09.12.1980
Efri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

160. mál, minnsta mynteining við álagningu opinberra gjalda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er meginefni þess frv., sem ég mæli hér fyrir, að allir skattar og opinber gjöld skuli lögð á í heilum krónum, þannig að lægri fjárhæð en 50 aurar skuli færa niður í næstu heila krónu, en 50 aura eða hærri fjárhæð skuli hækka upp í næstu heila krónu.

Fyrir nokkrum árum tók ríkisbókhaldið í notkun tölvukerfi vegna bókhaldsúrvinnslu ríkisins. Í kerfi þessu er ekki gert ráð fyrir aurum í fjárhæðum. Við gjaldmiðilsbreytinguna um næstu áramót hundraðfaldast verðgildi gjaldmiðilseiningar og aurar verða teknir upp að nýju, eins og kunnugt er. Að því er bókhaldskerfi ríkisins varðar felur þessi breyting í sér fjölgun sæta um eitt í mjög mörgum tilvikum við bókun fjárhæða, þ.e. komman fyrir framan aura kemur inn í fjárhæðina.

Í fljótu bragði gæti virst sem hér væri um auðleyst vandamál að ræða. En staðreyndin er sú, að með tilkomu aura og þar með tilkomu kommunnar inn í fjárhæðina verður óhjákvæmilegt að endurskipuleggja allt tölvubókhaldskerfi ríkisins, ef ekki er gripið til sérstakra ráðstafana. Auk hinnar gífurlegu vinnu, sem af slíkri endurskipulagningu leiðir, fylgir henni óhemjukostnaður, sem m.a. felst í breytingum á eyðublöðum og forritum fyrir tölvuvinnslu og uppsetningu útskrifta úr tölvu.

Þetta frv. er því flutt í sparnaðarskyni og til einföldunar við álagningu og innheimtu opinberra gjalda og skýrir sig að öðru leyti sjálft.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um mál þetta, en vísa til grg. og athugasemda með frv. og legg til að því verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. fjh.- og viðskn.