09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

35. mál, álagning opinberra gjalda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um álagningu opinberra gjalda á árinu 1980 og innheimtu þeirra á síðari hluta þess árs.

Tildrög þessa frv. eru þau, að 24. júlí s.l. voru sett brbl. um þetta efni vegna ýmissa framkvæmdaatriða sem vörðuðu álagningu skatta á s.l. sumri. Eins og kunnugt er urðu skattalög nokkuð síðbúin á þessu ári, voru ekki afgreidd frá Alþingi fyrr en í aprílmánuði s.l. Af þeim ástæðum og með hliðsjón af því, að verið var að gjörbreyta skattakerfinu, urðu skattstofur seinar fyrir að leggja á skatta. Ýmis vandkvæði hlutust af því og varð því að gefa út brbl. sem veittu heimild til að álagning mætti fara fram með öðrum formlegum hætti en gert er ráð fyrir í lögunum, þ.e. að frestað væri álagningu á börn og lögaðila. Einnig var óhjákvæmilegt að taka upp sérstaka fyrirframgreiðslu skatta í ágústmánuði í þeim skattaumdæmum þar sem álagningu var ekki lokið fyrir 1. ágúst. Allt heyrir þetta nú liðinni tíð til. Hér er um að ræða mál sem ekki hefur áhrif fram í tímann, heldur horfir einungis til að gera upp liðinn tíma. Málið hefur verið afgreitt af hv. Ed. og kemur nú til Nd. Vil ég leggja til, herra forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.