09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég harma það enn einu sinni, að þetta frv. til l. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði skuli nú vera til endurnýjunar. Ég hef áður sagt hér, þrisvar sinnum áður, að ég líti á þetta frv. sem hluta af eignaupptökustefnu og sú stefna er andvíg lífsskoðunum mínum. Ég mun því nú sem áður beita mér gegn framgangi þessa máls þó að ég geri ekki ráð fyrir að það beri meiri árangur nú en áður.

Hér er um að ræða þeim mun ósanngjarnara mál þar sem þolendum þessa er gert að greiða sérstakan eignarskatt til opinberra aðila af öðru en eignum sínum. Í 3. gr. er tekið fram að greiða skuli þennan umrædda skatt af leigulóðum einnig, þótt leiga hafi að sjálfsögðu þegar verið greidd til viðkomandi opinberra aðila af sömu lóðum. Hér er því um að ræða tvísköttun opinberra aðila af lóðunum. Ég held að atvinnufyrirtæki atmennt — og skiptir þá ekki máli rekstrarform fyrirtækja, hvort þau eru í einkaeign, hlutafélög eða samvinnufélög — þoli þessa skattheimtu ekki miklu lengur. Ásókn þessara fyrirtækja í lánsfé á dýru verði til rekstrar er löngu, löngu úr hófi fram. Ég lýsi því andstöðu minni enn einu sinni við þetta frv.