08.12.1980
Efri deild: 21. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

102. mál, Lífeyrissjóður Íslands

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég hygg að menn geti verið sammála um að mál það, sem hér er nú til umræðu, sé meðal meiri háttar mála þessa þings, fram að þessu að minnsta kosti, enda hafa lífeyrismálin verið mjög í sviðsljósinu að undanförnu og ekki að ófyrirsynju, því að segja má að lífeyrissjóðakerfi landsins sé meira og minna að hrynja til grunna og raunar kannske fjármálakerfið í heild. En þó hygg ég að alvarlegast sé ástandið að því er varðar lífeyrissjóðina, og þarf ekki að færa að því mörg eða mikil rök. Það er alkunna, að sumir þessara sjóða eru í bókstaflegum skilningi að verða gjaldþrota og geta ekki sinnt því hlutverki sem þeir voru stofnaðir til að gegna.

Mér er það ljóst og flm. þessa frv. um Lífeyrissjóð Íslands, að margt orkar tvímælis við þá endurskoðun sem verður að fara fram á lífeyrissjóðakerfinu — og raunar grundvallarbreytingar — því að gamla kerfið er gengið sér til húðar, eins og ég áðan sagði. Það er þess vegna ekki hugmynd okkar að reyna að halda til streitu eins og öllu sem hér er á drepið og um fjallað. Á hinn bóginn leyfum við okkur að vænta þess, að hv. þdm. skoði þetta mál gaumgæfilega og beri saman við aðrar hugmyndir og að þetta mál fái nána skoðun í þeirri nefnd sem það væntanlega fer til.

Þetta mál er raunar ekki alveg nýtt af nálinni. Guðmundur H. Garðarsson, þáv. þm., lagði fram á Alþingi í ársbyrjun 1976 frv, til l. svipaðs efnis og frv. það sem nú er sýnt, og raunar lagði hann það fram að nýju haustið 1978. En litlar sem engar breytingar hafa fram að þessu orðið á hinu gamla lífeyrissjóðakerfi, þó að nokkuð hafi að vísu verið reynt að lappa upp á það í tengslum víð samninga sem launþegar hafa gert árið 1976, 1977 og raunar líka í árslok 1979.

En þessi bráðabirgðaákvæði og úrbætur — skulum við kalla það — gilda aðeins til ársloka 1982 og hvað þá tekur við veit enginn. Algert öryggisleysi er ríkjandi fyrir launþega í þessum efnum. Við flm. teljum að í þessu frv. felist eina raunhæfa lausnin í grundvallaratriðum um framtíðarskipun lífeyrismálanna. A.m.k. hef ég ekki komið auga á hugmyndir sem gætu orðið til verulegra úrbóta og ekki byggja á þeirri grundvallarhugsun sem hér er fram sett. En markmið breytingarinnar er það, að allir hafi sama rétt til fullnægjandi ellilífeyristrygginga á grundvelli ævitekna, jafnframt því sem tryggt er að allir njóti ákveðins lágmarks ellilífeyris sem sé í samræmi við framfærslukostnað og verðlagsþróun á hverjum tíma.

Það er einnig veigamikið atriði í þessu frv., að það tryggir öllum konum jafnan rétt til ellilífeyris á við karla, óháð því hver staða kvennanna er í þjóðfélaginu, þannig að húsmæður t.d. eigi sömu réttindi og aðrar vinnandi konur. Þá er í fyrsta skipti með þessu frv. gerð tillaga um að fæðingarlaun séu felld inn í lífeyristryggingakerfið með eðlilegum hætti, því að þar eiga þau heima. Þetta mál verður vafalaust rætt í tengslum við aðrar hugmyndir sem fram hafa verið settar, ýmist í tillögugerðum hér í þingi eða annars staðar, og það er von okkar, að Alþingi ljúki ekki svo störfum á þessum vetri að ekki verði einhver löggjöf sett um lífeyrisréttindi landsmanna til þess að koma í veg fyrir algert öngþveiti sem fram undan er.

Þær hugmyndir, sem við setjum hér fram, eru byggðar á svonefndu gegnumstreymiskerfi í stað uppsöfnunarkerfis þess sem við hefur verið búið áður. Menn vita hvað þetta þýðir, þ.e. að hin árlegu iðgjöld verði notuð til að greiða lífeyri manna sem í sjóðum hafa kannske lengi verið, en eiga þar mjög takmörkuð lífeyrisréttindi þar sem verðbólgan hefur gjöreytt sjóðunum, eða er vel á vegi með að gera það. En nú starfa sem kunnugt er um 100 lífeyrissjóðir missmáir og margir mjög vanmátta.

Að samningu þessa frv. — eða frv. svipaðs eðlis sem hér var áður flutt og ég gat um — hafa starfað auk 1. flm. þá, Guðmundar H. Garðarssonar, m.a. þeir Oddur Ólafsson fyrrv. alþm. og dr. Pétur H. Blöndal tryggingafræðingur, sem er að miklu leyti höfundur þessa frv. og hefur gert rækilega grein fyrir sjónarmiðum sínum í ýmsum blaðagreinum, eins og hv. þdm. mun vera kunnugt um. Hann hefur vakið á því sérstaka athygli, hve gífurlegur aðstöðumunur lífeyrisþega er, annars vegar þeirra, sem njóta verðtryggðs lífeyris, og hins vegar þeirra, sem taka greiðslur úr óverðtryggðum sjóðum. Það þekkja þjóðfélagsþegnar allir og eru farnir að gera sér grein fyrir að við svo búið er útilokað að þessi mál standi því að ranglætið er svo algert.

En það er ekki einungis að ranglæti sé ríkjandi á þessu sviði, heldur er hér um raunverulegan frumskóg að ræða. Það er varla nokkur maður sem skilur orðið upp né niður í þessu margslungna kerfi, og það eykur einmitt enn á óréttlætið, að menn ganga stundum ekki eftir lífeyrisréttindum sínum, þeim litlu sem þeir kynnu að hafa, vegna þess að þeir gera sér ekki grein fyrir hvar réttarins er að leita í þessum frumskógi. Það þarf helst sérfræðinga í tryggingamálum til að botna í þessu öllu saman, og er mér raunar sagt að þeir muni fáir sem til botns í þessu geta komist — í þessu þjóðfélagslega ranglæti, sem ég leyfi mér svo að nefna. T.d. má benda á það, að þetta kerfi er komið í margar deildir. Það eru sjálfir lífeyrissjóðirnir, sem menn þekkja, og þeir starfa allir meira og minna með mismunandi hætti og hafa mismunandi aðstöðu. Þá eru lífeyrisgreiðslur úr almannatryggingum einnig og þær eru margslungnar. Enn er nokkuð sem kallað er umsjónarnefnd og greiðslur frá henni og síðan uppbætur á þær greiðslur sem koma úr lífeyrissjóðunum. Enginn almúgamaður getur í rauninni reiknað út eða gert sér grein fyrir því, hver réttindi hans séu. Fer það eftir ásókn manna og eftir því hverjum er leiðbeint og hverjum ekki.

Í sambandi við ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á sér ekki stað nein uppsöfnun fjármagns eins og kunnugt er. Peningarnir, sem til þessa fara, eru heimtir með sköttum, beinum eða óbeinum, af landslýðnum. Það er því í sjálfu sér ekki neitt nýtt af nálinni að tala um gegnumstreymiskerfi í tryggingamálum þótt það eigi að gera hér með öðrum hætti og sameina á einn stað í Lífeyrissjóð Íslands.

Svo er komið í lífeyrissjóðunum sumum, að fróðum mönnum telst til að iðgjaldagreiðslur muni kannske nægja til eins eða tveggja ára lífeyrisgreiðslna þar til allt væri uppurið. Og svo einkennilegt sem það kann að virðast versna lífeyrisréttindi manna eftir því sem þeir hafa lengur verið í sjóðunum, því að gömlu greiðslurnar þeirra, svara ekki lengur til neinna upphæða.

Það eru ýmsar hugmyndir uppi um stofnun samtryggingarkerfis lífeyrissjóðanna sem þróast mundi síðan í einn lífeyrissjóð. En hætt er við því, að miklir erfiðleikar verði samfara slíku fyrirkomulagi, og enn fremur er þetta svo margslungið, eins og áðan var á drepið, að enginn mundi í rauninni vita hvernig þetta allt saman liti út, þegar það væri komið í höfn eins og menn hefðu hugsað sér það.

Þrátt fyrir þá staðreynd, að allir launþegar greiði núna sem svarar 10% af launum sínum til lífeyrissjóðs, þá greiðir Tryggingastofnun ríkisins bróðurpartinn af öllum lífeyrisgreiðslum. Árið 1979 voru lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun 29 milljarðar á móti tæpum 10 milljörðum frá lífeyrissjóðunum. Mönnum finnst þetta kannske einkennilegt, en svona er þetta samt. Tæpir 26 milljarðar af lífeyrisgreiðslum Tryggingastofnunarinnar voru framlag ríkissjóðs. Til þess að mæta þessum greiðslum þarf árlega að skattleggja landsmenn sérstaklega- og auka við verðbólgu- og síðan koma þessi 10% sem launþegar og vinnuveitendur greiða. Þetta byggist auðvitað á því, að mikið af því fé, sem inn í lífeyrissjóðina kemur, fer til uppsöfnunar sjóða sem síðan brenna upp í verðbólgunni. Mér sýnist það gersamlega óviðunandi, að fólk sé skyldað til mikils sparnaðar með þessum hætti. Síðan er því lánað eigið fé, og nú á allháum vöxtum og með verðtryggingu, og þó að þessu sé þannig háttað þá eru þessir sjóðir stöðugt að eyðast og verða gagnslausir. Einhverjir kynnu að segja að það hafi verið hagræði fyrir mig og aðra hér áður fyrr að fá lán úr lífeyrissjóðum til húsbygginga og að mín kynslóð hafi kannske óbeint eða einhverjir einstaklingar hennar getað hagnast á því. En þessu er ekki einu sinni til að dreifa lengur, að unga fólkið nú geti með þessum hætti „hagnast“ á verðbólgunni, því að sjóðirnir eru þó að reyna að klóra í bakkann með því að verðtryggja eigur sínar að einhverju leyti og þá eru þessi hagstæðu lán ekki lengur fyrir hendi.

En í þessu gegnumstreymiskerfi byggjast tekjurnar og lífeyrisgreiðslurnar á verðlagi þess tíma þegar menn njóta þeirra. Í grg. frv. eru talin upp fimm meginmarkmið sem hugmyndin er að ná, og leyfi ég mér að geta þeirra hér, með leyfi forseta:

„1. Að tryggja öllum, sem eru komnir á ellilífeyrisaldur, að lokinni starfsævi viðunandi og mannsæmandi lífsviðurværi.

2. Að veita örorkulífeyrisþegum öryggi og viðunandi tryggingarbætur.

3. Að auka barnalífeyri og bæta aðstöðu þeirra sem verr eru settir í þjóðfélaginu.

4. Að tryggja foreldrum fæðingarlaun.

5. Að einfalda lífeyriskerfi þjóðarinnar og útrýma misrétti.“

Gert er ráð fyrir því, að hæstu lífeyristryggingagjöld muni verða um 60% af meðaltekjum þess manns sem lífeyrinn fær. Það er ekki talið óeðlilegt, að maður, sem náð hefur 67 ára aldri, geti vel bjargast af um það bil 60% þeirra meðaltekna sem hann hefur haft á starfsævi sinni, að sjálfsögðu miðað við núvirði, því að margir hafa þá komið sér fyrir og komið upp börnum sinum o.s.frv.

Það er raunar gert ráð fyrir því, að um talsverðan jöfnuð verði að ræða, að tilfærsla fjármuna verði frá þeim, sem best mega sin í þjóðfélaginu, til að tryggja hag hinna, sem við verst kjörin hafa búið og erfiðast eiga uppdráttar. En grundvallarhugsunin er þó sú, að menn séu ekki að taka út peninga neinna annarra, heldur eru það fjármunir sem menn hafa sjálfir lagt fram á langri starfsævi sem koma þeim að notum í ellinni. Þó eru settar ákveðnar viðmiðanir, þannig að settur er ákveðinn stuðull fyrir tekjur hvers árs — það yrði kannske heldur langt mál að útskýra þetta hér í ræðu minni, það er gert í frv. — en þó að einhverjir séu tekjulausir eða með mjög litlar tekjur, þá er þeim samt áætlaður slíkur tekjustuðull, sem er um það bil helmingur af meðaltekjum í þjóðfélaginu á viðkomandi ári. Og þetta er miðað við 50 ár, allt að 50 árum aftur í tímann. Menn kynnu kannske að halda að þetta yrði flókið í framkvæmd, en svo virðist þó ekki vera þegar það er skoðað niður í kjölinn, vegna þess að það eru eingöngu fengnar heildarlaunagreiðslur viðkomandi árs eftir skattskýrslum, sem fyrir liggja í ýmis konar greinargerðum og Hagstofan getur unnið, og síðan settur á það stuðull miðað við þær krónur sem þá voru í gildi. Menn fá stuðul sem er nefndur 1 fyrir laun sem eru í samræmi við meðaltekjurnar, en hærri stuðul ef þeir hafa verið með hærri tekjur — þó aldrei meira en töluna 3 eða þreföld meðallaunin, hversu háar tekjur sem þeir hafa — og aftur á móti aldrei lægri en hálfan eða 0.5, hversu lágar sem tekjurnar hafa verið og jafnvel þótt þær væru engar.

Síðan er þetta sett upp í tiltölulega einföld dæmi, og á að vera hægt að reikna það út án mikillar fyrirhafnar. Er þetta í frv. og grg. nefnt tekjuhlutfall, en ég hef kallað það hér meðalstuðul svo að menn skilji það betur, vegna þess að sum þessara nýyrða geta verið erfið þegar menn sjá þau í fyrsta sinn. Ég skal játa að svo fór fyrir mér þegar ég byrjaði að reyna að setja mig — (Gripið fram í: Jafnvel í annað sinn.) Jafnvel í annað sinn. Já, það er víst alveg áreiðanlega rétt, að svo fór fyrir mér þegar ég byrjaði að reyna að kynna mér þetta mál, að mér fannst það býsna flókið, og raunar líka í annað sinn sem ég las frv. En þegar maður skoðar það niður í kjölinn og einnig skýringar þeirra, sem inni í málinu eru — ekki endilega skriflegar, heldur fær tækifæri til að ræða við þá um dagleg dæmi, þá virðist þetta vera miklu einfaldara. Ég held að það fari svo, að ef þetta yrði lögfest nákvæmlega í þessu formi eða eitthvað svipuðu, þá mundu allir menn strax geta áttað sig á hver réttindi þeirra væru, þ.e. um leið og þeir fengju upp gefinn sinn stuðul vissu þeir hver réttindi þeirra væru, vegna þess að þau miðast við meðaltekjur, verðtryggðar meðaltekjur. Að vísu er ekki hægt að vita það nákvæmlega fyrir fram, það þarf kannske að leiðrétta það þegar mikil verðbólguþróun er, og það þarf að bæta vísitölubótum ofan á, en engu að síður lítur dæmið þannig út, að hver og einn á að geta skilið það og vitað um réttindi sín.

Á sama hátt má kannske segja að þegar verið er að tryggja heimavinnandi konum lífeyrisréttindi, þá virðast þær töflur, sem upp hafa verið settar hér í grg., vera flóknar. Svo er þó ekki þegar nánar er að gáð. Þó að kona hafi ekki beinar launatekjur, þá fær hún alltaf þennan hálfa stuðul, sem ég kalla svo, eða 0.5. Síðan fær hún uppbót sem svarar til hærri launa mannsins, þannig að bæði hjón fá sinn ákveðna stuðul og njóta hans þegar að lífeyrisgreiðslum kemur. En allt er þetta mjög rækilega útfært í grg. og því ástæðulaust að eyða hér meiri tíma í að fara lengra út í það.

Þá er gert ráð fyrir fæðingarlaunum, eins og ég minntist á áðan, þriggja mánaða fæðingarlaunum hið minnsta, og getur hvort foreldra sem er fengið þessi fæðingarlaun.

Það er eitt öngþveitið hér varðandi fæðingarlaunin, sem ákveðið var hér á hinu háa Alþingi að greidd skyldu úr Atvinnuleysistryggingasjóði, að þau geta komið mjög ranglátlega út. Það eru dæmi þess sem ég þekki, að í þeim fjölskyldum sem fátækar geta talist — og það eru því miður til fátækar fjölskyldur, t.d. í flestum sjávarþorpum, þó þær séu kannske ekki margar og atvinna sé mikil — að það er einmitt fátæka fólkið sem ekki nýtur fæðingarlaunanna. En ef kona, sem kannske hefur lengi unnið heima, fer svo að vinna í frystihúsi í eitt eða tvö ár — og á efnaðan eiginmann, tekjuháan — og ef hún skyldi eignast barn þá nýtur hún þessara réttinda, en hins vegar ekki sú konan sem verulega þyrfti á þeim að halda. Hér er um ranglæti að tefla sem verður að uppræta, og það er einmitt gert ráð fyrir að það verði gert með þessum lögum og er nánar skýrt.

Hér er gert ráð fyrir að iðgjaldagreiðslurnar verði allar greiddar af viðkomandi einstaklingi, ekki verður lengur um það að ræða, að vinnuveitendur greiði hluta iðgjalda til lífeyrissjóðsins. Að sjálfsögðu munu laun hækka sem nemur þeirri greiðslu sem nú kemur frá vinnuveitendum, en síðan er það sjóðfélaginn, launþeginn, sem greiðir allt gjaldið til lífeyrissjóðsins.

Og þá spyrja menn: Hvert verður þetta gjald? Hvernig er unnt að tryggja öllum mannsæmandi kjör á efri árum, gagnstætt því sem nú er? Og þarf þá ekki að greiða miklu meira en nemur þessum 10% sem menn hafa greitt fram að þessu beint til lífeyrissjóðanna? En því er alls ekki þannig farið, heldur þvert á móti. Að vísu sýna þessar tötur að í heild fara til ellilífeyrisgreiðslna, örorku- og barnalífeyrisgreiðslna og til fæðingarlauna samanlagt um 12.3% af heildartekjum allra einstaklinga í landinu, þ.e. 7.8% til ellilífeyrisgreiðslna 3.9% í barnalífeyri og 0.57% í fæðingarlaunin. En sagan er ekki öll sögð með þessu, því að geysilegar fjárhæðir eru greiddar með öðrum hætti til lífeyristrygginga, þ.e. til almannatrygginga. Á árinu 1979 greiddu atvinnurekendur og sjóðfélagar um 29 milljarða í iðgjöld til lífeyrissjóða. Það eru um 5.5% af heildatekjum manna á aldrinum 16–67 ára eða á venjulegum starfsaldri. Þá greiddu atvinnurekendur og ríkissjóður 31 milljarð til lífeyristrygginga almannatrygginga eða 5.8% af heildartekjum. Síðan eru minni greiðslur, eins og þær sem ég gat um áðan, sem Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir og umsjónarnefnd og hvað það allt saman heitir. En segja má að í stórum dráttum yrðu greiðslur manna mjög svipaðar til þessa nýja sjóðs og þessa gegnumstreymiskerfis eins og menn greiða núna beint til þessara þarfa án þess að njóta þeirra gæða í neitt svipuðum mæli og vera mundi ef þetta frv. næði fram að ganga.

En þá spyrja menn: Hvað verður þá um núverandi lífeyrissjóðakerfi? Hvað verður um alla lífeyrissjóðina sem lögverndaðir eru, eignarrétturinn er verndaður samkv. stjórnarskránni? Gufa þessir sjóðir upp?

Það er alls ekki gert ráð fyrir því. Í fyrsta lagi er hugmyndin sú, að menn geti haldið áfram viðbótarlífeyristryggingum með því að starfrækja lífeyrissjóðina og hafa þá um það frjálsar hendur. En að sjálfsögðu verður að tryggja þar ýmiss konar lágmarksskilyrði og gera allt í samráði við stjórnvöld, og hafa verður eftirlit með því, að það verði framkvæmt með heilbrigðum hætti. En það er fleira sem þessir sjóðir geta gert. Það er ekki ótítt í ýmsum nágrannalöndum okkar, t.d. Vestur-Þýskalandi, að launþegar og samtök þeirra eigi mjög gilda sjóði, sem m.a. er varið til úttána, ýmist til félagsmanna eða þá til ýmiss konar atvinnufyrirtækja, jafnvel til þess að kaupa hlutabréf eða skuldabréf og taka beinan þátt í atvinnulífinu. Hver sjóður um sig fær rétt til að aðlaga sig þessum breyttu aðstæðum. Menn geta haft, ef þeim svo sýnist, breytilegt fyrirkomulag að hluta til. T.d. kynnu menn, sem eru tiltölulega tekjulágir, kannske að hluta til að vilja fá sér aukalífeyristryggingu og að einhverjum hluta að vera með lánasjóði eins og núna er. Aðrir mundu vafalaust vilja ávaxta fé með öðrum hætti, í ríkisskuldabréfum eða í ýmiss konar verðbréfum.

Til að menn fái nokkra mynd af þessu má geta þess, að til þessara lífeyrisgreiðslna var á árinu 1979 varið 61.7 milljörðum kr., og raunar hefur á árinu 1980 bæst við þessa liði. Þetta er úr hinum ýmsu stofnunum, frá Tryggingastofnun, þessari umsjónarnefnd, Atvinnuleysistryggingasjóði o.s.frv. Hins vegar hefur ekki verið greitt út úr kerfinu nema tæpir 40 milljarðar. 22 milljarðar af þessari upphæð hafa farið til svokallaðrar uppsöfnunar í lífeyrissjóðina, þ.e. rétt rúmur þriðjungur þessa fjár. Þetta gæti verið gott fyrirkomulag ef sjóðirnir gætu þá sinnt hlutverki sínu. En það geta þeir því miður ekki þrátt fyrir þetta, vegna þess að uppsöfnunin hefur naumast við verðbólgunni. Og gamlar eignir sjóðanna, sem bundnar eru t.d. í óverðtryggðum skuldabréfum og ýmiss konar lélegum pappírum, gufa auðvitað upp eins og dögg fyrir sólu. Þessir miklu fjármunir nýtast því hvorki beint til lífeyrisgreiðslna né heldur til að greiða fyrir mönnum t.d. í sambandi við lánveitingar. Það er þess vegna ekki ofsögum sagt, að kerfið í heild er hrunið til grunna.

Ég hefði gjarnan viljað fjalla lítillega um hverja einstaka grein frv., en skal þó ekki eyða í það miklum tíma, enda held ég að meginatriðið sé þegar komið fram í mínu máli. Ég vil aðeins benda á að það eru þrjár meinlegar villur í frv. sjálfu og rétt að það komi fram í framsöguræðu. Í 2. mgr. 14. gr. segir að hafi einstaklingur ekki „tekið fram.“ Þar á auðvitað að standa „talið fram.“ Og í 16. gr. þar sem segir: Væntanlegt ævitekjuhlutfall einstaklings, sem ekki er orðinn 67 ára gamall, skal vera meðaltal leiðréttra tekjuhlutfalla hans þau almanaksár sem „leiðu eru“ á auðvitað að standa „sem liðin eru“ o.s.frv. Í b-lið 24. gr. stendur orðið „fjórðung“ þar sem á að standa „3/4“, þ.e. að menn vinni sér inn 3/4 þess sem þar um ræðir. Það er rétt að þetta komi fram í framsögu minni.

Nú kynnu menn að segja að ekki væri brýn þörf á því að kollvarpa öllu lífeyrissjóðakerfinu á þann veg sem hér er gert ráð fyrir, því að gegnumstreymissjóðir gætu verið margir, það væri hægt að breyta núverandi sjóðum á þann veg. Þeir sem gleggst þekkja til þar sem þetta kerfi hefur verið reynt, t.d. í Þýskalandi, þar sem gegnumstreymissjóðir munu vera einungis þrír, benda á að meira að segja þar hafi komið fram verulegir annmarkar vegna þess að þarfir sjóðanna eru mismunandi. Það byggist t.d. á því, að aldursflokkar geta verið mjög mismunandi í hinum ýmsu sjóðum. Þar sem mikið er af ungu fólki greiðir það óbeint lífeyri hinna eldri, en þar sem aftur á móti er mjög margt eldra fólk eru þessar greiðslubyrðar miklu erfiðari fyrir sjóðinn. Þess vegna kynni sá sjóður að verða að taka hærri iðgjöld og því væri hann ekki eins líklegur til að laða að sér nýja félaga. Talið er að þetta kerfi nái ekki tilætluðum árangri nema lífeyrissjóðurinn sé einn. Lífeyrissjóður Íslands er hann hér nefndur.

Raunar eru áratugir síðan hér á hinu háa Alþingi var mikið rætt um lífeyrissjóð fyrir landsmenn alla, og fleiri og fleiri hallast að því, að sú skipan sé eðlilegust, og þá um leið, að út úr tryggingakerfi landsins, út úr almannatryggingum verði tekið þetta hlutverk.

Hitt er auðvitað alveg ljóst, að þó að þessi sjóður tryggi að nokkru hag þeirra, sem verst eru settir og litlar tekjur hafa haft, eins og ég áðan rakti, þá verða auðvitað áfram starfandi ýmiss konar félagsmálastofnanir til að sinna þeim sem vegna sjúkleika eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum geta ekki lifað af þessum fjármunum. Það dettur víst engum annað í hug.

Nú er öryggisleysið langsamlega mest hjá þeim sem við einna lökust lífskjör hafa búið alla sína ævi. Hér er gert ráð fyrir að jafna þennan aðstöðumun mjög mikið og að smám saman verði því marki náð, að menn búi við alljöfn kjör á efri árum, þó að hitt sé rétt að þetta eru réttindi sem menn eru að kaupa sér og þess vegna verður þar auðvitað munur á. Hins vegar er stefnt að því að uppræta það óréttlæti, að einstakir menn geti kannske fengið gífurlegar upphæðir úr tveimur, þremur eða fjórum verðtryggðum sjóðum, jafnvel hækkað stórlega í launum þegar þeir hætta að starfa. Í lýðfrjálsu þjóðfélagi, sem vill kalla sig siðmenntað, er ekki hægt að búa við slíkan ófarnað til langframa.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja fundinn lengur því að færi gefst á að ræða mál þetta áfram. En ég legg til að málinu verði vísað til fjh: og viðskn. (Gripið fram í.) Já, forseti úrskurðar það.