10.12.1980
Neðri deild: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

123. mál, hollustuhættir

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Líklega eru ekki margir hv. alþm. sem hafa gengið lengra í því en ég að gagnrýna ýmislegt af því sem hefur komið hér á borð okkar þm. til afgreiðslu og fallið hefur undir svonefnda félagsmálapakka. Ég þykist hafa haft ærna ástæðu til þess og hef m.a. bent á tvö sígild dæmi:

Annars vegar það þegar stórir og sterkir aðilar innan heildarsamtaka verkalýðsins, Alþýðusambandsins, njóta styrks og stuðnings ráðamanna til þess að hafa af öðrum minni aðila, sem ekki hefur jafnmikið sér til verndar, og það sem af hinum minni máttar er haft er flutt til hinna sterkari í formi aukinna fríðinda og til þess að tylla nokkuð betur undir þá sem þar ráða ríkjum. Þegar ég hef sagt þetta, þá hef ég að sjálfsögðu átt við skerðinguna á fiskverðinu haustið 1978, en þá voru hin gegndarlausustu svík höfð uppi við íslenska fiskimannastétt, og er enn ekki bætt nema að sáralitlu leyti það sem af þeim var tekið þá, þótt loforð væri á móti um að svo yrði gert.

Annað dæmi hef ég bent á oftar en einu sinni. Það eru svik ráðherra sjálfra og stuðningsmanna þeirra hér á Alþingi við eigin brbl. á undirmenn í farmannastétt sumarið 1979.

Sjálfsagt væri hægt að tína upp lengri lista, en ég bendi á þetta vegna þess að það er andstæða þess sem hér er á ferð. Ég ætla að nota þetta tækifæri sérstaklega til að fagna þessu frv., sem tæpast verður rætt að þessu sinni — alla vega ekki við 1. umr. — öðruvísi en að jafnframt verði rætt nokkuð um lögin sem samþykkt voru hér á s.l. vori um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þessir lagabálkar eru tengdir hvor öðrum og hafa það að markmiði að bæta aðbúnað á vinnustöðum, auka hollustuhætti og öryggi og koma í veg fyrir að heilsa bili eða hún bíði tjón af umhverfi mann á vinnustað. Auk þess koma undir þann lagabálk mörg önnur atriði sem varða almenna hollustuvernd í þjóðfélaginu hjá borgurunum atmennt, þótt þeir falli ekki undir þetta víðtæka hugtak: launþegi.

Ég sé enn frekar ástæðu til að fagna annars vegar því frv., sem nú liggur frammi, og um leið lögunum frá því í vor um vinnuvernd vegna þess, að hvort tveggja á uppruna sinn í tíð þeirrar ríkisstj. sem ég studdi á sínum tíma, — ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar sem var við völd 1974–1978. Bæði þessi mál voru fyrst til umræðu og til samþykktar á Alþýðusambandsþingi 1976 og voru svo tekin upp í kröfugerð verkalýðssamtakanna í hinum víðtæku samningum 1977. Í því samkomulagi, sólstöðusamkomulaginu, varð það að samkomulagi milli vinnuveitenda, launþegasamtakanna og ríkisstj. sem þriðja aðila, að farið yrði í gagngera endurskoðun þessara mála, og í ráðherratíð Matthíasar Bjarnasonar, hv. 1. þm. Vestf., var skipuð fyrsta nefnd þeirra aðila sem hófu endurskoðun á þessum málum.

Af skiljanlegum ástæðum hefur orðið nokkur töf á því, að fullbúið frv. kæmi fram hér á Alþingi um þessi mál. Nokkur skýring er sú sem nú kom fram hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir nokkrum dögum hér í hv. d. þegar hann var að mæla með öðru frv., sem hann kvað hafa tafist vegna sérstakra erfiðleika innan þáv. ríkisstj. á haust- og vetrarmánuðum 1978 og fram á árið 1979. Má vera að eitt og annað þá hafi valdið einhverjum töfum á þessu frv., eins og hann gat um að hefði átt sér stað í sambandi við málið sem hann var að mæla fyrir. En það er að baki og því ber að fagna, að frv. er komið fram, og enn fremur því, að frv. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er orðið að lögum.

Á síðasta Alþýðusambandsþingi átti ég sæti í starfsnefnd þingsins sem fjallaði einmitt og ályktaði um vinnuvernd. Ég sé sérstaka ástæðu til að skýra alþm. frá því — líklega verða ekki aðrir til þess hér — að ég hef sjaldan orðið var við eins atmenna ánægju og gleði yfir lagasamþykkt Alþingis. Ég held að allir, sem þar áttu hlut að máli, hafi gert sér grein fyrir því, að hvort tveggja mun þetta kosta peninga, bæði fyrir atvinnuvegina og fyrir ríkissjóð. Hins vegar telur hinn almenni launþegi á Íslandi að hér sé svo mikið í húfi og um svo mikið hagsmunaatriði fyrir sig að ræða, að þeir meta það vel eins og vert er.

Það hefur komið fram við athugun á lögunum um vinnuvernd, sem tóku gildi í vor, að þar er viss hætta á ferðinni um eitt og annað. Okkur hefur þegar verið bent á það og engin ástæða til að draga úr því, að það þurfi að skoða mjög nákvæmlega í meðferð nefndar. En ég ber Hollustuhættir. 1274 hins vegar engan kvíðboga fyrir því, að ekki muni finnast lausn þar á. Og einn fulltrúi vinnuveitenda hefur reyndar sagt að hann vonaði að ekkert af þeim athugasemdum, sem ég gat um við hann, mundi eiga við rök að styðjast, heldur mundi lausn finnast í meðferð þeirra sem fara með stjórn málanna beggja eða með framkvæmd laganna. Að sjálfsögðu væri mikið komið undir því, að til þess veldust hæfir menn sem hefðu til að bera samkomulags- og samstarfsvilja. En það mun rétt hjá þeim sem hafa bent mér og öðrum á agnúa þessa frv., að auðvitað ber að varast að halda við því smákóngafyrirkomulagi sem viðgengist hefur við framkvæmd þeirra laga sem enn gilda um þessi mál og reyndar á fleiri sviðum í okkar landi. Það hefur t.d. verið bent á að æskilegt gæti verið á hinum minni stöðum úti um land, að það væri embættismaður, en ekki starfsmenn í einhverju fyrirtæki, sem annaðist eftirlit á vinnustöðum, og þetta og annað eftirlit yrði sameinað í beina eftirlitsstofnun á viðkomandi stað. M.a. til þess að forðast undanlátsemi eftirlitsmanns vegna kunningsskapar, skyldleika eða tengsla væru þar embættismenn að störfum sem gætu lítið á vandamálið frá faglegu sjónarmiði. Sjálfsagt er þetta eitt af því sem athuga þarf.

Ég ætla ekki að fara að ræða málið frekar efnislega nú við 1. umr. Þetta er svo mikið mál að það þarf að sjálfsögðu að skoða ítarlega í viðkomandi þingnefnd, sem ég á líka sæti í, og kalla til þá menn sem hún telur rétt að kalla á til að fá upplýsingar um atriði sem að hefur verið fundið. En mér sýnist, þegar ég les þau plögg sem fram hafa komið frá einstökum aðilum, að þær háu gagnrýnisraddir, sem voru uppi um viss ákvæði laganna um vinnuvernd og aðbúnað á vinnustöðum — og reyndar það lagafrv. sem hefur verið lagt fram líka, hafi ekki við rök að styðjast. Hefur t.d. verið bent á það af formanni Læknafélagsins, að margar af athugasemdum landlæknis, sem komu fram á s.l. vetri í sambandi við hið fyrra málið, hafi alls ekki átt við rök að styðjast og var vísað frá sem aðfinnsluverðum.

Áður en ég lýk máli mínu get ég ekki annað en vikið aðeins að þeirri þróun sem orðið hefur í þessum málum hjá okkur t.d. síðustu tvo áratugina, eða t.d. það tímabil sem ég hef átt sæti hér á Alþingi, svo að ekki sé farið lengra til baka. Það er enginn vafi að á fyrstu árum sjöunda áratugsins, þegar nýir menn komu til starfa í þýðingarmiklum embættum, t.d. framkvæmdastjóri þáverandi Iðnaðarmálastofnunar, Sveinn Björnsson, sem beitti sér fyrir margvíslegri kynningu á framkvæmd og hugmyndum manna í nágrannalöndum okkar og vestan hafs í samskiptum launþega og vinnuveitenda, að þau störf hans höfðu gífurleg áhrif á slíka þróun hér á næstu árum. Ég bendi t.d. á það, að þá strax má finna fyrstu hvöt þess, að samskiptaaðilar á vinnumarkaðinum leggist báðir á eitt um að endurbæta gildandi lög og reglur og nálgast eitthvað það sem fram var komið t.d. á Norðurlöndum í þessum málum. Ferðir, sem voru farnar til Norðurlanda til að kynnast samstarfsnefndunum svokölluðu, orsökuðu m.a. þetta. Að vísu áttu þær ekki upp á pallborðið hjá hv. alþm. Ég minnist þess, að ég flutti till. um að ríkisstj. hjálpaði aðilum til að koma slíkum nefndum á fót m.a. með kynningarstarfsemi. Þá voru það ráðamenn í Alþýðusambandi Íslands, sem máttu ekki heyra það eða sjá, að ríkisvaldið væri að skipta sér af slíkum málum. Er nú önnur tíðin þegar allt hreyfist í þá áttina, sem m.a. pólskur verkalýður er að forða sér frá, en það er að flytja sem mest af ráðum verkalýðshreyfingarinnar upp í ráðuneyti. Bæði á þessu sviði og mörgum öðrum hefur gengið verr að koma fram ýmsum skynsamlegum málum á þessum og skyldum sviðum í samskiptum þessara aðila heldur en ella hefði orðið. Ég hef rætt við fleiri en einn úr röðum vinnuveitenda um þessi mál á liðnum árum, enda haft ærnar ástæður til þar sem ég hef oft verið í samningum fyrir það stéttarfélag sem ég hef verið í hátt á fjórða áratug, og hef m.a. fengist við marga þætti þessara mála í þeim samningum við okkar viðsemjendur, og ég hef orðið var við mikla hugarfarsbreytingu þar og meiri og betri skilning en verið hefur. Það leynir sér ekki, þótt þeir eins og aðrir hafi takmörkuð peningaráð á erfiðum tímum eins og íslenskur atvinnurekstur hefur alltaf búið við og mun alltaf búa við, að hugsunarhátturinn hefur breyst í það horf, að margir þeirra skilja að það er fyrirtækjunum til góða og um leið þjóðinni allri að gætt sé heilsu starfsmannanna og þeir hvorki ofkeyrðir í vinnu né aðbúnaður slæmur eða eiturefni eða slysavaldar geri lífið minna bærilegt en ella.

Ég minntist áðan á að tregðu gætti oft og tíðum hjá launþegasamtökunum. Ég minnist þess, að það eru yfir 15 ár síðan lagt var fyrir aðila frv. um vinnuvernd, sem hafði verið unnið að af milliþm. skipaðri fulltrúum launþega og vinnuveitenda, eitt fyrsta frv, sem samið var um ákveðinn hámarksvinnutíma í helstu atvinnugreinum, þó með undantekningum. Var það frv. sniðið eftir norskum lögum sem eru hluti af vinnuverndarlögunum norsku. Þótt vinnuveitendur væru þá reiðubúnir til að standa við sinn hluta af starfi í nefndinni, sem að þessu vann, fór svo, að þegar þingnefndin sendi Alþýðusambandinu þetta mál til umsagnar fannst forsvarsmönnum þess sér ekki skylt að svara fsp. frá nefndinni. Þar með dó það mál, og átti þó sæti í nefndinni og var 1. flm.till. hér á hv. Alþingi maður sem átti eftir að gegna forsetastörfum í Alþýðusambandi Íslands um langt árabil.

Ég vil láta það koma fram hér við 1. umr. málsins, að ég fagna þessu frv. Ég geri mér grein fyrir því, að fram mun koma og við eigum sjálfsagt eftir í þingnefndinni að heyra ýmsar aðfinnslur og athugasemdir. En eftir að hafa hlýtt á þær ábendingar og eftir að hafa lesið frv. yfir og ýmis fskj. — þar á meðal aftur þau fskj. og aths. sem hafa komið fram varðandi hið fyrra frv., sem ég kalla, um vinnuverndina, — þá sé ég ekki að neitt sé því til fyrirstöðu, að hægt sé að vinna að því að þetta frv. náist fram hér á Alþingi á eðlilegum tíma. Ég endurtek svo þakkir mínar, ekki aðeins til hæstv. ráðh. fyrir að hafa komið frv. fram núna, heldur og til þeirra fjölmörgu sem hafa unnið að því að málið er komið þetta langt og inn í þingsalina til okkar.