09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka frekari þátt í þessum umr. en ummæli 1. þm. Vesturl. gáfu tilefni til að standa upp aftur.

Það er miklu alvarlegra mál en fjölmargir gera sér grein fyrir, ef ekki er hægt að leggja niður bráðabirgðaskatta þótt átin líði og endurnýjun á þeim fari fram svo til reglulega — skatta sem aldrei var gert ráð fyrir að festust í því fjármálakerfi sem þjóðfélagið hefur búið sér til, heldur hafa átt að vera til að leysa tímabundin verkefni. Þessi skattur var á sinum tíma lagður á einungis til að auka tekjur ríkissjóðs, en átti ekki að standa undir neinu sérstöku tímabundnu verkefni. Ég verð að segja alveg eins og er, að ég batt vonir við að þessi óhappaskattur yrði ekki endurnýjaður, hvað þá að hann yrði reglulega endurnýjaður.

Ég ætla ekki að deila um það, hvort hægri stjórnir eða vinstri stjórnir hafi verið vitrari við stjórn á þessu blessaða landi okkar. Ég held við höfum aldrei haft neina sérstaka hægri stjórn. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvað hv. 1. þm. Reykn. meinar með því. Ég lít á alla flokkana sem vinstri flokka, sama hvað þeir kalla sig. En ég er hræddur um að það sé kominn tími til þess, að alþm. fari að gera eitthvað af því sem þeir hafa verið að tala um. Menn úr öllum flokkum tala um að það þurfi að lækka þetta og lækka hitt. En síðan ég kom til setu á Alþingi og síðan ég byrjaði að fylgjast með stjórnmálum hef ég aldrei orðið var við annað en að þm. hafi beitt hugviti sínu til að finna nýja og nýja skatta til að mæta síauknum kröfum, m.a. um nýjar framkvæmdir sem þjóðfélagið hefur bókstaflega ekki efni á að standa í. Við erum að fjárfesta langt umfram það sem er eðlilegt á bókstaflega öllum sviðum. Það er staðreynd sem ekki verður frá vikið, hvort sem menn vilja eða vilja ekki, að í framkvæmdum verður að vera ákveðið eigið fé. Það þýðir ekki að reka þjóðfélagið á yfirdrætti. Það þýðir ekki að reka nokkurn skapaðan hlut á yfirdrætti, hvað þá þegar yfirdrátturinn er orðinn 100% af fjármagninu sem til þarf. Ég vil meina að þjóðfélagið sé rekið á þessum yfirdrætti sem ég er að vara við. Ég hef áður sagt úr þessum ræðustól að vísitölubréfin svokölluðu eða verðtryggðu ríkisskuldabréfin eru ekkert annað en yfirdráttarfé sem ríkissjóður hefur til ráðstöfunar á hverjum tíma. Ég get ítrekað það sem ég hef sagt hér áður og það nýlega. Ég tók sem dæmi lán sem var ársgamalt. Það var 30 millj. kr. fyrir ári. Þetta er vísitölulán og eftir eitt ár, þegar afborgun og vaxtagreiðsla hafði farið fram, stóðu eftir 43 millj. Þetta 30 millj. kr. lán varð eftir afborgun og vaxtagreiðslu 43 millj. Þá sjá menn hvert stefnir og í hvers konar þjóðfélagi við störfum, hvers konar þjóðfélag við höfum búið til.

Ég held að það sé kominn tími til þess, að framkvæmdavaldið beiti hugmyndum sínum til að komast hjá þessari síauknu skattheimtu sem hvílir á þjóðfélaginu, og það er alls ekki með það í huga að finna upp nýja skatta þegar ég tala á móti þeirri skattheimtu sem hér er á dagskrá nú. Stefnan verður að vera sú, hún verður fljótt að verða sú, að skilja meira eftir af launatekjum hjá fólkinu í landinu og gera fyrirtækjum kleift að standa undir meiri framkvæmdum en opinberum aðilum, minnka þar af leiðandi framkvæmdir á vegum hins opinbera. Þetta þýðir að sjálfsögðu breytta stjórnarhætti, það sjá allir. Við verðum að stefna að því að minnka þarfir ríkissjóðs. Þörfum ríkissjóðs er fullnægt með síhækkandi álögum, hvort sem það er í tollheimtu eða annarri opinberri skattheimtu. Það getur ekki gengið til lengdar, það sjá allir.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri eða leggja meira til málanna um það dagskrármál sem hér er rætt. En ég held að öllum sé ljóst að þjóðin rís ekki undir því sem þegar er búið að leggja á hana. Og ég vona að það sé kominn tími til þess að við skiljum það, áður en sá snjóbolti, sem við höfum búið til, hleður á sig meira en ég gat um áðan, þegar ég tók dæmi um 30 millj. sem nú eru orðnar að 43 millj. eftir 12 mánaða bið í banka.