09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

356. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Mér þykir gott að heyra það sem hæstv. ráðh. sagði, að haldið verði áfram að greiða niður olíu til upphitunar húsa og að allri þeirri upphæð, sem nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrv., verði varið í því skyni. En ég vil láta það koma hér fram, að ég efast stórlega um, og er þá ekki mikið sagt, að sú upphæð nægi til þess. Ég tel að hún nægi alls ekki til þess, að olían verði greidd hlutfallslega jafnmikið niður og á þessu ári, vegna hinnar miklu hækkunar sem hefur orðið á olíuverði.

Hæstv. ráðh. sagði að það stæði ekki í nál., sem hér hefur komið til umr., að það ætti að endurskoða lögin strax. Þetta er rétt. En frsm. n. tók fram, eins og ég hef áður greint, að það ætti að gera fljótlega. Það þýðir að það ætti að vera byrjað á því verki nú.

Annars kvaddi ég mér hljóðs til að bera sakir af hæstv. viðskrh. Það var ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs. Hann sagði að heimurinn líti öðruvísi út frá tröppum Landsbankans en hér í Alþingi. Hvað þýðir þetta? Hæstv. ráðh. er raunverulega að segja að hann hafi ekki verið ábyrgur gerða sinna þegar hann bar fram umrætt frv. ásamt mér og fleiri hér á síðasta þingi, það hafi verið óábyrgt mál, en þegar hann kom í stjórnarráðið hafi hann séð þetta. Ég mótmæli þessu. Ég tel að hæstv. ráðh. hafi verið með fullri rænu þegar hann skrifaði undir það frv. sem hann var meðflm. að. En mér finnst hins vegar ástæða til þess, að það komi fram hér, að ég efast miklu frekar um allt hans látæði eftir að hann kom í stjórnarráðið.