10.12.1980
Efri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

156. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um sérstakt tímabundið vörugjald, en þessi lög eru góðkunningi hv. alþm. fyrir hver jól. Þau eru að stofni til frá árinu 1975, en hafa tekið nokkrum breytingum til hækkunar, voru hækkuð jafnt og þétt þegar á leið áratuginn, en hafa nú verið óbreytt um tveggja ára skeið og enn er lagt til að lögin verði framlengd um eitt ár.

Herra forseti. Þar sem hér er um að ræða óbreytta framlengingu á gildandi lögum og málið er vel þekkt í þingsölum sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það, en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.