09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar menn kveðja sér hljóðs utan dagskrár og hafa áður samband við þann ráðh. sem á að spyrja, þá er æskilegt að menn greini glöggt frá því, um hvað eigi að spyrja. Þegar hv. fyrirspyrjandi ræddi við mig í morgun sagðist hann mundi spyrja um störf þeirrar nefndar sem við höfum hér rætt um, en ekki um einhverjar dagsetningar, hvenær málið hefði fyrst komið til umræðu í ríkisstj. og verið fjallað um það þar. Þær dagsetningar hefði ég getað athugað nánar hefði hann minnst á að hann ætlaði að spyrja um slíkt. En það er auðvitað ekki neitt aðalatriði málsins. Aðalatriðið er það, að þessi nefnd er að störfum með þessu víðtæka verkefni og við væntum góðs af starfi hennar.

Varðandi þær umr., sem hér hafa annars farið fram, virðast þeir hv. fyrirspyrjendur, hv. 10. og 1. þm. Reykv., vilja taka nú upp utan dagskrár 2. umr. fjárlaga, því að margt af því, sem þeir hafa hér talað, verður auðvitað til umr. þegar fjárlögin koma úr nefnd til 2. umr.

En varðandi það atriði, sem var meginefni í ræðu hv. fyrirspyrjanda, aðlögunargjaldið, þá er kannske ekki að undra þó að hafi þurft nokkurn tíma til að skoða það mál frá öllum hliðum. Það var lögð áhersla á af hálfu samtaka iðnaðarins á sínum tíma að þetta aðlögunargjald yrði á lagt. Ákveðið var að það skyldi standa í 18 mánuði, frá miðju síðasta ári til loka þessa árs. Frá Félagi ísl. iðnrekenda hafa m.a. komið fram ákveðnar óskir um framlengingu þessa gjalds. Að sjálfsögðu þurfti að kanna hvort þætti tiltækilegt að leggja það til við Alþ., og eftir að það mál hafði verið gjörla kannað, m.a. með öflun upplýsinga frá þeim samtökum, sem við erum í og hér eiga hlut að máli, og einnig frá þeim, sem tóku þátt í þessum viðræðum, varð niðurstaðan sú, eins og hæstv. viðskrh. hefur skýrt frá, að ekki þætti fært að fara fram á framlengingu á þessu gjaldi vegna þess, hversu afdráttarlausar yfirlýsingar hefðu verið gefnar af Íslands hálfu í þessu sambandi þegar gjaldið var lögleitt. Niðurstaðan hefur því orðið sú, að þetta gjald verður ekki framlengt. Hins vegar er ætlunin að leita heimildar Alþingis til annarrar fjáröflunar í staðinn til þess að standa undir kostnaði við þau verkefni sem aðlögunargjaldið átti að gera. Þetta verður að sjálfsögðu rætt nánar í sambandi við það frv. og við afgreiðslu fjárlaganna.

Hv. 1. þm. Reykv. varð undrandi á því, að nú, hálfri annarri viku, eða um það bil, áður en Alþ. yrði frestað fyrir jól, kæmu ýmis frv. á borð þm. Ég held að þau séu teljandi, þau þing, ef þau eru nokkur á síðari áratugum, sem það hefur ekki gerst, að um svipað leyti og fjárlög eru til afgreiðslu til 2. og 3. umr. eru lögð fram ýmis frv., t.d. um framlengingu gjalda sem standa í beinu sambandi við fjárlögin. Þessi frv. eru yfirleitt afgreidd fyrir jól eins og fjárlögin. Þess eru hins vegar dæmi, að sum slík tekjuöflunarfrv., sem fjárlögin þó byggjast á, hafa ekki verið afgreidd fyrr en eftir áramót. Þess eru dæmi frá fyrri tíð. Mér finnst því að hv. 1. þm. Reykv. þurfi ekki að undrast það. Maður gæti haldið eftir ræðu hans hér, að hann hefði ekki setið fyrr á þingi, hvað þá setið í ríkisstjórn. Hins vegar er skylt að þakka það, að hann lýsti yfir nokkrum klökkva og í rauninni samúð yfir því, að ríkisstj. ætti í erfiðleikum með að leysa vandamál þau sem steðja að þjóðinni. Það er ánægjulegt fyrir okkur, að í stað hugleiðinga um að flytja vantraust á ríkisstjórnina skuli hann lýsa yfir samúð og klökkva yfir því að hún eigi í erfiðleikum.