08.12.1980
Neðri deild: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

148. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. 18. og 19. mál dagskrárinnar, þ.e. 147. mál Nd., þskj. 180, og 148. mál Nd., þskj. 181, eru náskyld mál og ég hef leyfi hæstv. forseta til að mæla fyrir þessum frv. nú samtímis, eins og oft gerist á hv. Alþ. þegar um skyld mál er að ræða.

Ég vík fyrst að frv. til l. um fæðingarorlof, 147. máli Nd.

Eitt af þeim félagslegu réttindamálum, sem ríkisstj. lýsti yfir að hún mundi beita sér fyrir í tengslum við gerð kjarasamninga Alþýðusambandsins 27. okt. s.l., var fæðingarorlof til handa öllum konum, jafnt útivinnandi sem heimavinnandi. Frv. það, sem hér er flutt um fæðingarorlof, er byggt á framangreindri yfirlýsingu ríkisstj. og felur í sér þau efnisatriði sem þar er að finna.

Samkv. núgildandi fyrirkomulagi njóta íslenskar konur fæðingarorlofs að vissu marki: Í fyrsta lagi samkv. ákvæðum kjarasamninga stéttarfélaganna, en í öðru lagi samkv. ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar. Í báðum tilvikum er réttur til fæðingarorlofs bundinn atvinnuþátttöku eða aðild að stéttarfélagi. Í kjarasamningum eru ákvæði mörg og mismunandi um þetta efni. Samkv. kjarasamningum Verkamannasambands Íslands er fæðingarstyrkur kvenna, sem unnið hafa eitt ár eða lengur hjá sama atvinnurekanda, dagvinnukaup í aðeins þrjár vikur. Samkv. kjarasamningum Verslunarmannafélags Reykjavíkur á kona, sem unnið hefur hjá sama atvinnurekanda, rétt til óskerts kaups í 12 virka daga ef hún er fjarverandi vegna barnsburðar. Í kjarasamningum Landssambands iðnverkafólks er svokallaður fæðingarstyrkur kvenna, sem unnið hafa eitt ár eða lengur hjá sama atvinnurekanda, dagvinnukaup í tvær vikur. Samkv. kjarasamningum Starfsmannafélagsins Sóknar eiga starfsmenn, sem unnið hafa í eitt ár hjá sama atvinnurekanda, rétt á dagvinnukaupi í þrjár vikur. Fæðingarorlof nær einnig til þeirra Sóknarstarfsmanna sem vinna hluta úr degi samfellt og skulu greiðslur þá miðast við hlutfallslegan vinnutíma. Starfsmenn, sem unnið hafa þrjú ár eða lengur og taka verða frí frá starfi vegna barnsburðar, fá þriggja mánaða leyfi frá starfi á dagvinnukaupi. Í kjarasamningum Hins íslenska prentarafélags er gert ráð fyrir að fæðingarstyrkur kvenna, sem unnið hafa eitt ár eða lengur hjá sama atvinnurekanda, sé dagvinnukaup í þrjár vikur. Í kjarasamningum Áburðarverksmiðjunnar, Sementsverksmiðjunnar og Kísiliðjunnar er gert ráð fyrir að vegna barnsburðar skuli konur sem unnið hafa samfellt í eitt ár eða lengur hjá verksmiðjunum, halda óskertum launum í allt að þrjá mánuði, enda mæti konan aftur til vinnu að fæðingarorlofi loknu. Konur, sem starfa hjá Járnblendifétaginu skulu halda óskertum launum í allt að 6 vikur vegna barnsburðar hafi þær unnið samfellt eitt ár eða lengur hjá félaginu.

Til viðbótar samningsbundnum rétti hjá almennum verkalýðsfélögum hafa síðan komið greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkv. lögum nr. 56/1975, sbr. reglugerð nr. 14/1976. Almenna reglan er sú, að kona þarf á síðustu tólf mánuðum fyrir barnsburð að hafa stundað vinnu, sem tryggingarskyld er samkv. lögum um atvinnuleysistryggingar, í a.m.k. 1032 dagvinnustundir, eða 516 dagvinnustundir sé um reglubundna hálfs dags vinnu að ræða. Upphaf greiðslu í fæðingarorlofi hjá Atvinnuleysistryggingasjóði miðast við laun fyrir 8 klst. dagvinnu eins og þau eru á hverjum tíma samkvæmt byrjunarlaunum næstlægsta taxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík, með nokkrum skerðingum þó. Samkv. 3. gr. reglugerðar um fæðingarorlof eru framantalin réttindi kjarasamnings og atvinnuleysistrygginga samofin með þeim hætti, að Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir fæðingarorlof fyrir þann tíma sem á vantar að launagreiðsla frá atvinnurekanda í fæðingarorlofi nemi 90 bótadögum. Heildarréttur íslenskra kvenna á vinnumarkaði er því 90 bótadagar samanlagt samkv. kjarasamningum og ákvæðum um Atvinnuleysistryggingasjóð.

Ákvæði um barnsburðarleyfi fyrir starfsmenn ríkisins byggjast ekki á kjarasamningum, heldur er þau að finna í reglugerð um orlof og veikindaforföll ríkisstarfsmanna, 11. gr. Samkv. henni á kona rétt á að vera fjarverandi vegna barnsburðar á fullum launum í samtals 90 daga. Til fullra launa telst meðaltal yfirvinnu eða álagsstunda fyrir síðustu sex mánuði. Ef lengri frátafir eru nauðsynlegar að dómi lækna skal meta það eftir ákvæðum um veikindaforföll. Ákvæði um barnsburðarleyfi opinberra starfsmanna eru að ýmsu leyti fábrotin, en með tímanum hafa myndast ákveðnar reglur varðandi framkvæmdina og má þar nefna að kona nýtur ekki launa í barnsburðarleyfi nema hún hafi verið a.m.k. 6 mánuði í starfi hjá ríkinu þegar barnið fæðist.

Samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna skal fastráðin kona eiga rétt á að vera fjarverandi með fullum launum í samtals þrjá mánuði og skal um uppgjör fyrir yfirvinnu farið eftir ákvæðum um veikindi í kjarasamningum. Séu lengri frátafir nauðsynlegar að dómi trúnaðarlæknis skal meta þær eftir ákvæðum um veikindadaga. Þar gilda ákvæði um barnsburðarfrí ef kona tekur kjörbarn.

Á síðasta Alþingi var lagt fram frv. til l. um fæðingarorlof. Frv. þetta var samið af nefnd sem skipuð var af heilbr.- og trmrh. til að endurskoða lög um almannatryggingar. Allir þingflokkar tilnefndu menn í nefndina. Frv. þetta gerði ráð fyrir að allar konur, sem forfölluðust frá vinnuráðningu vegna barnsburðar, skyldu eiga rétt til dagvinnulauna í a.m.k. þrjá mánuði í fæðingarorlofi. Konur utan vinnumarkaðar og konur, sem höfðu í mánaðarlaun undir mánaðarupphæð sjúkradagpeninga, skyldu hins vegar eiga rétt á fæðingardagpeningum í þrjá mánuði sem svöruðu til sömu upphæðar og fullir sjúkradagpeningar hverju sinni. Ýmis fleiri atriði voru í frv. þessu sem voru til bóta, og í heild hafði frv. að geyma athyglisverð framfaraspor í fæðingarorlofsmálum, en hlaut samt sem áður gagnrýni fyrir ýmis atriði og var vísað til ríkisstj. til frekari athugunar s.l. vor.

Frv. það, sem hér er flutt, gerir ráð fyrir að nú verði lögfestur lágmarksréttur fæðingarorlofs til allra foreldra á hinum almenna vinnumarkaði, auk þeirra sem eru heimavinnandi. Frv. þessu er ætlað að leysa af hólmi þau ákvæði núgildandi fyrirkomulags fæðingarorlofs, bæði í Atvinnuleysistryggingasjóði og í kjarasamningum verkalýðsfélaganna, sem að framan voru talin, þó þannig að hvorki er verkalýðsfélögum óheimilt að semja um betri rétt í framtíðinni né heldur er gert ráð fyrir að frv. skerði betri heildarrétt sem verkalýðsfélög hafa í kjarasamningum sínum nú þegar, sbr. síðustu mgr. 1. gr. Hins vegar tekur þetta frv. ekki til opinberra starfsmanna og bankamanna, sem nú þegar búa við þriggja mánaða fæðingarorlof, eins og áður var upp talið. Sá réttur þessara starfsmanna er heildstæður og utan þess kerfis sem frv. þetta er að leysa af hólmi.

Frv. er nýmæli í lögum um almannatryggingar. Það gerir ráð fyrir að öllum foreldrum, sem lögheimili eiga á Íslandi, verði tryggt fæðingarorlof í þrjá mánuði. Fæðingarorlofsgreiðslur eru hins vegar allt frá því að vera fullar svokallaðar viðmiðunargreiðslur á fæðingarorlofstímanum og niður í 'Is af viðmiðunargreiðslum á fæðingarorlofstímanum og er þá fyrst og fremst byggt á atvinnuþátttöku viðkomandi. Gert er ráð fyrir að foreldri, sem hefur hálfa til fulla atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði eða 1032–2064 dagvinnustundir á síðustu tólf mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs, eigi rétt á óskertum mánaðarlegum fæðingarorlofsgreiðslum í þrjá mánuði eins og viðmiðunargreiðslur eru á hverjum tíma. Viðmiðunargreiðslur fæðingarorlofs eru samkv. 1. gr. frv. 530 221 kr. á mánuði miðað við 1. des. og skulu þær taka breytingum ársfjórðungslega í samræmi við kaupbreytingar eins og þær verða í 8. flokki kjarasamnings Verkamannasambands Íslands, efsta starfsaldursþrepi.

Þegar um er að ræða foreldri sem hefur fjórðungs til hálfa atvinnuþátttöku, þ.e. 516–1031 dagvinnustund á síðustu tólf mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs, skerðist viðmiðunargreiðsla um 1/3. Með þessari atvinnuþátttöku á viðkomandi því rétt til 2/3 af mánaðarlegum greiðslum í þrjá mánuði. Sé foreldri utan vinnumarkaðar, heimavinnandi eða með fjórðungs atvinnuþátttöku eða minna, þ.e. 515 stundir og minna á síðustu tólf mánuðum, skerðast viðmiðunargreiðslur um 2/3 og á því viðkomandi rétt á 1/3 hluta fullra viðmiðunarlauna í þrjá mánuði. Hins vegar gerir frv. ráð fyrir því í næstsíðustu mgr. 1. gr., að foreldri sé heimilt, ef um það næst samkomulag við atvinnurekanda, að semja um lengra fæðingarorlof eða sveigja það að eigin ósk, með óbreyttum greiðslum þó. Þannig má gera ráð fyrir að það geti þjónað hagsmunum margra foreldra að taka lengra fæðingarorlof eða jafnvel skipta því, en hvorugt á að hafa áhrif á viðmiðunargreiðslur í fæðingarorlofi. Þetta ákvæði frv. er því aðeins til áréttingar á því, að fæðingarorlof getur verið sveigjanlegt ef aðilum sýnist svo.

Í frv. þessu er nú gert ráð fyrir að allt fæðingarorlof greiðist úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins. Ef að lögum verður fellur því niður greiðsluskylda atvinnurekenda samkv. kjarasamningum að svo miklu leyti sem ekki er um betri heildarrétt að ræða. Í stað þess er í sérstöku frv. gert ráð fyrir breytingu á almannatryggingalögum hvað varðar þátttöku atvinnurekenda í lífeyrisdeild almannatrygginga og er greiðslubyrði þeirra aukin sem því nemur þar.

Gegn framvísun vottorðs læknis og sönnun á launagreiðslum og atvinnuþátttöku viðkomandi greiðir Tryggingastofnun ríkisins fæðingarorlofsgreiðslur. Hins vegar er gerð ráð fyrir því á síðari stigum, að um greiðslufyrirkomulag og sönnun á launagreiðslum og atvinnuþátttöku þurfi að setja nánari reglur í reglugerð.

Gera má ráð fyrir að í fyrstu verði ákveðnum vandkvæðum bundið fyrir ýmsa hópa kvenfólks að sanna atvinnuþátttöku sína eða störf sem mættu jafngilda atvinnuþátttöku. Er t.d. enginn vafi á því, að konur bænda, sjómannskonur og konur, sem stunda atvinnurekstur, og þær, sem stunda nám með heimilisstörfum, gætu átt í erfiðleikum með að sanna launagreiðslur og atvinnuþátttöku. Í þessu sambandi verður annaðhvort að miða við persónulega sönnun um launagreiðslur og atvinnuþátttöku, eins og frv. gerir reyndar ráð fyrir, eða reyna að móta einhverjar ákveðnar reglur varðandi hvern hóp um sig. Ef sú regla er tekin upp að byggja alfarið á persónulegum upplýsingum einstaklings mætti gera ráð fyrir að skattaskýrslur viðkomandi væru ákveðin sönnun, en þó er sá meinbugur á því, að þegar réttur til fæðingarorlofs skal metinn er atvinnuþátttaka síðustu tólf mánuði fyrir barnsburð lögð til grundvallar og gæti því skattaskýrsla, sem miðar við áramót, verið takmörkuð sönnun um slíkt. Varðandi konur bænda sérstaklega mætti t.d. byggja á búreikningum viðkomandi bús eða annarri sönnun um atvinnuþátttöku viðkomandi konu í búrekstrinum. Ýmsar aðrar upplýsingar gætu komið til greina í þessu sambandi, en hugsanlega er þó eðlilegasta niðurstaðan sú að móta ákveðna reglur hvað sérstakar starfsgreinar snertir og reyna þar með að nálgast það meðallag, sem eðlilegast og sanngjarnast er, og láta það gilda um alla í þeirri starfsgrein.

Allir, sem eru heimavinnandi, njóta samkv. ákvæðum frv. a.m.k. þriðjungs viðmiðunargreiðslna í þrjá mánuði. Það er sá grundvallarréttur sem byggt er á í þessu frv. Öll atvinnuþátttaka, sem nær því að vera meiri samanlagt síðustu tólf mánuði en 515 klst. eða fjórðung úr meðalári, bætir þann rétt um helming og verður því að finna sanngjarna og eðlilega lausn á því, hvernig slíkt skuli metið í afmörkuðum tilvikum þar sem erfitt er um sönnun.

Ekki þóttu tök á því í þessu frv. að marka ákveðna stefnu hvað þessar starfsgreinar snertir og hugsanlega aðrar sem erfitt eiga með sönnun á vinnuframlagi sínu. Gera verður ráð fyrir að tíminn og reynslan leiði í ljós hvernig eðlilegast sé að meta hin einstöku störf. Er því lagt til að ráðh. sé, eins og áður segir, veitt heimild til setningar reglugerðar um nánari útfærslu greinarinnar.

Þau efnisatriði, sem mestu máli skipta og frv. þetta hefur að geyma, auk þeirra sem áður eru talin, eru eftirfarandi:

1) Ef um fleirburafæðingu er að ræða framlengist fæðingarorlof um einn mánuð, sömuleiðis ef sjúkleiki barns krefst nánari umönnunar foreldris. Þörf fyrir slíka framlengingu á fæðingarorlofi ber að sanna með almennu læknisvottorði, en síðan skal það vottorð staðfest af tryggingaráði.

2) Sé móður nauðsynlegt af heilsufars- eða öryggisástæðum að hefja töku fæðingarorlofs meira en einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag skal hún eiga rétt á fæðingarorlofsgreiðslum í þann tíma sem nauðsyn krefur til viðbótar þrem mánuðum, þó þannig að aldrei verði heildarfæðingarorlof lengra en samtals fjórir mánuðir.

3) Í frv. þessu er gert ráð fyrir að fæðingarorlof falli niður frá og með þeim degi að telja er foreldri lætur barn frá sér vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs eða til varanlegrar dvalar á stofnun. Er því gert ráð fyrir að foreldrar fái réttinn til fæðingarorlofs þar til barni er ráðstafað. Þegar um er að ræða slík tilvik og einnig ef um er að ræða fæðingu andvana barns eða fósturlát sem jafna má til fæðingar skal fæðingarorlof þó aldrei vera minna en einn mánuður að lokinni fæðingu.

4) Ættleiðandi foreldri, uppeldis- eða fósturforeldri skulu njóta allt að tveggja mánaða fæðingarorlofs vegna töku barns til fimm ára aldurs.

5) Þá er gert ráð fyrir að óheimilt sé að láta barnshafandi konu eða foreldri í fæðingarorlofi gjalda þess með uppsögn úr starfi, nema gildar og knýjandi ástæður séu fyrir hendi. Samkv. gildandi rétti er íslenskt verkafólk almennt óvarið fyrir uppsögnum úr starfi að öðru leyti en því, að fylgja ber ákvæðum laga og kjarasamninga um uppsagnarfrest. Atvinnurekendur íslenskir hafa fullkomlega á valdi sínu að segja upp starfsfólki meðan þeir fylgja reglum um fresti, og er því naumast hægt að tala um atvinnuöryggi eða tryggingu fyrir vinnu á þessu sviði. Í frv. þessu er hins vegar gert ráð fyrir að því aðeins sé heimilt að segja barnshafandi konu upp starfi eða foreldri í fæðingarorlofi að ástæður uppsagnarinnar séu knýjandi og gildar. Með því er auðvitað átt við að geðþóttaákvarðanir séu ekki heimilaðar undir þessum kringumstæðum, heldur verði ástæður að liggja í knýjandi hagsmunum. Hér má nefna sem dæmi um knýjandi ástæður: lokun fyrirtækis, flutning þess í annað byggðarlag eða jafnvel gjaldþrot.

Kostnaðaráætlanir fæðingarorlofs byggjast á forsendum um atvinnuþátttöku kvenna, sem litlar upplýsingar eru til um, og eru því að sumu leyti óljósar. Gróft reiknað er talið að um 60% af konum séu útivinnandi með um 2640 af þeim 4400 árlegu fæðingum sem gengið er út frá í þessum dæmum. Af þessum 2640 konum er talið að um 70% séu í fullu starfi, en hinar í hlutastörfum. Telja verður þetta rýmilega áætlað og að kostnaður kunni að verða minni en sem nemur þessum áætlunum. Í núverandi greiðslukerfi fæðingarorlofs, sem framkvæmt er af Atvinnuleysistryggingasjóði, höfðu eingöngu þær konur rétt á greiðslum sem voru félagar í stéttarfélögum, eins og áður segir. Miðað við að talið er að árið 1980 hafi um 1500 konur notið þessa kerfis hefði kostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs orðið um 1850 millj. kr, á næsta ári hið minnsta. Ég tel reyndar að þessi tala sé til muna of lágt áætluð hér. Þessum greiðslum er nú létt af sjóðnum, en kostnaði skipt á milli ríkissjóðs og atvinnurekenda. Hlutur atvinnurekenda greiðist sem 2% af öllum tegundum launa og rennur hann til lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar samkv. sérstöku frv. sem ég mæli fyrir hér á eftir.

Samkv. þessu frv. er full viðmiðunargreiðsla fæðingarorlofs, miðað við 1. des. 1980, 530 221 kr. á mánuði. Þessi réttur jafngildir álíka greiðslu og þær konur njóta nú úr gildandi kerfi sem eiga þrjú börn. Fyrir allar konur, sem eiga þrjú börn eða færri, þýðir þetta hvort tveggja í senn réttarbætur og hærri greiðslur. En það, sem skiptir kannske meira máli, er að í frv. þessu er gert ráð fyrir að heimavinnandi konur fái nú í fyrsta skipti fæðingarorlof. Má gera ráð fyrir að hér sé um að ræða u.þ.b. 2000 konur á ári hverju sem nú öðlast fæðingarorlofsrétt í fyrsta skipti.

Herra forseti. Ég vil taka það fram að lokum, að tilgangurinn með fæðingarorlofi er sá, að konur fái tækifæri til að ná sér eftir þá áreynslu sem barnsburður vissulega er. En tilgangur þess er einnig sá, að foreldrar geti annast barn sitt á fyrsta æviskeiði þess. Þrátt fyrir öll sjónarmið í uppeldismálum og deilur um hlutverk heimila, fjölskyldna og dagvistarheimila í nútímasamfélagi hljóta allir að vera sammála um að fyrsta æviskeiðið verður barnið að geta notið foreldra sinna beggja sem mest. Að slíku ber þjóðfélaginu að stuðla. Þrír mánuðir eru vissulega ekki langur tími til fæðingarorlofs og greiðslur ekki ýkjaháar. En líta má á þetta sem skref í rétta átt. Ef til vill verður þessi réttur aukinn síðar í sókn okkar til bætts og betra mannlífs og aukins jafnaðar með öllu fólki.

Ég vil síðan í framhaldi af þessu, herra forseti, leyfa mér að mæla fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum, sem er einnig á dagskránni, 148. mál. Frv. þetta er flutt í tengslum við frv. um fæðingarorlof.

Fæðingarorlofsfrv. gerir ráð fyrir að létt verði af atvinnurekendum og Atvinnuleysistryggingasjóði þeim fæðingarorlofsrétti sem gildandi er. Gert er ráð fyrir að fæðingarorlof verði framvegis greitt úr lífeyrisdeild almannatrygginga, verði það frv. að lögum. Slíkt þýðir auðvitað verulegan útgjaldaauka fyrir lífeyrisdeildina, en samkv. ákvæðum 20. gr. almannatryggingalaga eru útgjöld lífeyristrygginga borin uppi af ríkinu að 86%, en af atvinnurekendum að 14%. Aukin þátttaka atvinnurekstrarins í lífeyristryggingum verður því að koma til til þess að vega á móti því sem af atvinnurekstri er létt og til þess að tryggja eðlilega þátttöku atvinnurekstrar í hinum auknu útgjöldum lífeyristrygginga vegna fæðingarorlofs.

Með breytingum, sem gerðar voru á almannatryggingalögum 1978, sbr. nú 25. gr. laganna, á að jafna framlagi atvinnurekenda niður á þá með iðgjaldi sem reiknað er sem hundraðshluti af greiddum launum eftir sömu reglum og nú gilda um útreikning launaskatts. Þessi hundraðshluti, sem standa á undir kostnaðarhluta atvinnurekenda af lífeyristryggingum, skal ákveðinn með reglugerð. Samkv. reglugerð nr. 94/1979, sem auk annars fjallar um þennan hluta, er gjaldstofn lífeyristryggingaiðgjaldsins sami og gjaldstofn launaskatts og gjaldstigi 2%. Í raun er því um að ræða 2% gjald af öllum launum, þannig að 14%-reglan er tæplega til í framkvæmd. Með þeim breytingum, sem hér eru lagðar til, er ætlast til þess, að 2%-reglan varði lögfest, en fallið frá ákveðinni prósentuskiptingu milli ríkisins annars vegar og atvinnurekenda hins vegar. Gert er ráð fyrir, að reynslan sýni að 2% gjald af launum gefi nokkra hærri fjárhæð en sem nemur 14% hlutdeild í lífeyristryggingum, og er því tillaga um lögfestingu 2%-gjaldsins gerð í samráði við atvinnurekendur og með þeirra samþykki. Það, sem á vantar, að fengnum 2% atvinnurekenda, greiðir ríkið í samræmi við áætluð útgjöld ársins eða endanlegt uppgjör hvers árs. Kemur því ekki til að krafist verði neinnar viðbótar frá atvinnurekendum, þar sem framlag þeirra er nú orðið 2% af gjaldstofni liðins árs. Ráðh. getur því ekki breytt framlögum atvinnurekenda í samræmi við breyttan grundvöll fjárhagsáætlunar, eins og núgildandi 21. gr. laganna heimilar. Hið sama gildir um reikningslok og hækkun á næsta árs framlagi vegna of lágra framlaga liðins árs. Ef frv. þetta verður að lögum mun regla þessi auðvelda allar framkvæmdir til muna.

Í samræmi við 1. gr. frv. gerir 2. gr. þess ráð fyrir nauðsynlegum breytingum á 21. gr. almannatryggingalaganna.

Sömu sögu er að segja um 3. gr. Lagt er til að 25. gr. núgildandi laga falli niður, enda er hún óþörf ef 1. gr. þessa frv. verður að lögum, en greinin fjallar um framlög atvinnurekenda og iðgjöld sem nú taka miklum eðlisbreytingum ef frv. þetta verður að lögum.

Á það skal lögð áhersla að lokum, að frv. þetta er flutt, eins og áður segir, í tengslum við frv. til l. um fæðingarorlof og er byggt á þeirri kerfisbreytingu, að fæðingarorlofi verði létt af Atvinnuleysistryggingasjóði og atvinnurekendum að svo miklu leyti sem frv. um fæðingarorlof tekur til þeirra ákvæða. Samkv. frv. til l. um fæðingarorlof tekur lífeyrisdeild almannatrygginga nú við fæðingarorlofi til allra kvenna og er því nauðsynlegt að gera þær lagabreytingar á almannatryggingalögum sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þessum frv. báðum, 147. og 148. máli Nd., verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. Ég vil vinsamlegast fara þess á leit við n., að hún freisti þess eins og frekast er kostur að ljúka afgreiðslu þessara mála þannig að þau geti orðið að lögum fyrir jól.