttinda til eftirlauna aldraðra, og þó það sé e.t.v. heldur minna núna en var með fæðingarorlofinu eru þetta engu að síður byrðar, — að spyrja hvort verkalýðshreyfingin hafi samþykkt þá leið, sem farin er til að auka þessi réttindi, og hvort eitthvað hafi verið hugað að því að styrkja á einhvern hátt stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs, þá kannske í formi þess að huga að einhverri annarri tekjuöflunarleið fyrir hann.

Ég held að það sé nauðsynlegt að þetta komi fram og einnig að það komi fram nákvæm kostnaðarskipting, hvernig þessi auknu réttindi skiptast milli aðila.