09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

346. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki efni til að hefja hér almennar umr. um stjórnarskrármálið, enda ekki til þess ætlast af fyrirspyrjanda hálfu. Hæstv. forsrh. greindi hér frá þeim meginatriðum, sem stjórnarskrárnefndin hefur haft að leiðarljósi í störfum sinum, og jafnframt greindi hann frá því, sem öllum er auðvitað kunnugt, að stjórnarskrárnefnd skilaði skýrslu til þingflokkanna í ágústmánuði s.l. þar sem fjallað er um ýmsa kosti í sambandi við breytingar á stjórnarskrá og kjördæmaskipan. En síðan segir hæstv. forsrh. að nefndin muni taka málið til meðferðar að nýju þegar þingflokkarnir hafi skilað áliti til nefndarinnar. Það gefur mér tilefni til þess að spyrja hvort stjórnarskrárnefnd hafi tekið sér frí frá störfum á meðan hún bíður eftir þessum álitsgerðum frá þingflokkunum. Ef ekki, þá langar mig til þess að vita hve margir fundir hafi verið haldnir síðan skýrslan var gefin út í ágústmánuði og hvort nefndin sé þá á launum, öll eða hluti hennar, eða hvort starfsmaður nefndarinnar sé á launum áfram eða ekki.

Ég vil svo benda sérstaklega á það, að hér er talað um að menn geri sér vonir um að nefndinni geti borist tillögur þingflokkanna þannig að nægilegur tími gefist fyrir lok kjörtímabils að leggja fram tillögur. Ég minni á þál. sem stjórnarskrárnefnd starfar eftir, en þar segir svo:

„Skal hin nýja nefnd skila innan tveggja ára álitsgerð og tillögum um endurskoðun stjórnarskrárinnar og taka sérstaklega til meðferðar kjördæmaskipun, kosningaákvæði stjórnskipunarlaga, skipulag og starfshætti Alþin is og kosningalög.“

Ég les út úr þessu að það hafi verið reiknað með beinum tillögum frá nefndinni innan tveggja ára. En svo virðist ekki lengur vera ætlað.