09.12.1980
Neðri deild: 26. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

158. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Það væri vissulega freistandi að hefja hér miklar umræður í sambandi við þau mál sem við höfum verið að minnast á hér. Ég get tekið undir með hv. 3. þm. Reykv., að vissulega væri full þörf á því að taka þessi mál til rækilegrar umræðu og skoðunar til þess að finna út það réttláta kerfi sem við væntanlega erum allir sammála um að þörf sé á að finna í þessum málum.

Við vorum að setja réttlátara skattakerfi í lög, eða þeir sem gerðu það 1978. Þar var mikil vinna á bak við lagagerðina. Ég minnist þess, að maður heyrði hina ýmsu stjórnmálaspekinga og ráðamenn á þeim tíma lýsa því yfir, að nú væri fundið réttlátt skattakerfi og skilvirkt, skattakerfi sem ætti að verða til þess að allir þegnar þjóðfélagsins byggju við visst réttlæti á þessum sviðum. Við erum nú á árinu 1980 að sjá hvernig þessi skattalög hafa reynst, afleiðingar þess koma sjálfsagt til umræðu síðar og leiða væntanlega til leiðréttingar.

Það, sem ég sagði í fsp. minni þegar ég nefndi hægri stjórn, var einfaldlega vegna þess að hv. 5. þm. Reykv. lagði svo mikla áherslu á orðið vinstri stjórn að mér fannst ástæða til að spyrja hann alveg sérstaklega um ágæti stjórnunarhæfileika á hægristjórnartímabili, sem ég geri þá ráð fyrir að hann hafi viljað eigna sínum stjórnartíma.

Það væri sjálfsagt hægt að tala langt mál um þær kröfur sem við gerum til þjóðfélagsins á hverjum tíma. Við viljum meiri félagslegar aðgerðir, við viljum fullkomnara tryggingakerfi og við viljum sjálfsagt — eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði réttilega — fjárfesta umfram getu til þess að öðlast þau lífsþægindi sem íslenska þjóðin vill búa við. Í svari hv. 1. þm. Reykn. kom eiginlega fram það sem ég var að biðja hann um að svara. Raunverulega svaraði hann því skilmerkilega þegar hann las upp úr öllum skýrslunum. En auðvitað sleppti hann ýmsu sem gerir það að verkum, að þessi samanburður er ekki eins óhagstæður fyrir hann og e.t.v. fyrir okkur sem stöndum í því að bera ábyrgð á stjórn landsins í dag. Auðvitað sleppti hann ríkishallanum, ástandi í ríkisfjármálum á þessum árum. Auðvitað sleppti hann einnig að bera saman efnahagsástandið í heiminum og nefna olíukreppuna sem hefur sett efnahagskerfi hverrar stórþjóðarinnar á fætur annarrar úr skorðum, hvað þá þau áhrif sem þetta ástand hefur fyrir okkur, þessa litlu þjóð sem hefur mjög einhæfa möguleika á flestum sviðum.

Ég hélt að öllum væri ljóst að við Íslendingar erum háðari utanríkisviðskiptum en flestar aðrar þjóðir miðað við þær aðstæður sem við búum við í dag. Þetta er lýsandi dæmi um ástandið í raun og veru, og við ættum ekki að þurfa að vera hér að karpa um það, hvort við þurfum að halda uppi ákveðinni skattlagningu þegar alvarlegt efnahagsástand blasir við. Auðvitað veit hv. 1. þm. Reykn. ósköp vel hvernig efnahagsástandið er. Hann er meira að segja að fletta einni bókinni nú, Hagtölum mánaðarins, sem sýnir honum alveg eins og okkur hinum hvaða vandamál það eru sem við búum við í dag og erum að reyna að finna lausn á til að fleyta okkur áfram svo að þjóðin bíði ekki skipbrot og við getum haldið þeirri meginstefnu sem við erum þó allir sammála um: að reyna að tryggja öllum atvinnu í landinu.

Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að fara að halda hér neina eldhúsdagsræðu eða leiða umræðurnar út fyrir það svið sem þær eiga að fjalla um, þ.e. framlengingu á þessum sérstaka skatti sem við erum sjálfsagt ekkert sérstaklega ánægðir með. En eins og ég sagði hér í upphafi vil ég heldur þola það að þurfa að framlengja þennan skatt um eitt ár enn heldur en að taka upp nýja skattlagningu, þ.e. almennan eignarskatt, sem væri sennilega eina úrræðið í staðinn. Þess vegna vil ég heldur af tvennu illu framlengja þennan skatt um sinn.