09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

346. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Fyrirspyrjandi (Jóhann Einvarðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 42 að leggja fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. forsrh. varðandi störf stjórnarskrárnefndar:

„Hverjir verða næstu áfangar í starfi stjórnarskrárnefndar?

Er tryggt, að tillögur nefndarinnar varðandi breytingar á kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulagi liggi fyrir með svo góðum fyrirvara, að unnt verði að afgreiða þær fyrir lok kjörtímabilsins?“

Hinn 6. maí 1978 samþykkti Alþingi þáltill. um skipan nýrrar stjórnarskrárnefndar og var tekið fram, að nefndin skyldi skila innan tveggja ára álitsgerð og tillögum um endurskoðun stjórnarskrárinnar og taka sérstaklega til meðferðar kjördæmaskipun, kosningaákvæði stjórnskipunarlaga, skipulag og starfsemi Alþingis og kosningalög. Í málefnasamningi ríkisstj. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnarskrárnefndin, sem vinnur að endurskoðun stjórnarskrárinnar, ljúki störfum fyrir árslok 1980, þannig að Alþingi hafi nægan tíma til þess að ljúka afgreiðslu stjórnarskrár- og kjördæmamálsins fyrir lok kjörtímabilsins.“

Í sjálfu sér þyrfti framsaga mín vegna þessarar fsp. ekki að vera lengri. En ég lýsi óánægju minni með þann drátt sem virðist hafa orðið á störfum nefndarinnar því að í dag, 9. des. 1980, liggja engar tillögur fyrir. Það eina, sem komið hefur frá nefndinni, í ágúst s.l., er safn hugmynda, sem fram hafa komið varðandi breytingar á kjördæmaskipan, en engar tillögur frá nefndinni.

Ég ætla ekki hér og nú að ræða efnislega þær hugmyndir, sem fram hafa komið í þessari skýrslu, eða koma með nýjar. Ég vek einungis athygli á því, að íbúar Reykjaneskjördæmis geta ekki öllu lengur unað við það mikla óréttlæti sem fram hefur komið í misvægi atkvæða eftir landshlutum. Í því sambandi bendi ég á að hafi kosningalögin frá 1959 verið réttlát, sem ég vil ekkert fullyrða um, varðandi skiptingu þm. milli kjördæma þá er kominn tími til endurskoðunar þessara laga vegna mikillar fjölgunar kjósenda í sumum kjördæmum, einkum í Reykjaneskjördæmi, umfram önnur. Í Reykjaneskjördæmi hefur kjósendum fjölgað um 143% frá haustinu 1959, en t.d. í Vestfjarðakjördæmi einungis um 8%, svo að dæmi sé tekið. Á öllu landinu hefur kjósendum fjölgað um 49% á sama tímabili, en um 29% utan Reykjavíkur og Reykjaness.

Ég tel að hér sé um svo flókið og margþætt mál að ræða að ekki megi dragast öllu lengur að tillögur nefndarinnar liggi fyrir svo Alþ. hafi nægan tíma til að ræða þær og afgreiða fyrir lok kjörtímabilsins. Ég skora því á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir því, að nefndin ljúki störfum hið allra fyrsta og skili síðan tillögum um breytingar, og því til áréttingar hef ég lagt fram þessa fsp., en ekki til þess að hefja almennar umr. um, á hvern hátt breyta ætti lögum um kosningar og kjördæmaskipan, eða koma fram með tillögur til breytinga að þessu sinni.