09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það hafa farið fram umr. hér í dag sem varða fjármál ríkisins, varða afgreiðslu fjárlaga. Bæði er það, að ríkisstj. er með til umr. frv. um skattlagningu, og svo hitt, að á því hefur verið vakin athygli utan dagskrár hvernig unnið er að fjárlagagerð. Þar hefur ekki frekar en í öðru fengist vitneskja um það, með hvaða hætti ríkisstj. hyggst koma saman því fjárlagafrv. sem fyrir Alþingi liggur nú. Allt þetta sýnir í raun og veru hvernig að þessum málum er staðið og hefur verið staðið.

Fyrr á þessum fundi var rætt frv. um afnám laga um nýbyggingargjald. Nú er til umr. frv. til l. um framlengingu sérstaks skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Hv. 10. þm. Reykv. benti á hver hefði verið forsendan fyrir þessari skattlagningu á sínum tíma, þ.e. 1978, þegar ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar hafði tekið við. Í ræðu þáv. hæstv. fjmrh. kom fram að nauðsynlegt var talið til þess að ná árangri í glímunni við verðbólguna og tryggja jafnframt viðunandi lífskjör almennings að draga úr þeirri geysilegu fjárfestingu og spennu sem hefði verið í landinu. Þegar nú er verið að ræða frv. til l. um sérstakan skatta verslunar- og skrifstofuhúsnæði er búið að ræða um frv. til l. um afnám nýbyggingargjalds. Ef þetta er skoðað sést best það stefnuleysi sem er hjá núv. hæstv. ríkisstj. Hafi hún hugsað sér að nota skattlagningu til að framkvæma þá stefnu sem fram kom í ræðu ráðh. í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, þá hefði fyrst af öllu átt að framlengja frv. til l. um nýbyggingargjald og hafa þannig áhrif á það, að um nýbyggingar yrði ekki að ræða nema þá í mjög takmörkuðum mæli. Ef ríkisstj. vildi hins vegar koma til móts við atvinnuvegina í landinu, þá hefði átt að fella niður frv. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. En það er alls ekki nein stefna, það er algert stefnuleysi hjá hæstv. ríkisstj. hér eins og annars staðar. Það, sem ræður að sjálfsögðu að hennar dómi, er hvor skatturinn gefur meiri tekjur í ríkissjóð. Það er skatturinn á húsnæði því sem nú er notað við atvinnurekstur.

Við sjálfstæðismenn höfum lýst yfir því, að við munum fella niður þessa skatta þegar við fáum tækifæri til. Því miður hefur það tækifæri enn ekki komið. Það eru hins vegar í ríkisstj. sjálfstæðismenn sem gengu fyrir kjósendur á sínum tíma og lýstu þessu yfir. Og hv. 10. þm. Reykv. vakti áðan athygli á ummælum ráðherra Framsfl., að þeir væru nú búnir að skipta um skoðun frá því 1978. Meira að segja taldi hæstv. sjútvrh. að þeir hefðu náð fram þeim markmiðum sem höfð voru í huga þegar lögin voru sett, og þessir tveir ráðherrar, sem vitnað var til, lýstu sig hlynnta því að fella niður þessa skatta. En þessir hæstv. ráðherrar úr Sjálfstfl. og Framsfl. ráða hér ekki ferðinni. Það eru ráðherrar úr þriðja flokknum, sem á sæti í ríkisstj., ráðherrar Alþb. Það kemur glöggt fram í sambandi við það frv. sem um er fjallað. Það vekur vissulega athygli, þegar komið er fram að jólum og það eru seinustu dagar þings, að lagt er fram frv. um framtengingu á sköttum. Eftir 2–3 daga fer fram 2. umr. fjárlagafrv. og ætlað er að þingið afgreiði það á þeim sömu fölsku forsendum og voru þegar frv. var lagt fram á haustdögum, þ.e. gert ráð fyrir verðlagsþróun frá upphafi árs til loka um 30% og meðalverðlagsþróun frá miðju ári 1980 til miðs árs 1981 um 42%. Þegar Þjóðhagsstofnun hefur látið frá sér upplýsingar um að tölurnar verði ekki 30–40, 40–50 eða 50–60, heldur 65–70%, þá ætlast ríkisstj. til þess, að Alþingi gangi frá fjárlagafrv., sem byggist á forsendum sem ekki eiga aðeins eftir samkv. þessu að tvöfaldast, heldur rúmlega það. Þetta eru atriði sem vert er að skoða þegar þessar umr. fara fram.

Þá er það líka athyglisvert sem hér kom fram áðan hjá hæstv. fjmrh. að þeirri lánsfjáráætlun, sem nú er verið að gera fyrir árið 1981, er ekki ætlað að sjá dagsins ljós fyrr en komið er fram yfir áramót, og eru þau vinnubrögð nú endurtekin frá því fyrr á þessu ári. Ég minnist þess, að þegar lánsfjáráætlanir fyrir árin 1976 og 1977 voru lagðar fram á þingi — þá sem nýsmíði — gagnrýndu stjórnarandstæðingar, m.a. núv. hæstv. fjmrh., hversu seint lánsfjáráætlunin væri lögð fram. Það var reynt að flýta þessu, og lánsfjáráætlun fyrir árið 1978 var lögð fram og var til umfjöllunar þegar 2. umr. fjárlagafrv. fyrir árið 1978 fór fram. En vinstri stjórninni, ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, og þeim flokkum sem að henni stóðu, Alþb. og Alþfl., fannst að koma þyrfti í veg fyrir að það gerðist aftur, að lánsfjáráætlun væri ekki lögð fram þegar fjárlagafrv. væri lagt fram. Þeir töldu þess vegna skynsamlegast og best til að tryggja þetta að lögbinda það. Það var bundið í efnahagslögum, sem enn eru í gildi, að lánsfjár- og framkvæmdaáætlun, sem nú er nefnd svo, skyldi lögð fram með fjárlagafrv. Nú sjá menn efndirnar, enda hefur ekki verið farið eftir þeim lögum — eins og margoft hefur verið bent á hér af hálfu okkar stjórnarandstæðinga — hvorki í þessu né öðru. Þetta sýnir að ekki var ætlunin að setja löggjöf sem gæti styrkt efnahagsstjórn landsins, heldur hefur það sjálfsagt verið hugsunin — eins og við bentum á á sínum tíma — að það væri gert til að friða Alþfl. sem þá átti aðild að ríkisstj. og var með upphlaup af og til eins og Framsfl. hefur verið með í þeirri ríkisstj. sem nú situr.

Þá má enn fremur benda á að hér í umr. er tilkynnt af hæstv. fjmrh. að þm. megi búast við að lagt verði á borð þeirra frv. um nýja skattheimtu. Hv. 1. þm. Reykv. vék að því sérstaklega, að komið væri að afgreiðstu fjárlaga, aðeins 10 dagar þar til þing hverfur heim í jólaleyfi, og enn hafa ekki sést á borðum þm. þau tekjuöflunarfrv. sem gert er ráð fyrir að fjárlagafrv. byggist á. Það er rétt, að oft á tíðum hefur það verið með síðari skipunum að frv. hafa verið flutt um framtengingu gjalda. Þó hefur í grg. fyrir fjárlagafrv. jafnan verið á það bent, að samþykkja þurfi framlengingu til að ná saman endum, og ég minnist þess ekki, að svo seint hafi verið lagt fram frv. — ef því hefur þá á annað borð verið ætlað að komast fram fyrir afgreiðslu fjárl. Vissulega er rétt að það hefur gerst, að tekjuöflunarfrv. hafa verið samþ. eftir að fjárlög hafa verið afgreidd á Alþingi. Þá hafa það verið nánast skattstigafrv., og það hafa verið vinstri stjórnir sem hafa gert það. Það hefur verið gagnrýnt hér á Alþ. og ekki talið til eftirbreytni. Jafnvel hefur verið talið að það jaðri við að teljast brot á stjórnarskránni.

Enn má benda á, þegar þessar umr. fara fram, að það er ætlan núv, hæstv. ríkisstj. að viðhalda öllum þeim sköttum sem lagðir hafa verið á frá því í sept. 1978. Má ætla að á árinu 1981 muni þessir skattar nema 60-70 milljörðum kr. Fjárlagafrv. er með rangri vísitölu með tilliti til tekjubreytinga á milli ára. Þeirri skattvísitölu eða setningu hennar er ætlað að gefa ríkissjóði tekjur, stundartekjur, sem nema yfir 10 milljörðum kr. Á næsta ári fara því vinstri skattarnir að nálgast 85–90 milljarða kr. umfram það sem hefði verið ef skattalög þau, sem giltu árin 1974–1978, hefðu nú verið í gildi.

Ég vil vekja athygli á þessu við 1. umr. þessa frv. Ég tel að með þessu frv. sé enn verið að sliga atvinnulíf þjóðarinnar. Og það sýnir sig, að hér er um að ræða stefnuleysi ríkisstj. Hér er um að ræða fálmkennd vinnubrögð ríkisstj. Hér er um að ræða skattaálögur sem sliga atvinnulífið og gera það að verkum, að ráðstöfunarfé heimilanna er minna nú en það hefur verið um margra ára bil. Sjálfstæðismenn eru andvígir þessu frv. og munu að sjálfsögðu greiða atkv. gegn því.