09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

356. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svar hans. En ég verð að láta þess getið, að mér kom það mjög á óvart.

Það var ekki gert ráð fyrir, þegar talað var um þessi mál í fjh.- og viðskn. Ed. eða í umr., a.m.k. í hv. Ed., að það ætti að bíða eftir einhverri skýrslu um framkvæmd laganna. Það var gert ráð fyrir að fljótlega yrði hafist handa um endurskoðun laganna, en það þyrfti ekki að bíða eftir neinni reynslu af þessum lögum. Menn samþykktu og mæltu með samþykkt frv. á þeirri forsendu, að hafist yrði strax handa um endurskoðun á því þegar að lögum yrði. Það var talið þess eðlis, að rétt væri að ákveða fyrir fram að endurskoða það, og þá var það óháð því, hvaða reynsla kynni að verða af þessu og hvaða skýrsla yrði gefin um þetta áður en þingi lyki árið 1981. Það var gengið út frá því og það var forsenda fyrir samþykkt frv., að þegar í stað eða fljótlega yrði hafin endurskoðun á lögunum. Frsm. fjh.- og viðskn. Ed. tók beinlínis fram að það væri vilji n., að fljótlega yrði hafist handa, ekki að það yrði beðið eftir einhverri skýrslu um þetta mál þar til þingi yrði lokið árið 1981. Þetta er alveg nýtt viðhorf sem fram kemur í þessum efnum, og ég vil leyfa mér að mótmæla þessari skoðun.

Hæstv. viðskrh. gaf ekki tilefni til þess að ætla, þegar hann ræddi þessi mál í umr. um frv., að það ætti að viðhafa þessi vinnubrögð. Þvert á móti, hann talaði eins og við hinir, sem lögðum áherslu á að strax eða fljótlega yrði hafin endurskoðun á þessu máli. Og það er heldur engin tilviljun að það var vitnað í frv. sem ég ásamt viðskrh. og tveim öðrum hv. þm. flutti um þetta efni. Það er sumt nokkuð dularfullt í þessu máli. Hæstv. viðskrh. Tómas Árnason er, áður en hann verður viðskrh., meðflm. að þessu góða frv. sem hann telur nauðsynlegt að miða endurskoðunina við. Hvernig má það nú vera að maður, sem kemst til æðstu metorða eftir að þetta góða frv. er borið fram, — æðstu metorða í þeim málaflokki sem það varðar, skuli ekki gerast sporgöngumaður fyrir því að fá þetta góða mál afgreitt, heldur fer hann þær krókaleiðir að bera fram afleitt frv., að hans eigin mati og allra sem þar komu nálægt, en lofa því, að það verði endurskoðað og það verði bætt og þá tekið tillit til hans góða frv. sem hann skeytti ekki um að fá samþ.? Gott væri að fá skýringar á þessu. Þá skýrðist kannske eitthvað frekar þessi einkennilega afstaða hæstv. ráðherra.