10.12.1980
Efri deild: 23. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

162. mál, ráðgjöf og fræðsla varðandi fóstureyðingar

Helgi Seljan:

Herra forseti. Hér hefur verið flutt af hálfu hv. flm. þessa frv, alvöruþrungin ræða og ég ber fulla virðingu fyrir þeim skoðunum sem þar komu fram. Þetta mál hefur áður verið rætt í hv. deild og ég skal ekki lengja umr. nú um það. Áhersluatriði mín skulu vera tvö, hafa reyndar komið fram áður.

Varðandi öll þessi mál hefur skoðun mín verið sú, að að undangenginni bestu ráðgjöf og fræðslu færustu aðila væri það hiklaust sjálfsákvörðunarréttur konunnar sem í öndvegi ætti að sitja. Í því efni skal enn ítrekuð sú meginskoðun mín, að í yfirgnæfandi hluta tilfella sé þetta neyðarúrræði konunnar. Sér til gamans gerir konan það ekki að láta eyða fóstri sínu. Fullyrðingar ýmissa í þessa átt, ekki hv. flm., en ýmissa sem maður hefur heyrt til, eru ekki svaraverðar í rauninni.

Hitt áhersluatriðið snertir fjölgun fóstureyðinga. Þar er vissulega um alvarlegar tölur að ræða eða getur verið um alvarlegar tölur að ræða. En þar er ekki allt sem sýnist. Það var margra grunur, studdur veigamiklum rökum og nær óyggjandi, að fyrir rýmkun þessara ákvæða, sem nú er lagt til að þrengd verði, hefðu viðgengist hér í allríkum mæli ólöglegar fóstureyðingar, jafnvel framkvæmdar við hættulegar aðstæður eða hæpnar, vægast sagt. Um þetta eru engar tölur til að sjálfsögðu, en inn í myndina ber þó vissulega að taka þetta. Það var einnig staðreynd, að til útlanda fór ærinn hópur til fóstureyðinga. Tölur, sem hafa verið nefndar í umr. áður um þetta mál, tel ég ekki marktækar. Ég held að við höfum engar tölur þar um. En hér var þó engu að síður um verulega háa tölu að ræða. Þá tölu, ósannað að vísu hve há hefði verið, ber vissulega að taka inn í myndina einnig.

Þá ber að skoða alveg sér í lagi varðandi þá fjölgun, sem hv. flm. vék hér að, meðal hvaða aldurshópa aukningin hefur verið mest. Ég tek fyllilega undir með honum, að sú fjölgun er vissulega íhugunarefni sem ber að athuga vel og rækilega. Mér hefur verið tjáð það af aðilum, sem nokkuð þekkja til, að aukning sé mest meðal tveggja aldurshópa, þ.e. mjög ungra kvenna og þeirra sem eru í efri mörkum, ef svo má segja, í aldri og hafa haft til þess gild rök, heimilislega og heilsufarslega, að láta eyða fóstri.

Um málið sjálft má lengi deila, mörk um meðgöngutíma og réttlætingu yfirleitt hvað snertir hinn félagslega þátt, sem hv. flm. vék sérstaklega að, o.s.frv. Ég ætla ekki að gera það hér og mun ekki gera. En miðað við fyrra áhersluatriði mitt, um sjálfsákvörðunarrétt konunnar, fer ekki á milli mála að ég vil fara hér að öllu með gát varðandi þrengingar og íhuga málið, eins og hv. flm., mjög vel áður en breyting verður á.

Ég tek svo fyllilega undir með honum varðandi hinar félagslegu ráðstafanir. Þar þarf og á að sækja fram. Það er hægt að taka heils hugar undir það. Ég fullyrði hins vegar að það geti út af fyrir sig aldrei leyst allan vandann. Reyndar tók hv. flm. fram dæmi um þau atriði sem slíkar ráðstafanir gætu ekki leyst. Við vitum báðir að slík dæmi eru til.

Ég skal svo víkja að því sem sagði varðandi mæðralaunin. Ég tek undir með hv. flm. um það, að vissulega er ástæða til að styðja að ýmsum lagfæringum þar. Ég hef flutt sjálfur um það tillögu og ég vænti að þar verði uppi tillaga til úrbóta og einkanlega þó hvað snertir mæðralaun með einu barni. Er sérstaklega brýnt að við lagfærum það. Það er hins vegar sérmál og að miklu leyti ótengt þessu, þó að ég skilji vel meiningu hv. flm. með því að tengja þessi tvö mál saman. Það má eflaust gera það með nokkrum rétti að hluta til, en að sjálfsögðu kemur aldrei til greina að hægt sé að setja fullt jafnaðarmerki þarna á milli.