08.12.1980
Neðri deild: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

131. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Frv. það, sem ég mæli hér fyrir, fjallar um breytingu á lögum um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að fresta væntanlegri gjaldmiðilsbreytingu um eitt ár. Flm. ásamt mér að þessu frv. eru allir þm. Alþfl. í Nd. Alþingis.

Það er því rétt að rifja upp að Alþfl. stóð heill og óskiptur að því að styðja núverandi lög um breytt verðgildi gjaldmiðilsins. Hundraðföldun íslensku krónunnar var eitt af þeim atriðum sem við Alþfl.-menn lögðum mikla áherslu á fyrir kosningarnar 1978. Gjaldmiðilsbreytingin var einnig grundvallarhugmynd í tillögum Alþfl. sem lagðar voru fram eftir kosningarnar 1979. Í þeim tillögum myndaði gjaldmiðilsbreytingin ramma um aðrar efnahagsaðgerðir. Það ber því eitthvað nýrra við að við Alþfl.-menn skulum nú, tæpum tveimur árum eftir að við stóðum að samþykkt fyrrgreindra laga hér á hinu háa Alþingi, flytja frv. um að fresta gildistöku þessara sömu laga. Ástæðurnar fyrir þessu er þó mjög ljósar.

Efst í hugum okkar hafa verið frá fyrstu tíð hin jákvæðu áhrif gjaldmiðilsbreytingarinnar. Gjaldmiðilsbreyting gefur einstakt tækifæri fyrir hvaða stjórn sem er að hrinda í framkvæmd ýmsum nauðsynlegum efnahagsaðgerðum. Það hafa nú á undanförnum vikum farið fram miklar umr. hér á hinu háa Alþingi um fyrirhugaða gjaldmiðilsbreytingu. Það er víst, að það er óhugur í mörgum varðandi þessa breytingu. Það er ekki ætlun mín að snúa þeirri umr., sem hér á eftir að fara fram um þetta frv., upp í eldhúsdagsumr. um efnahagsstefnu ríkisstj.umr. hefur þegar farið fram hér í sölum Alþingis.

Nú er ljóst að um næstu áramót munu ekki verða framkvæmdar neinar efnahagsráðstafanir af núv. ríkisstj. Það skal ekki lagður á það dómur hér, hvenær eða hvort efnahagsráðstafanir ríkisstj. sjá dagsins ljós. Það er ekki efni þessa frv. né tilgangur. En við verðum að minnast þess, hvernig þessi lög eru til komin. Nauðsyn þess að breyta verðgildi íslensks gjaldmiðils er augljós. Það var ekki umdeilt fyrir tæpum tveimur árum þegar lögin voru samþykkt. En meginröksemdirnar fyrir samþykkt frv. voru þær, að samhliða gjaldmiðilsbreytingunni gæfist einstakt tækifæri til að framkvæma ýmsar róttækar efnahagsráðstafanir sem allir stjórnmálaflokkarnir eru sammála um að verði að framkvæma.

Þáv. viðskrh., Svavar Gestsson, núv. félm.- og heilbrrh. og formaður Alþb., flutti framsögu fyrir frv. á sínum tíma. Þeir, sem þá áttu sæti á Alþ., minnast vafalaust enn hinnar ítarlegu og góðu framsöguræðu sem hæstv. ráðh. flutti fyrir máli þessu. Þar rakti hann m.a. hina sögulegu þróun íslensks gjaldmiðils, en lagði einkum áherslu í sambandi við frv. á að þáv. ríkisstj., ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, mundi ætta að nota tímasetningu breytingarinnar til að leggja fram ýmsar efnahagstillögur. Hæstv. ráðh. sagði þá m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þótt gjaldmiðilsbreyting hafi vitaskuld engin áhrif á þróun verðbólgu út af fyrir sig má engu að síður ætla að hún gæti orðið brýning til að takast á við vandann af meiri einurð en áður og þannig orðið tákn nýs tímabils í stjórn efnahagsmála.“

Auk þess sagði hæstv. ráðh. í umr.:

„Hugsunin með þessu frv. og þeirri verðmiðilsbreytingu, sem það felur í sér, er fyrst og fremst sú að vera þáttur í heildaraðgerðum, að vera spori á stjórnvöld og almenning til að takast af alvöru á við þau efnahagsvandamál sem nú er við að glíma.“

Fulltrúar Sjálfstfl. tóku mjög í sama streng svo og þm. Alþfl. Það var því ljóst að þegar þm. afgreiddu ofangreint frv. um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils var það hugsun og tilgangur þeirra allra að þetta tækifæri yrði ekki látið ónotað, tímasetning gjaldmiðilsbreytingarinnar mætti ekki líða hjá án þess að aðrar aðgerðir fylgdu. Það ætti því öllum að vera ljóst hver var andi laganna þegar þau voru samþykkt. Þar sem nú er ljóst að þessi megintilgangur laganna verður ekki uppfylltur er það skylda þm. að sjá til þess að framkvæmd breytingarinnar verði frestað.

Nú er það ekki nýtt að þessari skoðun sé haldið fram á þessu ári, og vissulega hefði frv., sem ég mæli hér fyrir, átt að vera komið fram fyrr. Það er í raun furðulegt að hæstv. ríkisstj. hafi ekki haft forgöngu um að fresta þessu máli. Slíkt hefði verið eðlilegt og ríkisstj. hefði getað treyst á aðstoð stjórnarandstöðunnar við framkvæmd þessa máls.

En vissulega má virða það ríkisstjórnarflokkunum til vorkunnar, að þeir bjuggust sennilega við að þeir gætu nýtt gjaldmiðilsbreytinguna samhliða efnahagsaðgerðum. Þannig sagði einn af skarpari stuðningsmönnum þessarar ríkisstj., hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, í viðtali við Alþýðublaðið 26. júlí s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Miðað við þær tillögur, sem nú eru ræddar innan stjórnarflokkanna, er ég bjartsýnn á að gjaldmiðilsbreytingin komi heppilega inn í fyrirhugaðar aðgerðir, því að það er gert ráð fyrir að þessar aðgerðir verði farnar að skila árangri einmitt um það leyti sem gjaldmiðilsbreytingin á að eiga sér stað.“

Þessi ummæli hv. þm. hafa því miður ekki ræst. En hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson var örugglega ekki einn um það af stuðningsmönnum ríkisstj. að telja að áhrif efnahagsaðgerða yrðu komin fram nú undir árslok.

Þar sem þessar aðgerðir hafa ekki komið fram, sem voru tilgangur upphaflegrar lagasetningar og eindreginn vilji stuðningsmanna þessarar ríkisstj. svo og stjórnarandstöðu, eiga menn að sýna þann manndóm að snúa bökum saman og fresta gjaldmiðilsbreytingunni þar til betur stendur á. — Þetta er ekki einungis skoðun stjórnarandstöðuþm. Í viðtali við Alþýðublaðið 2. des. s.l. eða fyrir tæpri viku sagði hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég er í grundvallaratriðum sömu skoðunar og s.l. sumar þegar ég sagði, að efnahagsráðstafanir væru forsenda þeirrar gjaldmiðilsbreytingar, sem á að fara fram í janúar. Verði ekki gripið til efnahagsaðgerða fyrir gildistíma gjaldmiðilsbreytingarinnar finnst mér réttlætanlegt að fresta breytingunni.

Ég vonast hins vegar til þess, að margumræddar efnahagsaðgerðir, „sagði hv. þm.,“ verði samþykktar í þessum mánuði og að stjórnarflokkarnir geti komið sér saman um haldbærar lausnir. Ég veit, að það er mikið unnið vegna þessara ráðstafana í augnablikinu, og ég veit það líka, að Framsfl. gengur fram til þess verks með það í huga að koma efnahagsráðstöfununum í framkvæmd og að ná samstöðu innan ríkisstj. Hvort það tekst eða ekki verður tíminn að leiða í ljós og ekki er nú langur tími til stefnu, en það hefur sína kosti.“

Síðan segir þm. áfram: „Ég tel gjaldmiðilsbreytinguna út í hött ef ekki tekst samstaða um víðtækar efnahagsráðstafanir. Engar ráðstafanir, engin gjaldmiðilsbreyting.“

Þetta hafði einn af ábyrgari stjórnarþm. um þessa frestun að segja fyrir sex dögum.

Það er ekki ágreiningsefni meðal stjórnmálaflokkanna á Alþingi, að það sé heppilegt við réttar aðstæður að breyta verðgildi gjaldmiðils. Sömuleiðis er ekki umdeilt að gjaldmiðilsbreyting sé heppileg aðgerð í tengslum við aðrar ráðstafanir. Tilgangsleysi þessarar gjaldmiðilsbreytingar við núverandi aðstæður kemur best fram í því, að það verður nauðsynlegt eftir 5–6 ár að taka eitt núll aftan af krónunni og 5 árum seinna að taka annað núll aftan af ef þróunin fær að halda áfram eins og stefnir. Reyndar er í þessum tölum ekki gert ráð fyrir nema 50% verðbólgu, en við þekkjum aðra spádóma sem ég ætla ekki að fara út í.

Frestun breytingarinnar um eitt ár gerir ríkisstj. kleift að vinna að sínum málum, móta sína efnahagsstefnu, eins og hún hefur margoft lýst yfir að hún ætli að gera, leggja síðan þær tillögur fram á næsta ári og framkvæma þannig að gjaldmiðilsbreytingin í árslok 1981 verði vonandi lokapunktur í þeim aðgerðum. Ef svo fer er tilgangi breytingarinnar náð. Það er ábyrgðarleysi að framkvæma slíka aðgerð eins og nú á að gera um áramót. Slíkt mun einungis valda glundroða í þjóðfélaginu og veikja trú manna enn meira á gjaldmiðli okkar.

Mig langar að koma að þeim röksemdum sem verða vafalaust bornar á borð gegn þessu frv. Ég á ekki von á því, að nokkrir hv. þm. muni halda því fram, að gjaldmiðilsbreytingin sé nauðsynlegur liður í efnahagsráðstöfunum ríkisstj. Sömuleiðis á ég ekki von á því, að nokkur hv. þm. haldi því fram, að gjaldmiðilsbreytingin um næstu áramót muni hafa jákvæð áhrif á hugsunarhátt fólks í baráttunni gegn verðbólgunni. Nei, þær röksemdir, sem munu heyrast gegn þessu frv., verða þær, að þetta sé ekki framkvæmanlegt með svona stuttum fyrirvara. Þetta væri þá fyrsta málið sem ég hef nokkurn tíma heyrt um að ekki væri tími til að taka skynsamlega afstöðu í. Vissulega er tíminn skammur, en með góðum vilja og samheldni hefur okkur Íslendingum tekist að vinna bug á miklu, miklu stærri vandamálum en þeim sem samhliða væru frestun gjaldmiðilsbreytingarinnar.

Það er í fyrsta lagi vitað, að seðlavelta er alltaf mest í desembermánuði og minni mánuðina þar á eftir, og í öðru lagi er ekkert annað, sem á að breytast um næstu áramót, en verðgildi krónunnar. Það er ekkert annað í þjóðfélaginu, í efnahagslífi þjóðarinnar, sem á að taka einhverjum stökkbreytingum um næstu áramót. Það er ekkert sem kallar á að það megi ekki nota áfram gömlu seðlana eftir 1. jan. eins og við munum gera fyrir þann tíma.

Reyndar er komin upp sú furðulega staða vegna bankaverkfallsins, sem byrjaði á miðnætti s.l., að peningar verða lítið notaðir á næstunni ef verkfallið leysist ekki. Ég tel að það sé ekkert vafamál, þótt bankamannaverkfallið dragist eitthvað á langinn, að hægt verður að leysa öll vandamál sem skapast af skorti á peningum. Verkfallið hefur í för með sér önnur vandamál sem ég ætla ekki að ræða hér, en það vandamál að skortur sé á peningum er leyst með öðrum hætti. Fólk gefur út ávísanir og fyrirtæki gefa út skuldaviðurkenningar, sem eru fullgildar greiðslur nákvæmlega eins og peningar.

Það er vitað að í íslensku efnahagstífi eru ávísanir notaðar miklu meira en í flestum öðrum löndum. Þetta á sér orsök í því, að seðlastærðin er allt of lítil, og hefði mátt bæta úr því fyrir löngu. Þegar maður hugsar til þess, að stærsta mynteining á Íslandi, 5000 kr. seðill, samsvarar ekki lengur 10 dollara seðli, sjáum við hvað hefur verið rangt gert undanfarin ár.

Það er ekkert á móti því, í því millibilsástandi sem mundi skapast við að prenta og útbúa meira magn af seðlum ef núverandi seðlamagn reyndist ekki nægjanlegt, að hvetja fólk meira til að nota ávísanir. Þetta er reyndar gert nú þegar í bankamannaverkfallinu. En vissulega er búið að leggja í nokkurn kostnað vegna gjaldmiðilsbreytingarinnar. Aðalkosturinn er vafalítið myntsláttan sjálf og prentun seðla. Sá kostnaður tapast alls ekki, því að hér er um ekkert annað að ræða en fjárfestingu sem nýtist að ári liðnu.

Einnig hafa kaupmenn lagt í töluverðan kostnað við endurmerkingar á vörum, en vitanlega er hægt með ýmsum aðgerðum að létta þeim kostnaði af viðkomandi þannig að einstakir aðilar í þjóðfélaginu verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni vegna frestunarinnar.

Það er búið að auglýsa töluvert og gefa út bæklinga. Það hefur auðvitað kostað nokkuð, en það skiptir ekki máli hvort það hafa verið gefnir út einhverjir bæklingar eða auglýst töluvert mikið í sjónvarpi um breytinguna. Sá kostnaður er smáræði samanborið við þann mikla kostnað sem hlýst af því fyrir þjóðarbúið að nýta ekki þessa gjaldmiðilsbreytingu sem lið í efnahagsráðstöfunum. Það er erfitt að meta gjaldmiðilsbreytinguna til peninga, en ég held að flestir geti verið sammála um að sá hagnaður er verulegur.

Þeir hæstv, ráðh. og alþm., sem hér hafa í fyrri umr. talið varhugavert að fresta gjaldmiðilsbreytingunni, bera því við, að of skammur tími sé til stefnu, og vitna þá gjarnan í sérfræðinga Seðlabankans. Þessi röksemd er sú eina sem hægt er að leggja fram með nokkurri skynsemi gegn þessu frv. Þess vegna er athyglisverðast að heyra álit þess manns sem best skynbragð ber á þau mál frá sjónarmiði framkvæmdarinnar. Hér á ég við aðalbankastjóra Seðlabanka Íslands, dr. Jóhannes Nordal. Á fimmtudagsmorgun s.l. var viðtal við dr. Jóhannes Nordal í Morgunpóstinum í útvarpinu þar sem hann sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil ekki halda því fram, að það sé tæknilega ómögulegt að fresta gjaldmiðilsbreytingunni. Það er allt hægt að gera. Það veldur óþægindum. Og ef henni er bara frestað um eitt ár, eins og nú er lagt til, hefði það í för með sér að við mundum þurfa að framleiða allmikið á næsta ári af gömlu myntinni og gömlu seðlunum til notkunar í örfáa mánuði með verulegum kostnaði.“

Þetta hafði sá maður að segja um frestunina sem þekkir gjörla framkvæmdina. Hann telur frestunina mögulega. Þar sem einungis skynsemi mælir með frestun af þeim ástæðum, sem ég hef rakið, og það er hægt að framkvæma hana ber okkur skylda til að hraða afgreiðslu þessa máls hér á hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Að lokum þetta: Með því að láta gjaldmiðilsbreytinguna koma til framkvæmda um næstu áramót er verið að brjóta anda lagasetningarinnar frá vordögum 1979. Það er verið að gefast upp fyrir ákveðnu tæknivandamáli sem er ofmetið af einstökum embættismönnum, en þó ekki af yfirmanni Seðlabankans. Það er verið að svipta þjóðina tiltrú á gjaldmiðli okkar og það er verið að glata einstæðu tækifæri til að snúa við þeirri hættulegu efnahagsþróun sem ríkt hefur hér undanfarin ár.

Að lokinni þessari umr., herra forseti, geri ég það að tillögu minni að frv. verði vísað til fjh.- og viðskn.