03.12.1980
Neðri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

144. mál, eftirlaun til aldraðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Áður en langur tími líður mun koma fyrir hv. Alþingi frv. til l. um breyt. á lögum um eftirlaun aldraðra, sem gerir ráð fyrir að aukið verði við þremur stigum lífeyrisréttinda og það kostað af Atvinnuleysistryggingasjóði; eins og gert er ráð fyrir í þeirri yfirlýsingu sem ríkisstj. gaf 27. okt. s.l. við frágang kjarasamninga. Ég tel að það sé eðlilegt að ræða þessi atvinnutryggingasjóðsmál við þá umræðu.

Í frv., sem hér er um að ræða, er einungis verið að færa til dagsetningar. Kostnaðaraukinn af þessu vegna ársins 1980 er að því er varðar ríkissjóð talinn vera hverfandi. Þá á ég við tölu sem er innan við 10 millj. kr. Hér er einungis verið að færa til dagsetningu þannig að nettóútgjöldin eru í rauninni þau sömu. Það er verið að segja það eitt, að lífeyrisgreiðslurnar megi hækka frá 1. des. í staðinn fyrir 1. jan. o.s.frv. Það er það eina sem í þessu frv. er.

Ég hef engan áhuga á að skjóta mér undan því að svara fsp. hv. þm., en ég minni bara á að frv. um þessi sérstöku þrjú stig varðandi lífeyrisréttindin og þar með Atvinnuleysistryggingasjóð kemur til umr. hér á Alþ. áður en langur tími líður. Auðvitað kemur það fram, eins og hv. þm. er kunnugt, í yfirlýsingu ríkisstj. frá 27. okt. s.l. að jafnframt er tekin ákvörðun um að fella kostnað af fæðingarorlofi af Atvinnuleysistryggingasjóði.