09.12.1980
Efri deild: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

159. mál, vegalög

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég þóttist heyra það á ræðu hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, að ríkisstj. hefði þegar gefið fyrir sálu sinni og væri þar af leiðandi hólpin. (Gripið fram í.) Þetta fer saman, sálarlaus ríkisstj. er vonlaus.

Varðandi spurningu hv. þm. get ég ekki svarað þessu. Ég geri ráð fyrir að það hafi ekki verið gerð nákvæm talning á þessum orlofsheimilum, heldur hafi verið giskað á að fjöldinn væri einhvers staðar á þessu bili. En ég ætla að vona að þegar menn reyna að gera sér grein fyrir því, hvaða afleiðingar það mundi hafa ef þetta frv. yrði að lögum, þá yrði breytingin ekki meiri en þessi 31 millj. sem þarna er reiknað með að tekjumissir sýsluvegasjóðanna verði, þannig að þau séu ekki fleiri en 500 í mesta lagi.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að þetta er ákaflega ónákvæm tala, 250–500, og bendir til þess, að ekki hafi farið fram talning. Það er alveg augljóst mál. En því get ég ekki svarað. Ég veit ekki hverju menn eiga að lofa. Ætli ég verði ekki að reyna að lofa því fyrir hönd hæstv. samgrh., að hann láti telja húsin og geri hv. þd. grein fyrir því þegar þeirri talningu er lokið.