08.12.1980
Efri deild: 21. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

119. mál, Lífeyrissjóður bænda

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og deildin sjálfsagt man var það mat tveggja manna í hv. fjh.- og viðskn., sem um þetta hefur fjallað, annars vegar að þetta mundi þýða aukin útgjöld fyrir sjóðinn og hins vegar að þetta mundi þýða minni útgjöld fyrir sjóðinn. Það var því ekki nema von að þeir sem fjarstaddir voru afgreiðslu málsins í nefnd, vildu fá svör við því, hvort heldur væri um auknar eða minni greiðslur að ræða.

Nú get ég ekki sagt að það bréf eða sá málflutningur, sem uppi var hafður hér af hv. 3. þm. Vesturl., sanni neitt í þessum efnum, hvorki um aukningu né að greiðslur muni minnka úr sjóðnum. Mér var það fyllilega ljóst, að hér var um kerfisbreytingu að ræða, eins og kom fram í þessu bréfi, þar sem verið er að taka upp viðmiðun við iðgjöld frekar en fastákveðin réttindi sem höfðu gilt áður. Um það snerist spurningin ekki. Hæstv. fjmrh. hefur haldið því fram, að þetta muni ekki hafa aukakostnað í för með sér, hvorki fyrir lífeyrissjóðinn né heldur ríkissjóð. Fyrir því voru ekki lögð fram nein töluleg gögn. Þetta hafði hann eftir áreiðanlegum heimildum, eins og það heitir í fréttum. Og í sjálfu sér verða menn þá að gera það upp við sig; hversu áreiðanlegar menn telja þessar heimildir. En sönnur hafa engar verið færðar á þetta.

Hitt er augljóst, að ef þetta hefur ekki aukinn kostnað í för með sér, hvorki fyrir lífeyrissjóðinn né ríkissjóð, þá eru bara tveir möguleikar fyrir hendi. Annaðhvort er jafnmikill tilkostnaður eða þá að hann er minni. Annaðhvort eru minni útgjöld eða jafnmikil útgjöld af hálfu ríkissjóðs og lífeyrissjóðsins. Það er því hugsanlegt samkvæmt þeim svörum, sem hér hafa fengist, að með þessu frv. sé í rauninni verið að skerða rétt bænda, því að varla minnka útgjöld sjóðsins öðruvísi en að réttur stéttarinnar sem heildar, þegar hún er komin á eftirlaunaaldur, hafi verið skertur. Ég spurðist einmitt fyrir um það í þessari deild, hvort heldur væri. Og það hafa þá fengist svör við því, að svo framarlega sem hér er um breytingu að ræða er gengið í hlut bændastéttarinnar, þá eru þau réttindi, sem hún nýtur, minni. Svo framarlega sem hér er um breytingu að ræða á útgjöldum, þá hlýtur það að vera, hæstv. ráðh.