09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

361. mál, verslun og innflutningur á kartöflum

Fyrirspyrjandi (Egill Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði.

Hið fyrra er út af því sem ráðh. sagði um að það væri erfitt að meta hvernig uppskera yrði að haustinu á kartöflum. Hann er nú þekktur fyrir að vera einn flinkasti sauðfjárbóndi á landinu. Ég mundi ekki gefa honum háa einkunn fyrir þekkingu á garðrækt. Ætli það sé ekki einhver besta vísbendingin í þessum efnum hvernig vorið kom? Jörð var klakalaus strax í maímánuði. Reyndar lá þá alltaf fyrir að uppskera yrði góð.

Hitt atriðið, sem ég vildi mega þakka ráðh. fyrir, var það sem hann sagði, og það virtist helst vera að þar hefði gætt mikils velvilja frá hans hendi, um að það skyldu þó vera greiddar niður innlendar kartöflur með sömu krónutölu og þær erlendu. Það er þó með þeim hætti að ekki er sérstaklega þakkarvert.