09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

356. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar er í tveimur tíðum. Fyrri liðurinn er svo hljóðandi: „Hefur viðskrh. látið hefja endurskoðun á lögum nr. 53/1980, um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar?“

Í nál. frá fjh.- og viðskn. Ed., þskj. 619, á síðasta Alþingi segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: „... er n. sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt, enda verði unnið að endurskoðun laganna með sérstöku tilliti til efnisþátta sem koma fram á þskj. 112 og 115.“ — Þar sem lögin komu ekki til framkvæmda fyrr en í júnímánuði s.l. tel ég æskilegt að fá meiri reynslu á framkvæmdina áður en endurskoðun fer fram. Ég mun beita mér fyrir að nefnd til endurskoðunar laganna verði skipuð fyrir lok vorþingsins 1981.

2. liður fsp. er á þessa leið: „Ef svo er, hvenær má vænta þess, að lagt verði fram á Alþ. frv., sem byggir á endurskoðun þessari?“

Með tilliti til svars við 1. lið gæti það orðið á haustþingi 1981 ef ástæða þætti til.

Í nál. frá fjh.- og viðskn. Nd., þskj. 558, á síðasta Alþingi segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndin er sammála um að óska eftir að Alþingi verði gerð grein fyrir framkvæmd laganna fyrir þinglok 1981.“ — Hef ég hugsað mér að gefa Alþingi slíka skýrslu fyrir lok vorþingsins 1981.