04.12.1980
Sameinað þing: 29. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

86. mál, iðnaðarstefna

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka það fram, að ég fagna framkominni þáltill. á þskj. 93. Þrátt fyrir þær umræður, sem áttu sér stað fyrr á þessum fundi um þingsköp, tel ég það þakkarvert þegar hér á hv. Alþ.gefst tækifæri til þess að ræða um iðnaðarmál, um iðnþróun. Það kann að sjálfsögðu að þykja skringilegt þegar ríkisstj. biður Alþingi að fela ríkisstj. að fylgja ákveðinni stefnu í iðnaðarmálum, en slík stefnumótun gefur okkur samt sem áður tækifæri til að ræða þessi mál og það ber auðvitað að virða.

Ég get þó ekki orða bundist um það, að mér finnst óvenju hratt vera farið með þetta mál í gegnum þingið, ekki síst þegar tekið er tillit til þess, að á undan þessu máli á dagskrá þessa fundar eru mál, sem jafnvel eru enn brýnni en þessi stefnumótun, mál eins og landbúnaðarmálin annars vegar og vegamálin hins vegar, hvort tveggja mál sem hafa verulega þýðingu fyrir hv. Alþingi á þessu ári, því að í þeim er að finna ákvæði sem snerta fjárútlát og þurfa að koma til kasta m.a. fjvn. áður en fjárlög fyrir næsta ár verða afgreidd.

Mér finnst þó áhugi hæstv. ráðh. vera áhugaverður í þessum efnum og um leið þakkarverður. Ég mun ekki í þessari ræðu minni ræða till. í smáatriðum efnislega. Mér gefst kostur á því að kanna þetta mál rækilega í n. þar sem ég á sæti, í hv. atvmn. Sþ.

Við höfum, nokkrir þm. Sjálfstæðisfl., lagt fram brtt. við till. til þál. um iðnaðarstefnu. Þær brtt. er að finna á þskj. 187. Þessir þm. eru auk mín þeir Jósef H. Þorgeirsson, Matthías Á. Mathiesen, Þorvaldur Garðar Kristjánsson og Pétur Sigurðsson. Áður en ég lýsi þeim till. sem koma fram á þessu þskj., vil ég þó gefa nokkrar skýringar á því, hvers vegna við flytjum tillögurnar.

Á landsfundi Sjálfstæðisfl. 1979 var samþykkt ítarleg ályktun um stefnumótun í iðnaði. Þar var vakin athygli á þeim tímamótum sem íslenskur iðnaður stendur nú á, en um næstu áramót falla niður að fullu tollar á innfluttum samkeppnisvörum. Eftir það býr iðnaðurinn við opna alþjóðlega samkeppni eins og sjávarútvegur hefur lengi gert. Þá var í ályktuninni bent á hinar breyttu aðstæður sem óvissan í orkumálum heimsins og vaxandi iðnvæðing þróunarlandanna hafa skapað. Loks var í ályktuninni lögð áhersla á þá þróun, að iðnaðurinn taki í vaxandi mæli við því hlutverki að vera vaxtarbroddur atvinnulífsins og undirstaða batnandi lífskjara. Á grundvelli þessa var ályktað að keppa bæri að eftirfarandi markmiðum í iðnaðarmálum:

1) Að iðnaðurinn njóti jafnrar aðstöðu og starfsskilyrða á öllum sviðum og sjávarútvegur og erlend iðnfyrirtæki sem iðnaðurinn keppir við.

2) Að sköpuð verði nauðsynleg almenn skilyrði til þess að einkarekstur og einstaklingsframtak geti þrifist hér á landi.

3) Að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til þess að auðvelda einkaframtakinu að fara inn á nýjar brautir, bæði starfandi fyrirtækjum og nýjum.

4) Að stefnt verði að skipulagningu raforkuvinnslu og orkufreks iðnaðar með forgöngu ríkisins en með aukinni þátttöku einkaaðila í iðnaði. Gengið verði til samstarfs við erlenda aðila eftir því sem hagkvæmt er á hverjum tíma, en stefnt að virkari þátttöku innlendra aðila.

5) Undirbúningur verði hafinn að innlendri eldsneytisframleiðslu með raforku með því að reisa tilraunaverksmiðju.

Samstarfsnefnd um iðnþróun sem skilaði áliti vorið 1979, kemst í aðalatriðum að sömu niðurstöðu varðandi forsendur iðnþróunar, eins og sést á fskj. þáltill. Telur samstarfsnefndin það grundvallaratriði iðnþróunar að komið verði á jafnræði með iðnaði og sjávarútvegi til að skapa vaxtarforsendur fyrir iðnað. Þá er samstarfsnefndin þeirrar skoðunar, að ekki verði unnt að veita vaxandi fjölda ungs fólks á vinnumarkaði góða atvinnumöguleika nema lögð verði mikil áhersla á eflingu arðvænlegs iðnaðar með góða möguleika á vaxandi framleiðni á allra næstu árum. Samstarfsnefndin telur einnig að gera þurfi á raunsæjan hátt ráð fyrir hlut orkufreks iðnaðar í uppbyggingu atvinnulífsins í landinu.

Þáltill. hæstv. ríkisstj. byggir í meginatriðum á áliti samstarfsnefndarinnar sem, eins og að framan er lýst, fellur í flestum atriðum ágætlega að ályktun landsfundar Sjálfstfl. Sjálfstæðismenn ættu því að geta stutt tillöguna.

Við teljum samt, flutningsmenn brtt., ástæðu til að gera vissar breytingar á þáltill. Mun ég nú skýra þær í einstökum atriðum.

Á þskj. 187 er að finna átta brtt. Sú fyrsta er á þá leið, að í kaflanum um markmið komi, með leyfi forseta: „Nýr liður verði nr. 1 og hljóði þannig: Að byggja iðnþróun á grundvelli frjáls framtaks einstaklinga og samtaka þeirra og örva þessa aðila til nýrra átaka á sviði nýjunga í framleiðslu.“

Í sambandi við þessa till. er rétt að taka það fram, að okkur þykir ástæða til að undirstrika þetta grundvallarmarkmið iðnaðarstefnu, sem fylgja ber að okkar áliti og hefur reyndar stuðning í skýrslunni frá samstarfsnefnd um iðnað.

2. tölul. í brtt. okkar á þskj. 187 er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Liður 1 verði nr. 2, liður 2 verði nr. 3, liður 3 verði nr. 4 og síðan komi nýr liður nr. 5:

Að nýta sem best þá möguleika til iðnaðarframleiðslu, sem felast í innlendum orkulindum, m.a. með hraðri uppbyggingu orkufreks iðnaðar í samvinnu við erlenda aðila eftir því sem hagkvæmt er á hverjum tíma. Liður 4 verði liður nr. 6 og liður 5 nr. 7.“

Þetta eru þær till. sem við flytjum um markmiðin. Við viljum með þessu tryggja að það komi fram í markmiðum iðnaðarstefnu hvernig best verði staðið að nýtingu innlendra orkulinda, raforku og jarðvarma. Til þess verði m.a. hraðað uppbyggingu orkufreks iðnaðar í samvinnu við erlenda aðila eftir því sem hagkvæmt er á hverjum tíma. Eðlilegt er og sjálfsagt að nýting þessara auðlinda verði snar þáttur í iðnþróun næstu áratuga.

Í sambandi við þetta mál er rétt að benda á það, sem reyndar hefur komið fram í umræðum á hv. Alþingi fyrr, að lítið hefur áunnist í því að efna til úrvinnslu iðnaðar á þeim sviðum sem stóriðja er rekin hér á landi. Enn fremur hefur litið verið kannað hvernig hægt er að samnýta t.d. hafnir, veitukerfi o.fl. fyrir stóriðjuna annars vegar og annan iðnað hins vegar, sem gæti notið stuðnings af stóriðjunni með slíkri samnýtingu. Enn fremur hefur lítill gaumur verið gefinn þeim tækifærum sem kynnu að leynast í hugsanlegum samningum við erlenda aðila um að hingað til lands komi tækni með sérmenntuðum mönnum sem við gætum haft gagn af í iðnþróunarmálum.

Fyrr á þessum fundi í dag urðu umræður um stóriðjustefnu sjálfstæðismanna. Í þeim umræðum tók hæstv. iðnrh. til máls um stefnu sjálfstæðismanna og hafði þá flest á hornum sér. Ég tel að ástæðan fyrir því hafi fyrst og fremst verið sú, að á nýafstöðnu Alþýðubandalagsþingi kom mikil gagnrýni fram á hæstv. ráðh., m.a. frá kjósendum hans á Austurlandi sem hafa þá skoðun að stóriðja geti verið framtíðarlausn að hluta fyrir þann landshluta. Það kom enn fremur fram í ræðu hæstv. ráðh. um stóriðjumálin, sem þessi þáltill. fjallar jafnframt um, að hann talaði eins og barn um þau mál og sérstaklega um virkjunarkostinn. Hann sagði í sinni ræðu að líkast til væri sá virkjunarkostur æskilegastur, ef skilja mátti orð hans eins og þau voru sögð, að loka Straumsvíkurverksmiðjunni. Þetta er lausnarorð hæstv. iðnrh. á þeim vanda sem er uppi í orkumálum þjóðarinnar. Í framhaldi af þessum ummælum sínum fór hæstv. iðnrh. út á hála braut. Hann ræddi í ræðu sinni um áhrif erlendra auðhringa á stjórnmálamenn hér á landi án þess að gefa nokkrar viðhlítandi skýringar á því, hvað hann ætti við. Slíkur málflutningur er auðvitað hæstv. ráðh. til háborinnar skammar, og er þá alveg sama í hvers konar dulargervi hann reynir að koma slíkum málflutningi.

Hæstv. ráðh. hefur hælt sér af því að hafa lagt niður stóriðjunefnd svokallaða. Um þetta var leiðari í Þjóðviljanum í janúar 1979 þar sem svo segir, með leyfi forseta:

„Hjörleifur Guttormsson iðnrh. hefur á síðustu vikum og mánuðum tekið hressilega til í ráðuneyti sínu.“ — Ég skýt því inn að það var eftir núv. forsrh. — „Það heyrir til tíðinda þegar ráðh. tilkynnir á einu bretti að hann hafi lagt niður tólf nefndir á vegum ráðuneytis síns og leyst frá störfum 72 nefndarmenn og ritara. Öðrum þræði er þessi tiltekt skýr vottur um stefnubreytingu í iðnrn. og að hinu leytinu er um að ræða verkalok nefnda eða tilgangsleysi þeirra við breyttar aðstæður. Í samræmi við samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna hefur t.d. viðræðunefnd um orkufrekan iðnað verið lögð niður. Með þeirri ráðstöfun er lögð áhersla á að engin áform eru uppi um það að efna til frekara samstarfs við erlenda auðhringa um stóriðju á Íslandi í náinni framtíð. Það virðist einnig vera heillavænlegra sjónarmið, að iðnrn. sjálft annist könnun á öllum hugmyndum um orkufrekan iðnað á Íslandi og skipi til þess starfs nefndir í hverju einstöku tilfelli í stað þess að loka slík mál inni í fastanefnd. Hættan er sú, að atorkusamir umboðsmenn erlendra auðhringa reyni að finna sér bakdyraleið að íslenskum orkulindum með símötun slíkrar nefndar á gylliboðum.“

Meira les ég ekki úr þessum leiðara Þjóðviljans frá 3. jan. 1979.

Núv. hæstv. forsrh., sem var iðnrh. áður en núv. hæstv. iðnrh. tók við þeirri stöðu, skrifaði um þetta grein í Morgunblaðið 10. jan. 1979 undir heitinu: „Áramótaskaup iðnaðarráðherrans.“ Þar sagði hann í upphafi, með leyfi forseta:

„Margt er sér til gamans gert um áramót. Hjörleifur iðnaðarráðherra Guttormsson gerði sér afrekaskrá og kom á framfæri við fjölmiðla. Fréttamenn fögnuðu skrá þessari, enda eru íþróttafréttir vinsælar og hafa forgang í fjölmiðlum. Það hlaut að teljast til meiri háttar tíðinda í íþróttaheiminum, að einn maður hefði í einni lotu lagt að velli tólf nefndir með sex tylftir manna innanborðs. Hefur margur orðið frægur af minna tilefni.“

Hér lýkur þessari tilvitnun í hæstv. forsrh. sem jafnframt er fyrrv. iðnrh.

Það kemur fram og á það var lögð sérstök áhersla í Þjóðviljanum, að hæstv. iðnrh. hefði lagt niður stóriðjunefndina. En hver setti nú þessa stóriðjunefnd á stofn? Ja, líkast til var það íhaldið. Eða voru það kannske kratarnir? Nei, svarið er að það var Magnús Kjartansson sem setti þessa nefnd á laggirnar í sept. 1971. Þessi nefnd hafði lokið störfum og hæstv. iðnrh. lagði hana niður. Þjóðviljinn tók málið upp og sagði að nú yrði heldur betur stefnubreyting, því nú ættu erlendir auðhringir ekki aðgang að íslenskum stjórnmálamönnum. Og það er nákvæmlega þessi sami málflutningur sem enn þá heyrist hér á hv. Alþingi í ræðum hæstv. iðnrh. Þó er hann búinn að sitja í rn. þennan tíma. Sumir virðast læra seint.

En hvert var hæstv. ráðh. að skjóta sínum skotum hér áðan — fyrr á fundinum, þegar hann talaði um áhrif erlendra auðhringa á íslenska stjórnmálamenn? Ég er hér mér bréf sem er dagsett 21. maí 1974. Það er á hausi iðnrn., merkt I/152, og er stílað til herra Malone, Vicepresident, Union Carbide Corporation, og hefst á þessum orðum: „Kæri herra Malone.“

Í þessu bréfi er fjallað um jákvæðar undirtektir undir stóriðjuhugmyndir Union Carbide hér á landi. Og þar segir m.a. í tauslegri þýðingu:

„Fyrst og fremst vil ég staðfesta að ríkisstjórnin og ég erum þeirrar skoðunar, að skilyrðin, sem samið var um, séu aðgengileg fyrir okkur í öllum aðalatriðum. Og við höfðum og höfum enn mikinn áhuga á því ðð koma stóriðjunni á sem allra fyrst.

Yðar einlægur.“

Og hver haldið þið nú að skrifi undir þetta bréf? Einhver íhaldsráðherrann? Einhver krataráðherrann? Nei, undir þetta bréf skrifar fyrrv. iðnrh. Magnús Kjartansson.

Getur það virkilega verið, að hæstv. núv. iðnrh. komi hér í ræðustól á hv. Alþingi og sendi flokksbróður sínum þetta skeyti með þessum hætti? A.m.k. á meðan hann talar ekki á skýrara mannamáli en hann gerir hér í ræðustól verður málflutningur hans skilinn með þeim hætti. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. sjái að sér, hann tali ekki í slíkum hálfkveðnum vísum. En þurfi hann að vara íslensku þjóðina við einhverjum íslenskum stjórnmálamönnum, þá á hann að tala hreint út. Til þess er ætlast af honum.

Við flytjum átta brtt. við leiðirnar sem nefndar eru á 1. bls. í till. til þál. á þskj. 93. Með 1. till. er vakin athygli á þeim vanda sem við blasir þegar lög um jöfnunargjald og aðlögunargjald falla úr gildi í árslok 1980. Hin afar óheppilegu uppsöfnunaráhrif söluskattsins munu þá á ný verka óheft og óbætt. Með síðustu hækkun ríkisstj. á söluskatti hefur vandinn enn vaxið. Virðisaukaskattur virðist eina lausnin sem haldbær er til lengdar. En til þess að hann geti tekið gildi í ársbyrjun 1981 þarf að hefja undirbúning nú þegar. Reyndar er það orðið of seint. En í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. er lofað að kanna og athuga þetta mál, og vissulega væri fengur að því, ef hæstv. iðnrh. vildi vera svo góður — þegar hann tekur aftur til máls í þessari umræðu — að skýra frá hvernig það starf gengur. Samræmd álagning aðstöðugjalds og launaskatts á alla framleiðslustarfsemi í landinu er mikilvæg forsenda fyrir því jafnræði með atvinnuvegum sem stefnt er að í þessari þáltill. Sömu sögu er að segja um endurkaup rekstrarlána.

Með 2. brtt. á þskj. 187 er viðbót þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess, að takmörkuðu fjármagni til fjárfestingar sé varið á þann hátt, að ekki komi til skerðingar lífskjara, en slíkt er óhjákvæmilega afleiðingin ef arðsemi fjárfestingar, sem fé er veitt til, er ekki höfð áð leiðarljósi. Þetta á jafnframt stuðning í skýrslunni sem samstarfsnefndin um iðnþróun gaf út á sínum tíma og er fskj. með till. hæstv. ríkisstj.

Með 3. brtt. er lögð áhersla á að fleiri aðilar en ríkisvaldið taki þátt í uppbyggingu fjármagnsfreks nýiðnaðar. Auk þess felur viðbótartillagan í sér þann skilning, að þegar sagt er: „lúti íslenskum yfirráðum“, sé átt við lögsögu. Þessi viðbót er í samræmi við þá stefnu sem fram kemur í þáltill. Sjálfstfl. um stefnumótun í stóriðjumálum og telja verður að þingmeirihluti sé fyrir, eins og kom fram í umræðum fyrr á þessum fundi.

4. brtt. þarfnast ekki skýringa. Þetta ákvæði var í textanum síðast þegar þáltill. hæstv. ríkisstj. var lögð fram — og þá í nafni hæstv. iðnrh. eins — en hefur fallið út af einhverjum ástæðum síðan. Sama má segja um 5. brtt., hún þarfnast ekki skýringar.

Með 6. brtt. við leiðirnar í þáltill. hæstv. ríkisstj. er greininni breytt í það horf sem áður var og er í þeim anda sem iðnaðarskýrslan er skrifuð í.

Um 7. brtt. vit ég segja þetta: Á sama tíma og hæstv. iðnrh. stendur að till. um eflingu fjárfestingar í iðnaði, m.a. með ráðstöfunum í skattamálum, hefur hann staðið að álagningu nýbyggingargjalds sem beinlínis hefur þann tilgang að draga úr fjárfestingu í atvinnuhúsnæði. Lagt er til að það. verði fellt niður þegar í stað eða verði a.m.k. ekki endurnýjað um næstu áramót. Jafnframt má benda á að flestir fjárfestingarlánasjóðir, þ. á m. Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður, veita nú einungis fullverðtryggð eða gengistryggð lán, og það stuðlar að því, að fjármagn rennur til arðvænlegra verkefna í iðnaði.

Varðandi 8. brtt. eru flm. þeirrar skoðunar, að hér eftir sem hingað til eigi almenn iðnþróun að byggjast fyrst og fremst á framtaki einstaklinganna. Þeim og samtökum þeirra verði sköpuð nauðsynleg almenn skilyrði til nýrra átaka á þessu sviði. Við erum jafnframt andvígir mismunun milli rekstrarforma. Jafnræði á að ríkja og sömu reglur og sami aðbúnaður á að gilda um hin margvíslegu félags- og rekstrarform einstaklinga. Þá eru flm. brtt. sammála þeirri skoðun samstarfsnefndar um iðnþróun, að samtök iðnaðarins, bæði atvinnurekendur og launafólk, verði hvött til að taka upp umræður um aðild starfsmanna að rekstrarábyrgð og hlutdeild í afkomu fyrirtækja í þeim tilgangi að efla efnahagslegt lýðræði í atvinnurekstri og bæta árangur við framleiðslu.

Ég hef nú lýst brtt. okkar nokkurra sjálfstæðismanna sem við höfum flutt á þskj. 187. Ég sagðist ekki mundu fjalla um einstök atriði í till. hæstv. ríkisstj., en vil þó gera undantekningu um tvo liði.

Í fyrsta lagi vil ég nefna 8. tölulið í leiðunum, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn á iðnrekstri ríkisins verði samræmd og gerð markvissari með tilliti til iðnþróunar. Þannig verði skipulagslegt forræði slíks iðnaðar í höndum aðila er hafi fjárhagslegt bolmagn til að undirbúa og standa fyrir arðvænlegum nýiðnaðarverkefnum.“

Það getur verið dálítið erfitt að átta sig á hvað þetta þýðir nákvæmlega. En hæstv. ráðh. fór nokkrum orðum um þennan tölulið í framsöguræðu sinni áðan og minntist í því sambandi á eignarhaldsfyrirtæki „holding company“ eða „,statsbolag“, sem hann nefndi svo úr sænskri tungu. Að okkar áliti þýðir þessi grein ekkert annað en það sem samstarfsnefndin um iðnþróun er að segja í kaflanum um stofnun nýiðnaðarfyrirtækja á bls. 171 í grænu bókinni, sem er fskj. með þáltill. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samstarfsnefndin leggur áherslu á nauðsyn þess, að greiðari aðgangur fáist að lánsfé til fjárfestinga í iðnaði og hærra hlutfall verði lánað en verið hefur, enda réttlæti arðsemi fjárfestingarinnar tánið. Verði þannig unnt að virkja frumkvæði einkaaðila og fyrirtækja til fjárfestingar í myndarlegum nýiðnaðartækifærum. Það er skoðun samstarfsnefndarinnar, að frumkvæði eða a.m.k. hlutdeild ríkisins verði óhjákvæmileg í stofnun margra stærri nýiðnaðarfyrirtækja. Sýnist nefndinni nauðsynlegt að tekið sé gagngert á því máli með einhverjum hætti. Til álita gæti komið að setja allan iðnrekstur á vegum ríkisins undir eitt eignarhaldsfyrirtæki (holding company), sem m.a. hafi það markmið að fara með hlutverk hins raunverulega eiganda gagnvart fyrirtækjum sem ríkið á aðild að. Þannig fáist eðlilegt eftirlit með rekstrinum og þess gætt, að hann sé í samræmi við eðlilegar arðsemiskröfur og að ákvarðanir eigandans séu teknar með skjótum hætti og verði ekki pólitískt bitbein milli ráðuneyta. Pólitískar ákvarðanir, sem hafa í för með sér skuldbindingar sem draga úr arðsemi eða auka stofnkostnað, séu aðskildar frá arðsemissjónarmiðum og þá reiknaðar sérstaklega til kostnaðar sem Alþingi eða ríkisstj. taki síðan ákvörðun um.“ — Ég skýt því hér inn í, að hér er átt við svokallaða félagslega þætti, eins og t.d. koma fram í tillögum Rafmagnsveitna ríkisins.

„Eignarhaldsfyrirtækið þyrfti að hafa fjárhagslegt bolmagn og sjálfstæði til að stofna ný fyrirtæki, sem metin eru arðvænleg, og geti látið fara fram rannsóknir og þróunarstarfsemi til undirbúnings lokaákvörðun. Gæti það þannig tekið á móti hugmyndum ýmist frá opinberum stofnunum (Iðntæknistofnun Íslands o.fl.), sem vinna að þróunarmálum, eða sveitarfélögum, fyrirtækjum eða einkaaðilum og tekið þátt í stofnun fyrirtækis með þeim hætti sem hentar hverju tilfelli.

Arður af fyrirtækjum og hlutabréfum í ríkiseign rynni til eignarhaldsfyrirtækisins svo og hugsanlegt andvirði seldra bréfa eða eignir uppleystra hlutafélaga. Væri stjórninni heimilt að ráðstafa slíkum tekjum í nýjan rekstur eða fyrirtæki sem æskilegt og arðvænlegt sýndist að byggja upp.“

Það, sem hér hefur verið lesið úr skýrslu samstarfsnefndarinnar, er ákaflega athyglisvert, því að með þessari hugmynd er hugsanlega unnt að tengja saman tvö mikilvæg markmið: Annars vegar það markmið að hreyfa fjármagn sem nú er bundið í opinberum iðnaðarfyrirtækjum. Það getur ekki verið annað en sanngirnismál fyrir íslenska skattgreiðendur og eigendur þess fjármagns, sem er bundið í iðnaðarfyrirtækjum er standa í samkeppni við önnur fyrirtæki, að það fjármagn sé hreyft og notað til annars ef kaupendur finnast að fyrirtækjunum. Það fjármagn, sem þannig fengist með beinni hlutabréfasölu eða með sölu hlutabréfa að einhverju marki, er síðan hægt að nota til þess að byggja upp ný iðnfyrirtæki, sérstaklega í áhættusömum rekstri. Þannig má vinna að þessum tveimur markmiðum samhliða. Ávinningurinn af þessu breytta fyrirkomulagi má segja að sé þessi:

1. Sá tími, sem það tekur að undirbúa og setja á stofn af ríkisins hálfu ný atvinnutækifæri, styttist til muna.

2. Ný atvinnutækifæri og áhættusöm fá greiðari aðgang að fjármagni en áður.

3. Hægt verður að koma opinberum framleiðslufyrirtækjum á sama rekstrargrundvöll og einkafyrirtækin starfa á, en það er ákaflega mikilvægt.

4. Pólitískt þukl með atbeina fyrirtækjanna útilokast, t.d. með niðurgreiðslum á framleiðsluverði til að hafa áhrif á vísitölu, en slíkt þekkist eins og menn vita.

5. Möguleikar á virkum verðbréfamarkaði opnast og forsendur fyrir sparnaði í hlutabréfum.

6. Dregið er úr stöðnuðum og úreltum ríkisafskiptum af framleiðslustarfseminni.

Þetta rifja ég hér upp vegna þess, að við hljótum að leggja þennan skilning í 8. tölul. þáltill., og er það í sama anda og skýrsla samstarfsnefndarinnar er skrifuð í.

Mér finnst full ástæða til að hefja og halda áfram umræðum um mjög markvert efni álits samstarfsnefndar um iðnþróun, en því miður gefst ekki á þessum þingfundi tækifæri til að efna til langra umræðna um þau mál. Ég kemst þó ekki hjá því að benda á örfá atriði sem mér finnst einkum vera merkileg í þessari skýrslu sem þáltill. er grundvölluð á. Ég vil í fyrsta tagi nefna kaflann um hálaunaiðnað á bls. 47, þar sem fram kemur mikilvægi þess, að við veljum hálaunaiðnað fremur en aðrar iðngreinar. Í lok kaflans segir, með leyfi forseta:

„Þetta þýðir að áherslu ber að leggja á framleiðslu gæðavöru sem ekki er í samkeppni við stórframleiðslu á algengum vörum eða á fjármagnsfrekan iðnað. Leita ber leiða til að notfæra sér þá sérstöðu, sem auðlindir og náttúrufar landsins bjóða upp á, svo og þá menningu og eðlislæga kosti, sem búa með þjóðinni. Eins er mikilvægt að virkja áhuga og dugnað hvers og eins við framleiðslustörfin til skapandi þátttöku og ábyrgðar við mótun og uppbyggingu iðnaðarins. Þannig er stefnt að hálaunaiðnaði.“

Á þetta legg ég áherslu, því að við vanrækjum stundum í umræðum um iðnað að taka nægilegt tillit til hugmyndanna og hvers virði hugmyndir eru í framleiðslustarfseminni. Enn fremur er þessi texti mikil stuðningsyfirlýsing við einkaframtak og einstaklingsframtak í iðnþróunarmálum.

Varðandi tollamálin er alveg skýrt hvað samstarfsnefndin leggur til. Hún gerir þar ákveðnar tillögur, sem eru sömu tillögur og komu fram á Alþingi fyrir tveimur árum í frv. sem ég var flm. að ásamt þm. frá þremur öðrum stjórnmálaflokkum en Sjálfstfl. Sú tillaga fékk góðar undirtektir og mikinn stuðning hæstv. iðnrh. á þeim tíma. Frv., sem var um niðurfellingu aðflutningsgjalda af aðföngum til iðnaðar, fór til hæstv. fjh.- og viðskn. Nd. og þaðan kom hún í því formi, að lagt var til að henni yrði vísað til ríkisstj., eins og segir orðrétt í nál., með leyfi forseta:

„Nefndin er sammála um að markmiði þessu þurfi að ná. Efni frv. er nánast samhljóða niðurstöðu samstarfsnefndar um iðnaðarmál, en sú nefnd hefur starfað á vegum iðnrn. Flm. frv. eru þm. úr öllum þingflokkum. Því sýnist víðtæk samstaða vera um efni frv.

Þar sem nefndinni er ljóst að ýmsir framkvæmdaörðugleikar munu verða við framkvæmd slíks ákvæðis í lögum, eins og frvgr. er orðuð, leggur nefndin til að frv. verði vísað til ríkisstj., sem sjái um að frv. verði samið um þetta efni og flutt á næsta þingi, þar sem með því verði best tryggð örugg framkvæmd málsins.“

Ég saknaði þess satt að segja úr ræðu hæstv. iðnrh., að hann gerði þessu máli fyllileg skil. Ég heyrði reyndar að hann tók undir þau sjónarmið, að vinna þyrfti frekar að þessu máli og það hefði verið til vinnslu að undanförnu í fjmrn. og iðnrn. En mér finnst eins og mál þetta hafi fengið miklu hægari meðferð og meðhöndlun en efni stóðu til í upphafi, og ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. ráðh. hvernig á því stendur. Félag ísl. iðnrekenda hefur látið fara frá sér fréttatilkynningu til fjölmiðla þar sem þetta mál er tekið fyrir og því lýst, hvernig hæstv. ráðh. hefur staðið að málinu. Þar segir frá því, að óskað hafi verið upplýsinga frá Félagi ísl. iðnrekenda og Landssambandi iðnaðarmanna. Ráðuneytinu hafi verið send 230 tollskrárnúmer til athugunar. Síðan hafi hinn 20. ágúst komið fréttatilkynning frá iðnrn. þar sem fjallað var um hagsbætur fyrir iðnað. Þá hafi verið sagt að endurskoðuninni lyki fyrir 1. okt. n.k. Enn þá virðist þetta mál vera með þeim hætti, að ógerlegt er að skilja hvað dvelur, og ég vil allra vinsamlegast biðja hæstv. ráðh. að segja þingheimi nákvæmlega hvað er til fyrirstöðu. Svo oft hefur þetta mál komið hér á borð þm. með einum eða öðrum hætti og slík skýr svör eru forsenda fyrir því, að við vitum hvort við þurfum að flytja þetta mál í frv.-formi inn í þingið aftur.

Því miður gefst ekki tími til þess hér að fjalla frekar um þetta mál. En þetta er brýnt viðfangsefni og ég fagna því vissulega, að hæstv. iðnrh. hafi skilning á því og komi með þessi mál inn í þáltill. En það væri betra að sjá framkvæmd en skilning. Framkvæmdin er stundum meira virði.

Um skattamálin get ég verið stuttorður þótt mikilvægir kaflar séu um þau í grænu bókinni. Ástæða er þó til að benda á að launaskattur er ekki greiddur af fiskveiðum. Enn fremur má benda á að sjávarútvegur og fiskvinnsla greiða lægri aðstöðugjöld en almennur iðnaður, og enn fremur er það regla í íslenskum skattarétti, að sjómönnum sé heimilað að draga 10% frá heildartekjum sínum af fiskveiðum áður en til tekjuskattsálagningar kemur. Áætlað hefur verið að þetta valdi skekkju í gengisskráningunni sem nemur 3.6%, og er það lítilræði miðað við þá skekkju sem almennt virðist vera á gengisskráningu hér á landi, ef marka má orð hæstv. samgrh. og hæstv. viðskrh., en þeir hafa látið sér um munn fara miklu hærri tölur en þessa ef koma eigi genginu á réttan kjöl.

Ég hef minnst á það áður og það kom enn fremur fram hjá hæstv. ráðh., að aðlögunargjaldið rennur út um næstu áramót. Reyndar er þetta mál ekki gleggra en svo, að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir aðlögunargjaldi á næsta ári sem nemur 2.7 milljörðum. Nú er starfandi nefnd, ein nefndin enn, á vegum ríkisstj. um þetta mál. Sú nefnd var skipuð í haust. Hún hefur ekki enn skilað áliti. Gert er ráð fyrir 2. umr. fjárlaga í næstu viku og gert er ráð fyrir að fjárlög verði afgreidd í þar næstu viku. Ekkert heyrist frá þessari nefnd og iðnaðurinn bíður, hefur ekki fengið fullkomin svör um það, hvernig þessum málum verður háttað á næsta ári. Fjárlagafrv. segir eitt, nefnd er að störfum og hæstv. iðnrh. talar á því máli að ógerlegt er að sjá hvað fyrir hæstv. ríkisstj. vakir.

Ég þarf ekki heldur að fara mörgum orðum um verðlagsmálin í „grænu bókinni“, en ég vil lesa hér örstuttan kafla um verðlagsmálin, sem sýnir hve nauðsynlegt er að hæstv. ríkisstj. snarbreyti stefnu sinni í verðlagsmálum til þess að koma til móts við þá stefnu sem boðuð er í þáltill. og byggð er á áliti samstarfsnefndarinnar. Á bls. 75 í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Þess eru nokkur dæmi, að verðlagseftirlitið hefur beinlínis dregið úr öflugri samkeppni í einstökum greinum með beinum ákvörðunum um verð og með því að þröngva vörum með mjög mismunandi gæðum og kostnaðarsamsetningu undir sama flokk. Slíkar aðgerðir hafa að sjálfsögðu mjög óhagstæð áhrif fyrir þróunarviðleitni og geta beinlínis leitt til samtaka framleiðenda og/eða seljenda um verðmyndun. Er hagsmunum neytenda varla þjónað með slíku.“

Fyrir hv. Alþingi liggur þáltill. um alkalískemmdir, sem er afar stórt og mikilvægt mál, því að í ljós hefur komið að skemmdir í steinsteypu hér á Reykjavíkursvæðinu eru svo miklar að viðgerðir munu kosta marga milljarða kr. Mér er sagt að tvær steypustöðvar, Ok og Verk, sem á sínum tíma tóku efni sem ekki var virkt með sama hætti og aðrar steypustöðvar notuðu, hefðu farið á hausinn af því að þær fengu ekki að hækka verð á steinsteypu í hlutfalli við það, að þær höfðu betra efni að bjóða. Það má vel vera að þau mistök í verðlagsmálum hafi leitt til þessa milljarðataps. Ég nefni þetta sem dæmi um það, hvernig stirð og ósveigjanleg verðlagsstefna getur hugsanlega valdið — skulum við segja — miklum skaða.

Þessi þáltill., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram á Alþingi, er út af fyrir sig ágæt í mörgum atriðum. Þó skiptir öllu máli að hún verði framkvæmd. Því miður er ég ekki eins sannfærður um það, þó svo að hæstv. ríkisstj. fari þess á leit við hv. Alþingi, að hv. Alþingi biðji hæstv. ríkisstj. um að fara eftir þessari till. ef hún verður að þál. Ef hins vegar hæstv. ríkisstj. vill fá hjálp við þessa stefnumótun, þá erum við tilbúnir að veita þá aðstoð. Það höfum við gert með því að leggja fram nokkrar brtt., og það munum við gera í nefndarstarfi í hv. atvmn. með því að fara rækilega ofan í þessi mál. En eftir stendur að það er auðvitað framkvæmdin sem skiptir öllu máli.

Stefnumótun í iðnaðarmálum er ekki séríslenskt fyrirbæri. Um allan heim og þó einkum og sér í lagi á Vesturlöndum hefur á undanförnum árum verið mikið rætt um stefnumótun í iðnaði, alveg eins og hæstv. iðnrh. benti réttilega á í sinni framsöguræðu. Alþjóðasamtök hafa tekið þessi mál upp og rætt þau mjög ítarlega, ekki síst vegna þess að erfiðlega hefur árað hjá þróuðustu iðnaðarþjóðum veraldar. M.a. gekkst Efnahags- og framfarastofnun Evrópu fyrir ráðstefnu í maí s.l. í Madrid. Af Íslands hálfu tóku þátt í þessari ráðstefnu fjórir menn, þeir Jafet S. Ólafsson starfsmaður iðnrn., Vilhjálmur Lúðvíksson formaður samstarfsnefndarinnar, sem margoft hefur verið getið í þessum umr., Þórður Friðjónsson hagfræðingur, aðstoðarmaður forsrh., og Þorvaldur Alfonsson framkvæmdastjóri Iðnþróunarsjóðs, fyrrv. aðstoðarmaður forsrh. þegar hann var iðnrh., þannig að segja má að þar hafi nokkurs konar landslið lagt land undir fót og farið til Spánar. Þessi ágæta nefnd skilaði skýrslu. Í henni gætir skilnings á því, út á hvað iðnaðarstefna á að ganga. Í þessari skýrslu segir á bls. 7, með leyfi forseta:

„Í stórum dráttum má segja að eftirfarandi hafi komið fram um iðnaðarstefnu sem flestir virtust sammála um: 1. Iðnaðarstefna er skilgreind sem yfirlýsing stjórnvalda til samfélagsins (aðila iðnaðarins) um þau markmið, sem stefnt skuli að, og þær leiðir, sem farnar skuli, og tæki, sem notuð verði.

2. Undirstöðuatriði jákvæðrar, árangursvænlegrar iðnaðarstefnu eru sem allra mest frelsi í viðskiptum milli landa og svæða. Öfl markaðarins verði látin ráða ákvörðunum um framleiðslu eins mikið og frekast er unnt og haldið við breiðri ákvarðanatöku og frumkvæði í þeim efnum. Iðnaðarstefna á að vera vaxtarstefna, en ekki varnarstefna. Aðeins með vaxtarstefnu er hægt að uppfylla efnahagslegar og félagslegar óskir á hendur atvinnulífinu. Aðalþættir iðnaðarstefnu séu hagstæð almenn skilyrði fyrir arðbæran rekstur fyrirtækja. Inngrip stjórnvalda til að verja fyrirtæki gegn afleiðingum samkeppni verði aðeins í neyðartilvikum og miðist þá við að greiða fyrir sem skjótastri aðlögun fyrirtækjanna eða stöðvun rekstrar ella. Aðgerðir stjórnvalda til að styðja við nýsköpun í iðnaði verði aldrei til þess að afvegaleiða viðskiptalegan hugsunarhátt hjá fyrirtækjum. Stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda miði að því að skapa einhug og samstöðu um eflingu iðnaðar og þannig byggt á gagnkvæmum stuðningi stjórnvalda, fyrirtækja, samtaka launþega og iðnrekenda og stofnana iðnaðar, svo og velvilja og skilningi almennings, ekki síst starfsliðs í iðnaði.“ — Síðan er talað um heppileg samkeppnisskilyrði, sem ég fer ekki nánar út í, en er í sama anda og ég hef hér lesið.

Þessi skýrsla er mjög ánægjuleg, og ég vil þakka hæstv. iðnrh. fyrir að hafa staðið að því meðal annarra að senda þessa valinkunnu menn til Spánar og taka þátt í þessari ráðstefnu og skila þessari góðu skýrslu.

Þessi skýrsla styður hugmyndir sem settar eru fram í áliti samstarfsnefndarinnar um iðnþróun, og hún styður jafnframt meginatriðin sem koma fram í stefnu Sjálfstfl. í iðnaðarmálum. Ég get þess vegna sagt að lokum að ég er vongóður um það, að sú umræða, sem fer fram hér á Alþingi, og sú stefnumótun, sem fer fram í hv. n. á grundvelli þessarar þáltill., allar þessar umræður hljóta að stefna í þá átt, að einstaklingsframtak komi í stað ríkisafskipta, viðskiptafrelsi í stað hafta, arðsemi í stað pólitísks þukls og hagvöxtur í stað stöðnunar. Um þetta virðast sem betur fer allir vera sammála.

Ég hef, herra forseti, farið hér nokkrum orðum um þáltill. hæstv. ríkisstj. í iðnaðarmálum og skýrt brtt. okkar nokkurra sjálfstæðismanna sem ég vænti að hv. atvmn. Sþ. taki til athugunar og felli að þáltill.