09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

365. mál, kostnaður við myntbreytinguna

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hefur spurt í þremur liðum: „Hver er áætlaður heildarkostnaður við framkvæmd myntbreytingarinnar 1. jan. 1981: a) kostnaður við myntsláttuna; b) kostnaður opinberra aðila, annar en myntsláttan; c) kostnaður einkaaðila?“

Þar sem Seðlabankinn á lögum samkv. að framkvæma gjaldmiðilsbreytinguna hef ég snúið mér til hans vegna þessarar fsp. hv. þm. og svör mín byggjast á upplýsingum Seðlabankans.

Heildarkostnaður Seðlabankans við gjaldmiðilsskiptin og verðgildisbreytinguna 1. jan. n.k. er áætlaður um 1041 millj. kr. og skiptist þannig:

1. Nýir seðlar og mynt. Undirbúningsvinna, hönnun o.fl. 26 millj. kr. Framleiðslukostnaður, þar með talinn gröftur og gerð prent- og sláttumóta, birgðir áætlaðar til tveggja ára, 793 millj, kr. Dreifing nýja gjaldmiðilsins, eyðing hins gamla o.fl. 63 millj. kr.

2. Kynning og auglýsingar. Útgáfa og dreifing bæklinga 39 millj. kr. Auglýsingar í hinum ýmsu fjölmiðlum 75 millj. kr. Önnur kynning 15 millj.

3. Annar kostnaður áætlaður 30 millj. kr. — Samtals 1041 millj. kr.

Til frádráttar þessari fjárhæð kemur sala á gamalli reynt til bræðslu, sem áætluð er um 200 millj. kr., auk afskrifta á seðlum og mynt sem ekki kemur til innlausnar, en þar getur orðið um verulegar fjárhæðir að ræða.

Enda þótt verðgildisbreyting hefði ekki komið til var óumflýjanlegt að endurskoða gjaldmiðilinn frá grunni með útgáfu nýrra seðla og myntar, sem fullyrða má að hefði kostað svipað og sá kostnaður sem greindur er undir 1. lið hér að framan, þ.e. um kostnað við gerð nýrra seðla og myntar. Má fullyrða að gjaldmiðilsskipti voru orðin mjög aðkallandi og að sá kostnaður sem þeim fylgir, muni skila sér fljótt aftur á margan hátt.

Ljóst er að gjaldmiðilsbreytingin mun hafa í för með sér aukið álag og sérstakan tilkostnað hjá fyrirtækjum og stofnunum. Er þar helst að telja áhrif hennar á bókhald og reikningsskil, verðmerkingar, skýrslur, eyðublöð og vélbúnað, þar með talin breyting sjálfsala, stöðumæta og margt fleira. Hins vegar hefur hin öra verðbólga orðið þess valdandi, að skapast hafa aðstæður sem beinlínis auðvelda aðlögun þessara aðila að gjaldmiðilsbreytingunni og þar með draga úr sérstökum útgjöldum hennar vegna. Má í því sambandi nefna að sökum tíðra verðbreytinga hefur víðast verið tekinn upp vélbúnaður til verðmerkinga auk sívaxandi véla- og tölvubókhalds. En veigamesti þátturinn er myntbreytingar undanfarin ár, niðurfelling auranna, en með hundraðföldun krónunnar felst sami fjöldi tölustafa í hverri upphæð. Engin nákvæm kostnaðaráætlun hefur verið gerð um þennan þátt breytingarinnar, enda yrði að gera ítarlega könnun hjá hinum einstöku aðilum til þess að slík áætlun væri marktæk.

Að endingu er rétt að minna á að þegar á árinu 1977 var hafinn undirbúningur á vegum Seðlabankans að útgáfu nýrra seðla og myntar. Hafði hin öra verðrýrnun krónunnar þá þegar riðlað svo seðla- og myntkerfinu að gagnger uppstokkun á því var óhjákvæmileg. Þar sem ítrekað höfðu komið fram raddir um að taka bæri upp nýja og stærri mynteiningu benti Seðlabankinn þá á að hagkvæmt væri að gera það samtímis fyrirhuguðum breytingum á gjaldmiðlinum og yrði beinn kostnaður vegna verðgildisbreytingar tiltölulega lítill umfram það sem hvort sem er hefði fljótlega orðið að leggja í, eins og áður segir.

Ég vona að þetta svar svari fsp. hv. þm.