08.12.1980
Neðri deild: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

41. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hv. þm. Vilmundur Gylfason flytur hér og hefur mælt fyrir, kallar auðvitað á býsna miklar umr. Hins vegar eru mörg mál á dagskránni í dag og ég veit ekki alveg hvað við komumst langt með þessa umr. núna. Hugsanlegt er að henni yrði frestað nú, en haldið áfram einhvern tíma síðar, en það er auðvitað mál sem hv. flm. og hæstv. forseti yrðu að koma sér saman um. En hér er auðvitað um að ræða, í þessu frv., mjög mörg atriði sem kalla á nokkuð ítarlega umr. að mínu mati.

Ég vil einnig segja varðandi málsmeðferð, að það er mín skoðun að frv. af þessu tagi eigi að vísa til hv. félmn. Þetta eru lögin um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er eðlilegt að þau mál, sem þar eru, fari til félmn. Það er hins vegar ákvörðun forseta hvernig hann hagar því máli.

Varðandi þetta mál held ég að við verðum aðeins að átta okkur á því, — og ætla ég að reyna að lengja ekki þessar umr. mikið, — að vinnulöggjöfin er fyrst og fremst rammi um samskipti aðila vinnumarkaðarins. Hún er lög um leikreglur aðila vinnumarkaðarins hvors gagnvart öðrum. Vinnulöggjöfin kveður í raun og veru ekki á um skipulag þessara aðila innbyrðis hvors um sig, hvorki Vinnuveitendasambandsins né verkalýðssamtakanna. Það eina, sem sagt er í vinnulöggjöfinni um þessi mál, er það, að félagssvæði megi aldrei vera minna en eitt sveitarfélag. Þetta er í raun og veru það eina sem þarna er tekið til varðandi skipulag verkalýðssamtakanna sjálfra.

Ég held að það sé mjög óvarlegt að fara að taka ákvörðun um það hér á hv. Alþ., hvernig skipulagi verkalýðssamtakanna á að vera háttað. Ég tel það vera mjög óvarlegt. Ég er ekki að draga úr því, að það hefur gengið hægt, eins og hv. þm. sagði, hjá Alþýðusambandinu — svo að ekki sé fastar að orði kveðið — að laga skipulag sitt að samþykktum Alþýðusambandsþings frá 1960. Engu að síður held ég að þetta mál sé þannig vaxið, að það sé alveg óhjákvæmilegt að það séu samtökin sjálf sem setji sér þessar leikreglur.

Mér finnst dálítið villandi í þessu sambandi notkun hv. þm. á orðinu „starfsgreinafélag.“ Í rauninni tel ég hann vera að tala hér um vinnustaðafélag. Hann er fyrst og fremst að tala um vinnustaðafélag. Ég lít þannig á, miðað við þá túlkun sem hefur verið uppi í Alþýðusambandinu, að starfsgreinafélag sé félag manna sem starfa að sömu meginverkefnum, að t.d. væru starfsmenn í frystihúsum í Reykjavík, skulum við segja, í einu starfsgreinafélagi, en ekki að þeir gætu stofnað hver í sínu frystihúsi sitt vinnustaðarfélag þannig að það yrði þá eitt hjá Fiskiðjuverinu, eitt hjá Bæjarútgerðinni og eitt hjá Hraðfrystistöðinni o.s.frv., eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég held því að það sé dálítið villandi að nota orðið „starfsgreinafélag“ eins og hv. þm. setur þetta hér upp.

Eins er það ljóst að hann gerir í rauninni ráð fyrir að um leið og yrði heimilt með sérstökum lögum að stofna verkalýðsfélög af þessu tagi fari félögin, eins og þau eru nú, áfram með samningsrétt, þannig að hann gæti orðið tvöfaldur eða þrefaldur eftir atvikum: Mér finnst þetta vera málefni sem rétt sé að staldra við. Ef þessi leið væri farin að fullu, sem hv. þm. ræðir um, þ.e. að alls staðar væru komin á svona vinnustaðafélög, þá held ég að yrði mjög hætt við því, að verulega stór hópur launafólks, t.d. farandverkafólk og fleiri slíkir, yrði í raun og veru ófélagsbundinn og utan verkalýðssamtakanna í landinu smám saman. Eins og við vitum hefur það verið þannig, að það hefur nánast verið um að ræða skylduaðild að verkalýðsfélögunum. Þetta finnst mér vera atriði sem við eigum að taka tillit til.

Í rauninni er ekkert sem bannar, — vil ég vekja athygli hv. þm. og flm. á, — að samið sé um kjör á hverjum stað fyrir sig, burt séð frá svæði verkalýðsfélagsins. Það er ekkert sem bannar það. Þess vegna hefur það hvað eftir annað gerst, að samið hefur verið um laun allra starfshópa á hverjum vinnustað. Þannig hefur verið samið fyrir starfsmenn í álverksmiðjunni í Straumsvík, það hefur verið samið hjá járnblendiverksmiðjunni og það hefur verið samið fyrir starfsmenn hjá ríkisverksmiðjunum. Þannig er í raun og veru ekkert sem bannar að svona sé að málum staðið ef viðkomandi atvinnurekendur og starfsmenn og verkalýðsfélög fallast á það.

Ég held að það sé þó í rauninni meginatriðið í þessu, að frv. þetta fjallar um skipulagsgerð verkalýðssamtakanna og breytingu á þeim, en ekki meginatriði vinnulöggjafarinnar, sem eru samskiptareglur verkalýðs og atvinnurekenda. Það mætti vitna í margar ræður, mörg frumvörp og margar greinar um þessi mál sem hér hafa komið fram á hv. Alþ. á undanförnum 40 árum. Ég ætla ekki að fara langt út í þá sálma. Ég vil þó vitna í umr. sem fram fóru hér á Alþ. fyrir allmörgum árum um þáltill. um stéttarfélög og vinnudeilur, sem mig minnir að þm. Sjálfstfl. hafi flutt á þeim tíma. Í þeim umr. sagði þáv. þm. Hannibal Valdimarsson:

„Og það hef ég tekið fram,“ segir hann, „að ég er mjög vantrúaður á, að til bóta verði breytt í verulegum atriðum íslenskri vinnulöggjöf, nema þær breytingar séu undirbyggðar með nokkurn veginn samkomulagi í aðalatriðum, bæði Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands. Og ég hygg," segir Hannibal Valdimarsson áfram, „að hver sú ríkisstj., sem flanaði af stað með gjörbreytingu á íslenskri vinnulöggjöf án þess að undirbyggja breytingarnar á þann veg, væri ekki að skapa íslensku þjóðfélagi aukna farsæld.“

Í mjög ítarlegri ræðu, sem Hannibal Valdimarsson flutti um þetta mál hér á hv. Alþ., rekur hann rækilega hvernig þessum málum er háttað í grannlöndum okkar. Hann bendir m.a. á að Danir hafi í rauninni enga vinnulöggjöf, heldur séu reglur um samskipti aðila vinnumarkaðarins mótaðar af hefðum á allmörgum áratugum. Hann leggur á það áherslu, að lög og reglur um vinnulöggjöf hafi verið lítt eða ekkert breyttar um margra áratuga skeið. Eina breytingin, sem við höfum gert á vinnulöggjöfinni nú á síðari árum, er hins vegar breytingin um sáttastörf í vinnudeilum þar sem hlutur sáttasemjara er festur með skarpari hætti í lögum en áður var.

Nú vil ég taka það fram, að auðvitað á Alþ. að ræða um mál eins og þetta. En það er fráleitt að Alþ. fari að skipa fyrir um innri skipulagsmál frjálsra samtaka í landinu. Ég minni hv. þm. Vilmund Gylfason og aðra einnig á það, að það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir kjör launafólks ef þetta vinnustaðaskipulag væri tekið upp. Hugsum okkur á stöðum, hv. þm., þar sem um er að ræða einn meginatvinnurekanda, segjum t.d. kaupfélag, sem á nærri öll atvinnufyrirtæki í viðkomandi litlu byggðarlagi.

Ég er hræddur um að það gæti orðið þröngt fyrir dyrum launamanna í samningum við slíkan einn aðila við þær kringumstæður. Ég mundi óttast um stöðu launamanna þar sem um væri að ræða tiltölulega mjög sterkt vald eins atvinnurekanda á öllum meginframleiðslutækjum byggðarlagsins. Ég held að með tilliti til þessa og margs annars eigi að skoða þetta mál mjög vandlega.

Ég vil einnig minna á að þm. leggur mikla áherslu á að við slíkar aðstæður verði ekki samið um önnur verðmæti en þau sem til skiptanna eru á hverjum vinnustað eða í hverri starfsgrein. Þetta mundi vitaskuld þýða að þeir menn, sem vinna hjá fyrirtækjum sem eru með tiltölulega bága afkomu, yrðu með lakari laun, enda þótt við teldum réttlætanlegt frá þjóðhagslegu sjónarmiði að þessi fyrirtæki haldi að sjálfsögðu áfram að starfa. Ef tekið hefði verið tillit til þessarar afkomu, t.d. við ákvörðun launa nú á undanförnum árum, er t.d. alveg ljóst að þeir, sem starfa hjá frystihúsum á Suðurnesjum, væru með heldur lægra kaup en þeir sem starfa hjá frystihúsum á ýmsum öðrum stöðum. Ég held að það þurfi að halda þannig á málum að verkalýðshreyfingunni og launafólki í landinu sé forðað frá hættum eins og þetta gæti haft í för með sér.

Ég tek það fram, að það er margt annað sem um þetta frv. hv. þm. mætti segja, en ég ætla ekki að fara að efna hér til eldhúsdagsumræðna um málið. Það þyrfti í raun og veru og væri fróðlegt að ræða það hér miklu ítarlegar. Ég vildi aðeins koma á framfæri örfáum aths. núna. Auðvitað verða hæstv. forseti og flm. svo að ákveða hvað um þessa umr, verður frekar. En vegna þess, hvað mörg mál bíða á dagskránni í dag, kýs ég að hafa mál mitt ekki lengra að sinni.