04.12.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

86. mál, iðnaðarstefna

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um iðnaðarstefnu, sem nú hefur verið tekin á dagskrá og flutt er af ríkisstj., er að mörgu leyti svo óvenjuleg hvað form og þinglega stöðu hennar snertir, að ég sé mér ekki annars kost en að fá að tefja örlitla stund til að ræða um þingsköp og þá til þess að spyrja og fá skýringar á nokkrum atriðum varðandi það, hvernig ríkisstj. hugsar sér að þetta mál gangi fyrir sig innan ramma eðlilegra þingstarfa og þingskapa.

Það er mjög sjaldgæft að ríkisstj. flytji till. af þessu tagi. Ríkisstj. flytur oft þáltill. um stjórnskipun og utanríkismál, en ekki um mál sem þetta, það er óalgengt.

Hér á landi er venjan sú, að ríkisstj. móti sína stefnu í samráði við þá, sem styðja hana, og tilkynni síðan þá stefnu eins og þingsköp mæla fyrir um. Síðan koma einstök atriði fyrir Alþingi í lagafrv. og á annan hátt, eftir því sem nauðsyn krefur. En nú hefur — að því er ég best fæ séð — einn mikilsverður kafli stjórnarsáttmálans verið tekinn út úr, umskrifaður dálítið ítarlegar en hann er í stjórnaryfirlýsingunni, og hann er lagður fyrir Alþingi sem þáltill. til samþykktar, og sagt er að nú eigi Alþingi að móta iðnaðarstefnu ríkisstj. Ég vil því varpa fram þeirri spurningu, hvort ríkisstj. sé með þessu að bjóða stjórnarandstöðunni til samninga innan ramma þingstarfa um stjórnarstefnuna í iðnaðarmálum. Ef svo er, þá er það nýmæli, sem kemur dálítið á óvart og ég er ekki alveg búinn að átta mig á.

Þar sem ég lít svo á að hér sé um að ræða hluta af stefnu ríkisstj., till. sem hún flytur um iðnaðarstefnu, ber þá að líta á þessa till. sem trauststillögu á hæstv. iðnrh. eða ríkisstj.? Það er hægt að flytja trauststillögur alveg eins og vantrauststillögur og hefur oft verið gert. Ef svo er að þessi till. um mótun iðnaðarstefnu er í raun og veru trauststillaga, hvað gerist þá ef Alþingi kemur því ekki í verk eða lýkur því ekki að samþykkja hana eða vísar henni frá? Ætlar þá hæstv. iðnrh. eða kannske stjórnin öll að segja af sér? Þetta er formsatriði sem mér finnst mikilvægt fyrir okkur þm. að fá einhverja hugmynd um.

Nú skulum við athuga mjög fljótlega hvað gerist í sambandi við flutning þessarar tillögu. Ríkisstj. flytur ályktunartillögu og biður Alþingi um að gera þál. þess efnis, að Alþingi feli ríkisstj. að framkvæma eigin stefnu í iðnaðarmálum! Til hvers er þetta? Þetta eru vinnubrögð sem ég á erfitt með að skilja, ég sé ekki tilganginn í þeim.

Við skulum taka annað. Þetta er ítarleg og vel unnin till., en hún er morandi af hugmyndum eða efnisatriðum sem gera ráð fyrir stórfelldum fjárútlátum sem annaðhvort þyrftu fjárveitingar til eða þá lán sem Alþingi þyrfti að leyfa. Hvernig kemur þetta út? Ríkisstj. flytur þáltill., biður Alþingi að gera ályktun þar sem þessari sömu ríkisstj. er falið að útvega fé til iðnaðarþarfa. M.ö.o.: ríkisstj. er falið að biðja þetta sama Alþingi um fjárveitingar eða samþykkt á lánum svo að það fáist fé sem þessi sama ríkisstj. getur síðan notað í iðnaðarþágu. Ég skil ekki hver tilgangurinn er með þessum leik. Þetta er eins og boltaleikur. Alþingi og ríkisstj. kasta þessu á milli sín og ekkert gerist auðvitað. Af hverju getur ekki ríkisstj. beðið um fé eins og eðlilegt er og eins og gert er í fjárlagafrv.?

Þá er enn eitt um það, hvað gerist með þessari till. Í henni eru nefnd ýmis ágæt mál: starfsumhverfi, hollustuhættir verkafólks og náttúruvernd, sem Alþingi er nýlega búið að samþykkja mikla lagabálka um. Nú flytur ríkisstj. þáltill. þar sem hún biður Alþingi um að gera svo vel að álykta að fela ríkisstj. að framkvæma löggjöf. Þetta er það sem um er að ræða. Vita ekki ráðherrar í þessari ríkisstj. að það þarf enga þáltill. til að segja þeim að þeir eigi að framkvæma löggjöf? Þetta er algerlega órökrétt og eiginlega óskiljanlegt, hvernig menn hugsa sér þetta í þinglegu samhengi. Ríkisstj. ber skylda til að framfylgja þeim lögum sem Alþingi setur, og það þarf ekki að ræða frekar.

Nú á þetta mál væntanlega að fara til nefndar. En hvað á sú n. að gera? Ég hef það fyrir satt, að hæstv. ráðh. hafi lagt mikla vinnu í þetta mál og með starfshópum og rn. hafi hann verið upp undir ár að ganga frá plagginu. Á þá n. að samþykkja þetta að óathuguðu máli eða á hún að fara ofan í saumana á þessu efnislega? Ætli það þurfi þá að vera minna en ársvinna hjá henni, því að það tók ár að koma plagginu saman eða eitthvað nálægt því? Eða var það ætlun ráðh., að n. ætti að afgreiða þetta í skyndi, athugunarlaust? Með því að flytja stefnu sína í iðnaðarmálum sem þáltill. er ríkisstj. búin að bjóða heim brtt., og þær eru þegar komnar fram frá einum þm. Sjálfstfl. Og þá kemur aftur þessi spurning: Er ríkisstj. að bjóða Alþingi, sérstaklega stjórnarandstöðunni, samninga um stefnu ríkisstj. í iðnaðarmálum? Þetta er algert nýnæmi í mínum augum.

Svo kemur það sem kannske er veigamesta atriðið. Það hefur verið deilumál í sambandi við þingsköp mestalla þessa öld, hvort Alþingi geti ákveðið fjárveitingu með ályktun. Þessi deila hefur ekki verið útkljáð. Það var nýlega fjmrh. sem neitaði að ansa þáttill. ef þær kostuðu peninga, nema Alþingi hefði sérstaka fjárveitingu við hliðina. Svo eru til fræðimenn sem segja: Ef ráðh. eyddi einhverjum peningum í sambandi við þál. yrði það ekki talið honum til saka. En þar sem þessi till. um iðnaðarstefnu er með marga liði sem kosta stórar upphæðir, þá finnst mér mikilvægt að vita hvernig hæstv. ráðh. hugsar sér þetta. Telur hann að Alþingi sé að skuldbinda sig með því að samþykkja þetta? Telur hann að ríkisstj. öðlist heimildir í sambandi við útvegun fjár eða lántöku ef Alþingi samþykkir þessa till.? Við verðum að vita hvað við erum að gera þegar við afgreiðum þessa till., og það er ekki lítið atriði ef þannig væri litið á, að Alþingi afhenti ríkisstj. stóra sneið af fjárveitingavaldinu. Ég tel að þessu verði menn að gera sér grein fyrir og að þetta sé óútkljáð mál. Það er enginn bókstafur til sem leysir þessa gömlu deilu sem stingur alltaf öðru hverju upp kollinum.

Ég vil endurtaka það, að ég sé ekki að þessi till. skapi neitt annað en vandræðalegan boltaleik milli ríkisstj. og Alþingis og ekkert gerist. Ríkisstjórnir móta ekki stefnu sína á þennan hátt. Þær gera það sjálfar í samráði við sína stuðningsaðila hér á Íslandi, og síðan er það venjan, að þær tilkynna þessa stefnu sína. Það er gert ráð fyrir því í þingsköpum, og mér finnst þetta bera keim af því sem tíðkast í sumum öðrum löndum í austurátt héðan, að stjórnin leggur fram svona plögg og svo eru þau samþykkt á þinginu með lófataki og þá er komin stefna.

Ég vil gjarnan fá skýringar hjá hæstv. ráðh. á því, hvernig hann hugsar þetta mál. Ég tel að svona tillögur — við höfum séð eða heyrt um fleiri — séu þinglega mjög varhugaverðar. Ég ætla þó ekki, hæstv. forseti, að halda því beinlínis fram, að þetta sé óþinglegt, en það er nærri þeim mörkum. Og ég mundi gefa hæstv. ráðh. þau ráð, ef hann þiggur nokkur slík frá mér, að draga þessa till. til baka og gefa síðan Alþingi skýrslu, gera þar grein fyrir þessari stefnumótun, sem hann hefur unnið í rn. sínu, og láta síðan það, sem Alþingi þarf að taka ákvarðanir um, þar á meðal fjárveitingar og lánsheimildir, koma eftir venjulegum leiðum. Það er sú venjulega leið, en þessi nýja aðferð er klúður sem tekur mikinn tíma, bæði frá Alþingi og vafalaust fleirum, og er mjög vafasöm í framkvæmd. — Ég þakka þolinmæði hæstv. forseta.