09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

361. mál, verslun og innflutningur á kartöflum

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi sagði að ég hefði sent bændunum í landinu kveðju þar sem ég hefði tíundað það, að þeir hefðu óskað eftir háu verði, en ekki boðið fram nægilegt magn af kartöflum á réttum tíma. Hann vitnaði til þess, að hann hefði setið fund fyrir fáum dögum þar sem samþykkt hefði verið gerð um þessi mál. Það hefði m.a. verið skýrt í einni tillögunni, sem samþ. var, að nægilegt magn hefði verið á boðstólum. Ég verð að taka það fram, að ekki er nægilegt að gera slíkar samþykktir að hausti til því að ákvörðun um innflutning var tekin í júlímánuði, eins og fram kom í svari mínu. Og í mínu svari kom það fram, að dráttur á skipaferðum olli því, að innflutningur á því tiltölulega litla magni, sem flutt var inn í ágústmánuði, varð seinna á ferðinni en æskilegt hefði verið.

Ég vil aðeins segja það út af þessu efni, að það er snemma sumars ákaflega erfitt að sjá það fyrir, bæði fyrir bændurna í landinu og fyrir þá aðila sem eiga að stjórna þessum málum, fyrst og fremst Grænmetisverslun landbúnaðarins og Framleiðsluráð og landbrn., hvað kartöfluuppskeran muni verða mikil og hvað hún muni verða snemma á ferðinni. Þess vegna verður að reyna að mæta þessum málum á þann veg, að ekki verði skortur á kartöflum í landinu. Til þess að hafa þá fyrirhyggju voru pantaðar kartöflur erlendis frá í júlímánuði. Þá hafði engin yfirlýsing borist rn. Ég endurtek það: Hvað sem líður samþykktum kartöflubænda í nóv. hafði landbrn. engin yfirlýsing borist um það í júlímánuði að ekki væri þörf á innfluttum kartöflum í byrjun ágúst. Það má vel vera að slíkar ályktanir eða viðtöl hafi farið fram við einhverjar aðrar stofnanir, sem um þessi mál fjalla, en það hefur ekki borist mér til eyrna.

Ég vil segja það út af fsp. hv. þm. um niðurgreiðslu á innfluttum kartöflum, að slíkt er ekki nýlunda. Hins vegar var að þessu sinni ákveðið, og það er nýtt, að greiða einnig niður innlendar kartöflur sem voru á sumarverði, og það var gert m.a. til að greiða fyrir sölu þeirra á innlendum markaði.