08.12.1980
Efri deild: 21. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

102. mál, Lífeyrissjóður Íslands

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Núverandi lífeyrissjóðakerfi er eins og bætt og götótt flík. Sumir njóta mikils réttar, aðrir lítils sem einskis. Við Alþfl.-menn álítum að í fyrirkomulagi lífeyrissjóðamálanna, eins og það er núna, sé eitthvert argasta misrétti sem fyrirfinnst í þessu þjóðfélagi. Það er smánarlegt, að margt aldrað fólk nýtur sama og engra réttinda, á sama tíma og þess finnast dæmi, að aðrir búa við margföld réttindi.

Það var og er stefna Alþfl. að taka eigi upp einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, að lífeyrisréttur allra landsmanna verði samræmdur. Fyrir þessu höfum við talað aftur og aftur. En þróunin hefur orðið allt önnur. Hún hefur orðið það kerfi sem við búum nú við, sem einkennist af miklu misrétti, smánarlegu misrétti. Og kerfið í heild er bæði ónýtt og óréttlátt að okkar dómi.

Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri þm. Alþfl. hafa flutt þáltill. um þessi mál, þar sem stefna okkar birtist. Í ýmsum greinum fer saman það sem í þeirri þáltill. er og það sem hér er flutt frv. um. Mismunur er hins vegar um ýmis atriði. Ég skal ekki fara út í það á þessari stundu að rekja hvað saman fer og í hverju mismunurinn liggur. En ég vænti þess, að hugarfarið á bak við hvort tveggja sé hið sama, nefnilega að vilja bæta úr því misrétti, sem hér ríkir, og í raun og sannleika að stefna að því, að hér sé einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn.

Það er eðlilegt að menn hafi haft áhyggjur af því, eins og hv. síðasti ræðumaður hafði, að verulegur hluti af sparnaði í þjóðfélaginu hefði gerst í gegnum lífeyrissjóðakerfið. Það er líka þess vegna sem við höfum talið, Alþfl.-menn, að sparnaðinn þyrfti að efla með öðrum hætti, m.a. í gegnum stjórn peningamála og hvernig haldið væri á vaxtamálum, þannig að sá sparnaður, sem myndast í þjóðfélaginu, væri ekki eingöngu skyldusparnaður. Nú er annað uppi á teningnum í raun og sannleika. Menn tala um að 20 milljarðar eða svo hafi komið úr lífeyrissjóðakerfinu inn í lánsfjáráætlun á vegum ríkisstj. á þessu ári. En ef við lítum fáein ár fram í tímann, þá verður ástandið öfugt. Þá verður ekki sá sparnaður í þessu kerfi við núverandi aðstæður að þaðan komi nem króna. Það virðist liggja fyrir, að lífeyrissjóðirnir eru yfirleitt að fara á hausinn. Þeir lána þá varla ríkinu mikið fé.

Það er þess vegna ekki einungis að við þurfum að vinda bráðan bug að því að finna nýtt kerfi í þessum efnum, heldur stöndum við frammi fyrir því, að það, sem menn hafa talið að væri sparnaður og kæmi til uppbyggingar í þjóðfétaginu í gegnum þetta kerfi, það er að hverfa. Það er líka af þeim sökum nauðsynlegt að taka þessum málum nýtt tak.

En því minnist ég á þetta að annað eitthvert mesta óréttlæti, sem viðgengst í þjóðfélaginu, er á sviði húsnæðismála. Það er „barbarískt“ þjóðfélag, það er villimannlegt þjóðfélag sem ætlar ungu fólki að afla kannske 3/4 hluta af íbúðarverði á fáeinum árum með snöpum og vinnuþrældómi, með því að skríða fyrir ættingjum og bankastjórum og jafnvel með því að svíkja undan skatti. En þetta er kerfið sem við búum við. Þessi mál eru samtvinnuð, eins og þau liggja fyrir núna, vegna þess að lífeyrissjóðirnir hafa lánað mikið til íbúðabygginga. En þeir munu ekki geta lánað til þeirra hluta þegar þeir eru farnir á hausinn.

Þessi tvö mál, lífeyrissjóðamálin og húsnæðismálin, eru að dómi okkar Alþfl.-manna meðal mestu misréttismála sem uppi eru í þessu þjóðfélagi. Og hver sá, sem skoðað hefur gögn um þróun og stöðu lífeyrissjóðanna, og hver sá, sem litið hefur kringum sig til þess að sjá afkomu eldra fólks og til þess að sjá hvernig ungt fólk slítur sér út við að eignast húsnæði, hann hlýtur að vilja nú taka á þessum málum, að vilja nú byggja upp ný kerfi í húsnæðismálum og í lífeyrissjóðamálum.

Ég fagna því frv. sem hér er flutt. Það hefur verið flutt frv. í þessa veru áður af öðrum þm. Sjálfstfl. Ég vænti þess, að hv. Alþingi fari nú bráðum að manna sig upp í það að taka á þessum málum báðum. Og þó að fyrirheit séu um það í núverandi stjórnarsáttmála, þá vona ég að það verði ekki til þess að þetta mál verði látið dankast eins og allt annað sem í þeim stjórnarsáttmála er.