10.12.1980
Efri deild: 24. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

170. mál, Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Við gerð kjarasamninga ríkissjóðs við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna á s.l. hausti varð samkomulag milli aðila um ýmis mál sem snerta lífeyrissjóði sem starfsmenn ríkisins eiga aðild að. Eitt af þeim atriðum, sem samkomulag varð um, var að lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna, nr. 16/1965, og lögum um Lífeyrissjóð barnakennara, nr. 85/1963, skyldi breytt í samráði við stjórnir hlutaðeigandi stéttarfélaga til samræmis við þær breytingar sem samkomulagið milli starfsmanna ríkisins gerði ráð fyrir í lífeyrissjóðamálinu. Að höfðu samráði við Kennarasamband Íslands varð sú niðurstaða að sameina skyldi Lífeyrissjóð barnakennara Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og hefur verið flutt frv. þess efnis hér á Alþingi.

Það frv., sem hér er flutt um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna, hefur að geyma öll þau efnisatriði sem tilgreind eru í samkomulagi fjmrn. við BSRB og BHM. Þessi efnisatriði eru skýrð í yfirliti sem fylgir með frv. og er mjög ítarlegt og glöggt og gott yfirlit yfir þær breytingar sem felast í þessum frumvörpum öllum. Ég vil sérstaklega benda á það, vegna þess að hér er á einum stað dregið saman yfirlit um öll helstu efnisatriði þessara breytinga sem eru æðimargar. En ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þau, vegna þess að þessi atriði koma auðvitað ekki síður til umræðu þegar fjallað er um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en það mál er til meðferðar á Alþ., eins og kunnugt er, og það í þessari deild.

Auk þessara efnisatriða, eins og ég áður sagði, sem gilda um lífeyrismálin almennt, hefur verið gert samkomulag um nokkrar aðrar breytingar sem ekki voru teknar inn í þetta frv. vegna þess, hversu siðbúnar þær urðu, en samkomulag varð um þessar breytingar milli fjmrn. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja fyrir nokkrum dögum. Fjmrn. hefur komið þessum brtt. á framfæri við fjh.- og viðskn. Ed., og ég vænti þess, að þær hinar sömu brtt. verði teknar til athugunar við afgreiðslu á þessu máli.

Herra forseti. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjalla frekar um mál þetta, enda er það í fullu samræmi við aðallífeyrissjóðamálið, þ.e. varðandi Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.