09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

361. mál, verslun og innflutningur á kartöflum

Fyrirspyrjandi (Egill Jónsson):

Herra forseti. Á milli þess árs, sem nú er senn að líða, og næstliðins árs hafa verið skarpari veðrabrigði en almennt gerist í veðurfari á Íslandi. Fáar greinar í íslenskum landbúnaði eru viðkvæmari fyrir veðráttu en garðrækt og þá sérstaklega kartöflurækt, sem hér er spurst fyrir um, enda var mismunur á uppskeru garðávaxta á milli þessara tveggja ára meiri en dæmi eru um í annan tíma. Árið 1979 var þannig ár uppskerubrests, árið 1980 var hins vegar árgæska í garðrækt. Það var af þessari ástæðu sem bændurnir í þessu landi stóðu agndofa um mánaðamótin júlí og ágúst, þegar uppskera kartaflna var mánuði fyrr en almennt gengur og þeir höfðu tilkynnt um það með nægum fyrirvara, að þeir væru þess albúnir að sjá um að fullnægja markaðsþörfinni hér innanlands, að innlendi markaðurinn var fullur af erlendri uppskeru.

Það er óhjákvæmilegt að það liggi alveg skýrt fyrir, hvað mikið magn af erlendum kartöflum var flutt inn eftir að bændurnir í þessu landi voru þess albúnir að sjá um kartöflumarkaðinn. Þar sem hér var um algera sérstöðu að ræða í sambandi við verslun með íslenskar landbúnaðarvörur, er erlend framleiðsla var látin ryðja þeirri íslensku út af markaðnum, verður að fást hér staðfest hvor: þetta er fyrir atbeina stjórnvalda eða réttara sagt, að hve miklu leyti þetta er fyrir atbeina stjórnvalda. Það er með þetta í huga sem menn spyrja nú um hvaða afleiðingar þetta kunni að hafa í för með sér, spyrja um hvað uppskeran var mikil á s.l. ári og hverjar horfur eru á að hún nýtist fyrir bændurna í þessu landi. Þá er sérstaklega vísað til þess, sem að framan er lýst, hvaða áhrif muni hafa á afkomu kartöfluframleiðenda þessi nýja landbúnaðarstefna að flytja inn kartöflur þegar nægilegt er til af þeirri vöru í landinu.

Þá er líka alveg nauðsynlegt að það liggi fyrir, hvað menn hyggist gera til að koma kartöfluframleiðslunni í verðmæti. Það er í beinu samhengi við þetta að fá líka svar við þeirri spurningu, hvernig sé háttað afurðalánum út á kartöfluframleiðslu s.l. hausts. Allt fram að þessum tíma hefur þar verið um sáralitla fyrirgreiðslu að ræða. Ef hún er með öðrum hætti en varðandi aðra landbúnaðarframleiðslu fást væntanlega svör við því, hverjar séu ástæður fyrir slíkri ákvörðun.