22.10.1980
Neðri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

28. mál, meinatæknar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv., sem er á þskj. 29, 28. mál þessarar hv. d., frv. um meinatækna, en það er samið í heilbr.- og trmrn. eftir beiðni Meinatæknafélags Íslands og er að verulegu leyti byggt á tillögum félagsins. Frv. var upphaflega flutt á síðasta Alþ., en hlaut ekki afgreiðslu og er hér endurflutt óbreytt.

Frv. er að flestu leyti samhljóða öðrum lögum sem sett hafa verið á undanförnum árum til þess að tryggja hinum ýmsu heilbrigðisstéttum lögvernduð starfsréttindi og lögverndað starfsheiti.

Stétt meinatækna er tiltölulega ung hér á landi. Meinatæknafélag Íslands var stofnað í febrúar 1967. Fljótlega eftir stofnun félagsins óskaði það eftir löggildingu á starfi og starfsréttindum meinatækna, en um þennan hóp giltu þá engin lög.

Í framhaldi af þessari ósk félagsins skipaði heilbr.- og trmrh. nefnd til að semja frv. til laga um tæknimenntað aðstoðarfólk við lækningar. Var frv. þess efnis borið fram á Alþ. og staðfest sem lög árið 1971, þ.e. lög um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, og eru þau nr. 64 frá árinu 1971. Samkv. 2. gr. laga um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir hafa þeir einir rétt til að starfa hér á landi sem heilbrigðistæknar sem lokið hafa prófi í einhverri grein heilbrigðistækni og hlotið löggildingu heilbrmrh. að afloknu bóklegu og verklegu námi. Samkv. 2. gr. laganna setur ráðh. reglugerð með nánari ákvæðum um náms- og menntunarskilyrði fyrir hverja stétt heilbrigðistækna. Í grg. frv. þess, sem síðar varð að lögum nr. 64 1971, um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, kemur m.a. fram að ekki verði hjá því komist að skapa málum heilbrigðisstétta lagalegan grundvöll, til þess að unnt sé í fyrsta lagi að veita nýjum heilbrigðisstéttum viðurkenningu í formi löggildingar og í öðru lagi að útiloka vanmenntað fólk frá slíkum ábyrgðarstörfum.

Á grundvelli heimildar í lögunum um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir setti heilbr.- og trmrn. reglugerð um meinatækna 1973, þ.e. reglugerð nr. 180 frá því ári, en henni hefur tvívegis verið breytt.

Á undanförnum árum hefur það farið mjög í vöxt, að ýmsir hópar svokallaðra heilbrigðisstétta hafa sótt um sérstaka löggildingu. Hefur þá jafnan verið gripið til þess ráðs að setja sérlög um viðkomandi hóp þrátt fyrir tilvist laga nr. 64 1971, um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir.

Sannast sagna hefur einstökum tæknimenntuðum heilbrigðisstéttum verið illa við að láta flokka sig undir atmenn lög þegar um aðrar heilbrigðisstéttir, sem ekki teljast tæknilegar, gilda sérstök lög um hvern starfshóp.

Á það skal enn fremur bent, að starfssvið heilbrigðisstétta getur verið mjög mismunandi. Þannig er oft með misjöfnum hætti hvort telja eigi heilbrigðisstétt tæknimenntaða eða ekki.

Lög um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, nr. 64 1971, vernda ekki starfsheiti þeirra hópa sem undir þau falla, þar sem í lögunum er aðeins minnst á svokallaða heilbrigðistækna sem samheiti allra þeirra er vinna sem tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir. Þannig er starfsheitið meinatæknir ekki lögverndað sem slíkt.

Störf meinatækna eru á margan hátt mjög vandasöm og eru því gerðar sérstakar kröfur til menntunar og þjálfunar þeirra aðila er þau stunda. Störf meinatækna eru einkum fótgin í því að annast sjálfstæð og breytileg rannsóknarstörf á sviði sýklafræði, blóðmeina- og meinafræði og lyfjafræði. Það er á verksviði meinatækna að gefa læknum, hjúkrunarfræðingum og öðrum leiðbeiningar um töku, meðferð og geymslu sýna, svo dæmi séu tekin. Við slík störf er mikil þörf á nákvæmni, árvekni og staðgóðri þekkingu á þeim sviðum sem nefnd eru hér að framan. Röng niðurstaða úr rannsókn eða ruglingur á sýnum getur skipt sköpum fyrir sjúkling. Sérstaka gætni þarf enn fremur að viðhafa vegna sýkingarhættu við meðferð sýna.

Þótt hér að framan sé aðeins getið nokkurra atriða, sem að vísu skipta miklu máli, er augljóst að störf meinatækna eru margslungin og ekki á færi nema sérmenntaðs og sérþjálfaðs fólks. Liggur því ljóst fyrir að nauðsynlegt sé að tryggja sem best að störf á þessum vettvangi skili sem bestum árangri.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að þeir aðilar, sem ekki hafa réttindi við gildistöku laganna, en eru í starfi sem að einhverju leyti telst eðlilegast að meinatæknar gegni, geti fengið takmarkað og/eða tímabundið starfsleyfi. Gert er ráð fyrir því, að ráðh. verði heimilað, að fenginni umsögn Meinatæknafélags Íslands, að veita slíku fólki umrædd tímabundin eða takmörkuð starfsleyfi, en slíku skal ekki fylgja réttur til þess að kallast meinatæknir.

Ég tel rétt að útiloka ekki fólk, sem vinnur t.d. á sjúkrahúsum víðs vegar á landinu að störfum sem þessum, frá því að fá leyfi til að halda þeim störfum áfram. Enn fremur er nauðsynlegt að halda þeim möguleika opnum, að hægt verði að ráða til meinatæknastarfa tímabundið, svo dæmi sé tekið, aðila sem hafa vissa þekkingu og starfsreynslu á þessu sviði, í þeim tilvikum sem meinatæknir er ófáanlegur.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara frekari orðum um einstakar greinar þessa frv., en vísa til athugasemda við frv. sjálft og einstakar greinar þess.

Herra forseti. Ég leyfi mér hér með að leggja til að frv. þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. heilbr.- og trn. og 2. umr.