22.10.1980
Neðri deild: 5. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

4. mál, almenn hegningarlög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. það um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 frá 1940, sbr. lög nr. 22 frá 1955, á þskj. 4, sem hér er lagt fyrir hv. Nd., var lagt fyrir Alþ. í upphafi þessa árs af þáv. dómsmrh., en kom ekki til frekari umr. á því þingi, og er það nú lagt fram óbreytt.

Frv. er samið af hegningarlaganefnd og er þáttur í endurskoðunarstarfi hennar á hegningarlöggjöfinni. Er í frv. fjallað um breytingar á tveimur köflum hegningarlaganna. Það er annars vegna 9. kafla, þar sem fjallað er um fyrningu sakar og brottfall viðurlaga og ákvæði tengd þeim. Er um það efni fjallað í 1.–8. gr. frv. Í 10.–12. gr. er hins vegar fjallað um 23. kafla laganna og eru í frv.gr. gerðar breytingar á lagaákvæðum um líkamsmeiðingar. Breytingarnar eru aðallega fólgnar í ítarlegri aðgreiningu á efni núgildandi 217. og 218. gr. hegningarlaganna, sem hafa valdið nokkrum erfiðleikum í meðferð fyrir dómstólum.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara nú út í nánari útlistun á efni frv., en vísa til hinnar ítarlegu grg. er fylgir því. Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.