09.12.1980
Sameinað þing: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

367. mál, Vestfjarðalæknishérað

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. sem er svo hljóðandi:

„Hvað dvelur ráðh. í að skipa héraðslækni fyrir Vestfjarðalæknishérað?“

Samkv. lögum frá Alþingi 6. maí 1978, með leyfi forseta, er gert ráð fyrir þeirri skipan mála sem ég vil nú lesa hér upp:

„Ráðherra skipar einn af starfandi heilsugæslulæknum héraðsins sem héraðslækni til fjögurra ára í senn.“ Til þess að mönnum sé ljóst, hvað fer úrskeiðis ef þetta er ekki gert, leyfi ég mér að lesa upp 7. gr.:

„Í hverju héraði skal starfa heilbrigðisráð. Heilbrigðismálaráð skal þannig skipað að héraðslæknir er formaður ráðsins, en sveitarstjórnir héraðsins kjósa aðra ráðsmenn að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum. Skulu þeir kosnir úr hópi fulltrúa í stjórnum heilsugæslustöðva eða sjúkrahúsa, og skal hver slík stofnun jafnan eiga einn fulltrúa í heilbrigðismálaráði héraðsins.“

Svo kemur hér neðar á bls.: „Gerð tillagna og áætlana um framgang og forgang verkefna á sviði heilbrigðismála í héraði.“ — Þetta eru verkefni. — „Skipulagning á starfi heilbrigðisstofnana í héraði og rekstri í þeim mæli sem sveitarstjórnir verða ásáttar um.“ — Og svo í 8. gr.: „Héraðslæknir er sérstakur ráðunautur heilbrigðisstjórnar um hvað eina er við kemur heilbrigðismálum héraðsins.“

Þar sem ekki hefur verið fylgt ákvæðum laga, nema það hafi verið gert eftir að þessi fsp. kom fram, liggur ljóst fyrir að sú forusta, sem hugsuð var heima í héraði til aðhalds fyrir ríkisvaldið, er ekki til staðar. Hún er alfarið óvirk eins og að þessum málum hefur verið staðið. Ég tel að það skýri að nokkru þá staðreynd, að byggingarframkvæmdum við heilsugæslustöð á Ísafirði og sjúkrahúsbyggingu þar miðar lítt áfram. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef um kostnað, má gera ráð fyrir að það sé 9 ára framkvæmdatímabil eftir með sama hraða. Hér er að mínu viti um mjög alvarlegt mál að ræða. Ég vænti þess, að ráðh. geri annað tveggja að taka á sig rögg og skipa héraðslækni ellegar að hann leggi til breytingu á þessum lögum þar sem forræði heima í héraði er þá alfarið falið sveitarstjórnarmönnum. En ég vil ekki, áður en ég heyri svör hans, rekja þessi mál frekar.