09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

366. mál, reikningsmeðferð aura eftir myntbreytinguna

Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svarið. En það kom spánskt fyrir þegar hann las hér upp svarið og þar kom fram, að það væri ekki laust sæti fyrir kommu. Spurningin er þá, hvort svo er komið í ríkiskerfinu að þar sé allt orðið fullt af slíkum aðilum og þess vegna hafi ekki verið möguleiki á að gera þessa myntbreytingu öðruvísi en að koma hér fram með frv. til l. og gera breytingu á ríkisbókhaldinu til þess að hægt sé að koma öllu fyrir.

Mér var ljóst alla tíð þegar rætt var um myntbreytinguna hverjir erfiðleikar væru hér á ferð, og þess vegna varpaði ég fram þessari fsp. til ráðh. Hann hefur gefið þau svör sem eru fullnægjandi undir vissum kringumstæðum að mínum dómi, en staðfesta að tæknilega hefur ekki verið þannig að þessum málum staðið í upphafi að það hafi þess vegna verið ástæða til hins mikla hraða sem hafður var á í þessum efnum. Við höfum því orðið vitni að því þessa dagana, að það eru engar ráðstafanir ráðgerðar í sambandi við myntbreytinguna og ekki verið einu sinni hægt að gefa þá yfirlýsingu, að Alþ. fengi vitneskju um þær áður en myntbreytingin ætti sér stað.

Það er alveg óvíst hver kostnaðurinn verður af þessari umfangsmiklu gjaldmiðilsbreytingu. Það er að vísu ljóst hvað Seðlabankinn kemur til með að þurfa að leggja út og að það eru víða mjög miklir tæknilegir erfiðleikar sem ekki hafa verið skoðaðir ofan í kjölinn. Nú á seinustu dögunum áður en myntbreytingin á sér stað upplýsist það, eins og ráðh. sagði, að ekki var pláss fyrir kommu í kerfinu og þess vegna verður að gera þá breytingu sem frv., sem hann gerði grein fyrir áðan, gerir ráð fyrir. Allt staðfestir þetta það sem við sjálfstæðismenn höfum sagt í sambandi við myntbreytinguna, að að henni hefur ekki verið staðið með þeim hætti sem allir eru í raun og veru sammála um að nauðsynlegt hefði verið.