09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

346. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Fyrirspyrjandi (Jóhann Einvarðsson):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka svör hæstv. ráðh. við spurningum mínum, en ég árétta það, sem ég sagði áðan, að það liggja engar tillögur fyrir. Það er skoðun mín að nefndin eigi að leggja fram ákveðnar tillögur til þingflokkanna, en ekki raunverulega kasta þessum spurningum öllum eða tillögugerð til þingflokksstjórnanna eða þingflokkanna sjálfra. En ef við þingflokkana er að sakast skora ég á formenn þeirra að hraða störfum sínum þannig að störf þingflokkanna verði ekki til að tefja þetta mál, sem er mjög aðkallandi, og tefja þannig störf Alþingis í að ljúka umræðum og tillögugerð í þessu máli.

Það má að sjálfsögðu nefna ýmis atriði sem leggja beri áherslu á í þessu máli, eins og ráðh. minntist sjálfur á áðan, t.d. jöfnun atkvæða milli flokka, jöfnun atkvæðavægis milli kjördæma, möguleika kjósenda til að hafa meiri áhrif á val frambjóðenda og þm. og margt fleira. En ég skal ekki hafa langt mál um þetta.

Ég ítreka þakkir mínar til ráðh. fyrir svör hans og skora á þingflokkana og stjórnarskrárnefndina að ljúka störfum hið allra fyrsta, svo að það komi ekki til að það verði að taka þetta mál til skyndiafgreiðslu á örfáum dögum í lok kjörtímabilsins eða fyrir næstu kosningar.