09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

346. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í ágústmánuði s.l. sendi stjórnarskrárnefnd þingflokkunum tvær skýrslur um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Fyrri skýrslan fjallaði sérstaklega um allmörg — ég ætla 19 — efnisatriði sem koma til athugunar við endurskoðun stjórnarskrárinnar, fyrir utan breytingar á kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulagi. Í síðari skýrslunni var hins vegar fjallað um þau mál, þ.e. kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag.

Í umræðum í nefndinni um kjördæmamálið hafa verið nefnd og rædd þrjú grundvallaratriði:

Í fyrsta lagi að hin nýja kjördæmaskipun skuli tryggja jafnrétti milli stjórnmálaflokka í landinu þar sem tryggt er, eftir því sem unnt er, að Alþingi verði rétt spegilmynd af stjórnmálaástandinu og fylgi flokkanna eins og það er á hverjum tíma. Þetta fyrsta grundvallaratriði, sem rætt hefur verið í nefndinni frá fyrstu fundum, er sem sagt um jafnrétti á milli stjórnmálaflokka.

Í öðru lagi hefur verið rætt um það stefnumið að jafna sem mest vægi atkvæða í hinum ýmsu kjördæmum.

Í þriðja lagi hefur svo verið rætt um það grundvallaratriði að gefa kjósendum meira svigrúm en nú er til að kjósa persónulega, þ.e. að kjósa ekki aðeins lista og flokka, heldur velja sér frambjóðendur eða persónur.

Þessi þrjú grundvallaratriði, sem ég rakti hér, hafa verið leiðarljós nefndarinnar frá upphafi og hafa störf hennar og greinargerðir miðast mjög við þau.

Í þessari skýrslu sinni bendir nefndin fyrst á það, hvaða breytingar koma helst til greina í sambandi við kjördæmaskipunina, og þá hefur það verið mjög haft í huga að byggja í meginatriðum á núverandi kjördæmaskipun. Í skýrslunni er fjallað um hugsanlega fjölgun þm., ef það þætti, eins og verið hefur um fyrri kjördæmabreytingar, eina leiðin til að fullnægja meginsjónarmiðunum. Enn fremur er fjallað um breytingar á reglum um úthlutun uppbótarsæta. Einnig hefur verið rætt um það, hvort ætti að fjölga kjördæmum landsins með hliðsjón af breyttri búsetu landsmanna síðan núverandi kjördæmaskipun var ákveðin.

Í skýrslunni eru ræddar ýmsar aðrar leiðir sem koma til greina varðandi nýja kjördæmaskipun. M.a. eru tvær leiðir sem talið er að trauðla komi til greina. Önnur er sú, að landið verði allt eitt kjördæmi með hlutfallskosningum. Það var um skeið á stefnuskrá eins stjórnmálaflokksins, en hann hefur fallið frá því og hafnað þeirri leið. Hin leiðin, sem flestir telja að vart sé fær, er einmenningskjördæmi án uppbótarsæta. Ég undirstrika það: einmenningskjördæmi án uppbótarsæta.

Nefndin bendir á ýmsar leiðir í sambandi við kjördæmamálið, svo sem það kerfi, sem á Írlandi gildir, og það kerfi, sem í Vestur-Þýskalandi gildir. Hvor leiðin um sig hefur marga kosti og ýmsa fylgismenn. Einnig er bent á það í skýrslunni, að margvíslegar leiðir séu til þess að auka vald kjósendanna til persónulegs vals frambjóðenda í kjördæmi.

Stjórnarskrárnefndin hefur óskað eftir því, að þessar skýrslur hennar yrðu ræddar í þingflokkunum og nefndinni verði látið í té álit þeirra á þeim atriðum sem þær fjalla um. — Ég vil taka fram í þessu sambandi í tilefni af ræðu hv. fyrirspyrjanda, að það var að sjálfsögðu mjög rætt innan nefndarinnar hvort hún ætti beinlínis að gera ákveðnar tillögur um lausn þessara mála án þess að bera sig áður saman við þingflokkana. Margir hafa verið þeirrar skoðunar, að það væru fyrst og fremst þingflokkarnir sem yrðu að taka afstöðu til breytinga á kjördæmaskipuninni, og sú leið varð ofan á og talin heppilegust vinnubrögð að nefndin safnaði upplýsingum, gerði nokkurt mat eða úttekt á ýmsum helstu leiðum, sem til greina koma, léti fara fram útreikninga og afgreiddi málið þannig til þingflokkanna svo að þeir hefðu þar efnivið og upplýsingar sem grundvöll undir sínum umræðum. Þegar þingflokkarnir hefðu lokið þessum athugunum sínum létu þeir nefndinni í té niðurstöður sínar og þá ynni nefndin úr því og gerði lokatillögur í þessu máli. Næstu áfangar í starfi stjórnarskrárnefndar munu því verða að taka málið í heild til frekari umræðu þegar álit þingflokkanna og tillögur í þessum efnum ligg ja fyrir. Nú má vel vera að þar sem í þingflokkunum yfirleitt er vitað um nokkuð skiptar skoðanir í þessum efnum skili þingflokkarnir ekki ákveðnum endanlegum tillögum sínum til nefndarinnar, heldur ýmsum ábendingum. En nefndin mun, þegar þingflokkarnir hafa látið frá sér heyra, bæði um kjördæmaskipunina og önnur efni, vinna úr þeim tillögum og gögnum áfram og skila sínum tillögum.

Auk kjördæmaskipunar vinnur nefndin — og hefur unnið að sjálfsögðu — að athugun fjölmargra atriða annarra. Það var á 1. eða 2. fundi nefndarinnar sem lagður var fram verkefnalisti með, að ég ætla, 27 atriðum sem menn töldu að þyrftu að koma til umræðu og athugunar í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Um þorra þeirra atriða er fjallað í annarri skýrslu nefndarinnar sem þingflokkunum var einnig send.

Varðandi síðari spurningu hv. þm. er það ætlun nefndarinnar, að tillögur hennar um breytingar á kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulagi liggi fyrir með það góðum fyrirvara að unnt verði að afgreiða þær fyrir lok kjörtímabilsins. Að því er snertir sjálfan mig mun ég sem formaður nefndarinnar vinna að því, að svo megi verða.