04.12.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

31. mál, stóriðjumál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég er enginn draumóramaður og mér líst ekkert sérstaklega vel á þá till. sem hér er til umr., og þaðan af síður líst mér á þá framsögu sem fylgdi henni. Þegar eitthvað blæs á móti er alltaf hætta á því, að einhverjir missi trúna á þjóðlega bjargræðisvegi og fyllist af vesöld og vonist til að einhverjir aðrir komi og bjargi þeim. En hlutirnir gerast ekki svona.

Ef þessi till. væri framkvæmd til hins ítrasta, þá væri þetta náttúrlega einfaldasta og fljótvirkasta leiðin til að steypa þessu þjóðfélagi á hausinn. Ég held að gamla stóriðjunefndin, sem hér er gerð tilraun til að endurvekja, sé dýrasta nefnd sem nokkurn tíma hefur starfað á Íslandi. Ég er þá ekki að telja eftir kaupið hennar, sem að vísu var allnokkuð, heldur er ég að tala um þá samninga sem gerðir voru í kjölfar þeirra nefndarstarfa. Við þolum ekki mjög marga svona samninga.

Fyrsti flm., hv. 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, og hv. þm. Benedikt Gröndal eru skoðanabræður alfarið í þessu máli, og þeir vitnuðu til góðrar reynslu. Hæstv. iðnrh. taldi hins vegar þessa reynslu slæma. Ég er sammála iðnrh. um að það er að vísu rétt, að ýmsir einstaklingar hafa hagnast verulega á þessum framkvæmdum og fyrir starfsemi þá sem þar fer fram, en þegar allt kemur til alls borgar náttúrlega þjóðfélagið stórfé með þessum fyrirtækjum. Þegar raforkan kostar 10 kr. kwst. úr nýrri virkjun og ekki fæst fyrir hana nema 3.90 kr. í járnblendiverksmiðjunni og 3.61 kr. hjá álverinu, þá verka þessi fyrirtæki eins og tilberarnir forðum, sem hlupu undir málnytupeninginn. Og raforkuver okkar eiga að geta verið, ef skynsamlega er á haldið, okkar málnytupeningur.

Raforkuverð til stóriðju á Íslandi hefur verið með þeim hætti — eins og hér er rækilega búið að lýsa af hæstv. iðnrh. — að ekki er viðunandi og eiginlega varla sæmandi að tala um það. Á 99. löggjafarþingi fluttum við hæstv. núv. menntmrh., Ingvar Gíslason, till. til þál. um raforkusölu á framleiðslukostnaðarverði til stóriðju, þar sem við lögðum til að kosin yrði sjö manna nefnd sem fengi það verkefni að semja og leggja fyrir Alþingi frv. til l. um raforkusölu til orkufreks iðnaðar. Frv. þetta átti að móta reglur sem tryggðu það, að ætíð væri greitt a.m.k. meðalframleiðslukostnaðarverð á raforku í landinu frá orkufrekum iðnaði og menn gengju ekki frá samningum öðruvísi en með því fororði. Til þess þyrfti náttúrlega að endurskoða árlega raforkusölusamninga og leiðrétta þá.

Það er dálítið fróðlegt að fylgjast með hvernig þróunin hefur verið í orkusölu Landsvirkjunar til álversins. Þegar álverið tók til starfa 1969 borgaði það 68% af því verði sem Rafmagnsveitur ríkisins urðu að greiða Landsvirkjun. En nú, 1980, er þetta komið niður í líklega 25%. Á þessu sér maður þróunina. Bent hefur verið á að álverið hefur tapað — eða það segist hafa tapað stórfé á þeim tíma sem það hefur verið starfrækt í Hafnarfirði. E.t.v. er þetta bókfærsluatriði, maður veit ekkert um það. Ég geri ráð fyrir að sú niðurstaða sé rétt, að gróði hringsins sé fluttur úr landi og þetta sé reikningslega látið koma svona út hjá okkur. En við höfum engin tök á að reisa rönd við því. Við vitum sjálfir að á Grundartanga er bullandi tap. En svo tala forráðamenn járnblendiverksmiðjunnar digurbarkalega um að taka ákvörðun um að reisa þriðja ofninn á Grundartanga, eins og þeir þurfi ekkert að spyrja Alþingi að því. Ég lagðist á sínum tíma bæði gegn Union Carbide-samningnum og Elkemsamningnum, og einnig lagðist ég gegn stækkun álversins, þannig að ég get nokkuð djarft úr flokki talað. Menn eru að tala um að það þurfi að skapa uppvaxandi þegnum þjóðfélagsins starfsskilyrði, en það er ekki þægilegt að gera það með öllu dýrari hætti en með þessum stóru fyrirtækjum. Þetta eru voðalega dýr fyrirtæki og það fást ekki mörg atvinnufyrirtæki fyrir stórfé. Það er ekki sama hver þessi stóriðnaður er, og auðvitað komum við til með að reisa einhver fyrirtæki í orkufrekum iðnaði. En það er ekki heldur sama hver á fyrirtækið. Ég vil taka það fram, að eignarfyrirkomutag að járnblendiverksmiðjunni samræmist stefnu Framsfl. sem mótuð var á 17. þingi flokksins 1978. Ég vil nú, með leyfi forseta, lesa örfáar setningar úr þeirri stefnuskrá:

„Þingið lýsir sig andvígt þeirri stefnu að hleypa erlendum auðhringum inn í atvinnulíf Íslendinga. Samstarf við erlenda aðila um orkufrekan iðnað komi aðeins til greina í einstökum tilfellum, enda sé þess ætíð gætt, að meiri hluti eignaraðildar sé í höndum Íslendinga. Starfsemi slíkra félaga skal háð íslenskum lögum og dómsvaldi, enda njóti þau ekki betri lögkjara en sambærileg íslensk fyrirtæki. Þingið varar við rekstri þeirrar stóriðju sem kann að vera hættuleg heilsu og umhverfi manna og valda óeðlilegri félagslegri og líffræðilegri röskun. Telur þingið að mengunarvaldandi stóriðja samræmist ekki íslenskum aðstæðum og sé andstæð óskum fólksins í landinu. Legg ja ber áherslu á að leitað verði eftir hentugum iðnaði fyrir landbúnaðarbyggðir og önnur fámenn byggðarlög í því skyni að koma í veg. fyrir byggðaröskun.“

Orkulindir okkar eru mikill auður og þær ber okkur að sjálfsögðu að nýta. En við þurfum að gera það með fyrirhyggju. Við þurfum að gera það þannig að það henti okkar þjóðfélagi og æskilegri framtíðaruppbyggingu þess. Hér var verið að segja frá því áðan, að árnar rynnu engum til gagns til sjávar óbeislaðar. En óbeislaðar orkulindir eru, þegar nánar er að gáð, varasjóður til framtíðarinnar í orkusveltandi heimi. Það er alls ekki svo, að þær séu ekki eign í sjálfu sér, þó að ekki sé virkjað örar en þjóðfélaginu hentar.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á það, að atvinnuuppbygging á Íslandi verður að vera í höndum Íslendinga sjálfra. Þeir verða að hafa tögl og hagldir í hverju einasta fyrirtæki. Það er óbærileg staða fyrr en varir ef þeir hafa það ekki, og það hefur komið sér vel á Grundartanga, þó að mínum dómi hefði mátt ganga þar betur frá, að hafa þó formlega meirihlutaaðild í stjórn þess fyrirtækis.

Það hefur verið upplýst í þessum umræðum, að á vegum iðnrn. er fylgst vel með þróun á möguleikum orkunýtingar. Og ég held að það sé ekki mjög brýnt að samþykkja þessa till., og alls ekki óbreytta, vegna þess að ég tel að hlutirnir séu í sæmilegu lagi hjá núv. ríkisstj. Umr. frestað.