09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vona að hæstv. forsrh. drukkni ekki í fyrirspurnaflóðinu, enda virðist vera eins og að skvetta vatni á gæs að spyrja hann þessara spurninga allra, því að hann reyndi að svara einni, en gat ekki. Enn stendur ósvarað hvernig á því standi að nefnd, sem átti að skipa 30. mars og skila áliti fyrir 1. júlí, var skipuð 9. september og hefur enn ekki skilað áliti. Allir bíða í óvissu, enginn er nær um stefnu ríkisstj. og málið stendur þannig í dag að við vitum ekkert meir eftir þessar umræður en áður.