08.12.1980
Neðri deild: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

131. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Þegar rætt er um frv. þar sem gert er ráð fyrir að fresta gjaldmiðilsbreytingu, en að undanförnu hafa farið fram umræður um það mál, vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að á meðan hv. 1. flm. flytur hér sitt sjónarmið varðandi það að frestað verði gjaldmiðilsbreytingu 1. jan. n.k. situr ekki einn einasti ráðh. í ríkisstj. inni í þingsalnum. Hæstv. félmrh. hefur verið hér til hliðar, en enda þótt vitnað hafi verið til orða hans þegar frv. um gjaldmiðilsbreytinguna var flutt, heyrir þetta mál ekki undir hans rn. og því eðlilegast að aðrir ráðh., þ.e. hæstv. forsrh., hæstv. viðskrh. eða hæstv. fjmrh., væru hér til andsvara og gerðu grein fyrir sínum sjónarmiðum með tilliti til þess sjónarmiðs sem kom fram í Ríkisútvarpinu fyrir nokkrum dögum hjá dr. Jóhannesi Nordal seðlabankastjóra.

Það eru allir sammála um að gjaldmiðilsbreyting er mjög vandasöm. Til þess að hún nái tilætluðum árangri þarf að gera efnahagsráðstafanir til að vekja tiltrú fólks á ný á gjaldmiðlinum. Ljóst er að engar efnahagsráðstafanir eru sjáanlegar og Alþ. hefur ekki fengið svar um hvort það fái yfirleitt að sjá tillögur um efnahagsráðstafanir áður en til gjaldmiðilsbreytingarinnar verður gengið. Nú nálgast þann dag sem framkvæma skuli gjaldmiðilsbreytinguna. Þá gerist það í fyrsta skipti að bönkunum er lokað vegna launadeilu bankastarfsmanna og stjórnar bankanna. Það er því skoðun mín, herra forseti, að það beri að fresta þessum umr. þannig að tækifæri gefist til að hlusta á sjónarmið þeirra ráðh., sem með þessi mál fara, og að Alþ. sé sýnd tilhlýðileg virðing og mál ekki rædd þegar ráðh. sýnast ekki geta sótt þingfundi eins og þeim ber skylda til.