10.12.1980
Neðri deild: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

123. mál, hollustuhættir

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hv. 1. landsk. þm. hefur nokkuð rætt það frv. sem hér er til umr., og ég mun á sama hátt og hann ekki ræða frv. efnislega, til þess gefst tóm síðar þegar hv. n. hefur fjallað um frv., enda verður það án efa skoðað vandlega í þeirri n. sem fær málið til meðferðar. Varla verður samt sagt að þetta frv. hafi fengið mjög frábærar móttökur í stjórnarmálgögnum, því að leiðari eins blaðsins, Dagblaðsins, var á þann veg að þar var ráðist gegn frv. Þótt ég telji að það hafi verið gert af misskilningi, þá er það samt athyglisvert hvaðan sú gagnrýni kemur. Aðallega réðst blaðið að því, að verið væri að stofna til 224 nefnda, en að öðru leyti hirði ég ekki um að ræða það sem kom fram í leiðara þessum.

Ástæðan fyrir því, að ég kveð mér hljóðs við þessa umr., er sú, að á sínum tíma hafði ég sem nm. í hv. félmn. Nd. afskipti af lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og eins og menn muna var það frv. keyrt í gegnum Alþingi af talsverðum hraða á síðasta þingi. Vegna þess, hvernig á stóð, ákvað n. að taka fram í sínu áliti nokkurs konar fyrirvara. Á þskj. 504 á 102. löggjafarþinginu kemur þessi fyrirvari fram og er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir þau ákvæði til bráðabirgða í frv., þar sem gert er ráð fyrir að endurskoðun laganna skuli fara fram eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þeirra, telur n. nauðsyn bera til, vegna ágreinings um túlkun ýmissa ákvæða í frv. svo og marga óljósra atriða, að stjórnvöld láti í sumar gera úttekt á gildissviði og framkvæmd laganna, að því er varðar ýmsar stofnanir, ný lagafrv. og eldri lög, sem frv. gerir ráð fyrir að falli undir hin nýju lög að einhverju eða öllu leyti. Jafnframt verði lögð fram áætlun um rekstrarkostnað Vinnueftirlits og sparnað sem sameining stofnana leiðir til.

Nauðsynlegt er að þessi úttekt liggi fyrir áður en Alþingi kemur saman á ný næsta haust, svo að Alþingi geti gert viðeigandi lagabreytingar, ef ástæða þykir til, áður en lögin taka gildi 1. jan. 1981.“

Hér lýkur tilvitnun í nál., sem er undirritað af öllum nm. hv. félmn. Nd.

Eitt af því, sem nefnt er í þessum fyrirvara, er hugsanleg skörun laganna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og þess lagafrv. sem er hér til umr. í hv.d. Nýlega var skýrslu þeirri, sem unnin var í sumar af hæstv. félmrh., dreift á hv. Alþingi, en áður hafði þessi skýrsla verið send hv. félmn. Nd. Því miður urðu þau mistök í n., að formaður hennar lagði hana fram fullseint, þannig að nm. í félmn. hafa ekki haft skýrsluna við höndina nema í örfáar vikur. Það er því ástæða til að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann hyggist láta fara fram umr. um þessa skýrslu, hvort hún sé lögð fram hér á hv. Alþingi til þess að um hana fari fram umr. eða hvort hann ætlist til þess, að hv. félmn. Nd. segi álit sitt á skýrslunni með einum eða öðrum hætti.

Það eru nokkur atriði í þessari skýrslu sem ég tel ástæðu til að ræða örlítið við þessa umr., einkum og sér í lagi vegna þess að ég hygg að félmnm. hafi haft það m.a. í huga, að til laga um hollustuhætti yrði stofnað og þau sett á þessu þingi. Það eru örfá atriði sem mig langar til þess að biðja hæstv. ráðh. að fjalla um, tali hann aftur við 1. umr., þótt mér sé ljóst að hér sé farið á ystu brún, því að í raun og veru er verið að fjalla um annað mál, þótt náskylt sé. En ég réttlæti mínar gerðir og þessa ræðu með því, að sjálfur fór hæstv. ráðh. nokkrum orðum um þessa skýrslu í framsöguræðu með því frv. sem hér er til umr.

Mér finnst í fyrsta lagi nokkuð gagnrýnisvert að sömu menn og sömdu lögin skyldu vera látnir fara yfir þau með því gagnrýnishugarfari sem um var beðið í nál. félmn. Reyndar var það útvíkkuð nefnd sem var þar að störfum, en eigi að síður tel ég að þegar beðið er um gagnrýni á störf nefndar sé ekki góður siður að láta sömu menn skrifa þá skýrslu.

Það er alveg ljóst, að ein helsta ástæðan fyrir því, að efnt var til lagasetningar um vinnueftirlitið, var sú, að talið var að með þeim hætti væri hægt að sameina ýmsar stofnanir. Það kom fram bæði í fjárlagafrv. fyrir árið 1980 og eins í umr. um vinnueftirlitsfrv., að ýmsir töldu að stofnun eins og Brunamálastofnunin yrði lögð niður. Í skýrslu þeirri, sem hér liggur fyrir hv. Alþingi og er gefin út af félmrn. og heitir Vinnuvernd I, er sagt frá því, að nefndin hafi s.l. sumar átt viðræður við forráðamenn Brunamálastofnunar. Nú er mér sagt að nefnd, sem hefur haft með það mál að gera, hafi lokið störfum. Mig langar til að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. og félmrh. að því, út á hvað þessar nýju tillögur gangi. Ganga þær út á það leggja niður Brunamálastofnun, eins og hagsýslustjóri virðist hafa talið að gerast mundi með tilurð Vinnueftirlitsins, eða er þar um að ræða að Brunamálastofnunin eigi að vaxa meira frá því sem nú er — eða hver verður staða hennar í kerfinu? Þetta nefni ég hér vegna þess að ég hef rökstuddan grun um að skýrsla Guðmundar Magnússonar o. fl. sé tilbúin. Væri æskilegt í þessum umr. að fá upplýsingar um þetta mál hjá hæstv. ráðh.

Í öðru lagi langar mig til þess að minnast á atriði sem talsvert var rætt í n. á sínum tíma og enn fremur kom fram hjá fulltrúum landbúnaðarins og reyndar kemur fram í skýrslu félmrn. á bls. 11 og 12, en það er viðvíkjandi landbúnaðinum. Eins og hv. alþm. muna höfðu Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda ákveðinn fyrirvara við setningu laganna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og töldu að ákvæði laganna gætu ekki gilt um landbúnaðinn. Á bls. 11 og 12 segir að nefndin, þ.e. endurskoðunarnefndin, sem í raun var sama nefndin og samdi frv. sem nú er orðið að lögum, hafi rætt þetta aftur við þá fulltrúa landbúnaðarins, sem ég fyrr nefndi, og samkomulag hafi orðið um að Búnaðarþing, sem haldið verður í febrúar n.k., fái þetta mál til meðferðar og semji reglugerð um þetta efni. Hér er um að ræða framsal hæstv. ráðh. til Búnaðarþings um reglugerð er varðar þessi mál í landbúnaðinum. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort í því framsali sé gert ráð fyrir því, að Búnaðarþing hafi frjálsar hendur um hvernig staðið verður að vinnueftirliti í landbúnaði. Slíkt getur auðvitað orðið til þess, að aðrar stéttir í landinu telji að þær geti haft sams konar reglugerðarvald um vinnueftirlit í sínum greinum. En eins og allir vita er gert ráð fyrir því, að vinnueftirlitið sé kostað af atvinnuvegunum sjálfum.

Í þriðja lagi langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvað hann telji um samstarf heilbrigðisþáttarins, þ.e. heilbrmrn. og þeirra aðila sem fara með vinnueftirlítið hins vegar, og hvort hann treysti sér til þess hér við 1. umr. um frv. um hollustuhætti og hollustuvernd að segja frá því, hver hans skoðun sé á viðhorfum sem birtast í hugmyndum Ingimars Sigurðssonar, sem er meginhöfundur þess frv. sem hér er til umr. Þar kemur fram að Ingimar vill treysta böndin á milli þessara aðila mun meira en gert er ráð fyrir í lögunum og reyndar í því frv. sem hér er til umr. Í þessu sambandi er reyndar ástæða til að minna á umsagnir frá Reykjavíkurborg á sínum tíma og þó einkum og sér í lagi frá Þórhalli Halldórssyni framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í bréfi sem hann sendi til Arnar Bjarnasonar 25. ágúst 1980 og ég veit að hæstv. ráðh. hefur kynnt sér. (Félmrh.: Á þm. við hugmyndina um samstarfsnefnd?) Já, og vegna fsp. hæstv. ráðh. úr sal skal það tekið fram, að ég á við hugmyndir um samstarfsnefnd og jafnvel enn nánara samstarf og hvert allt hæstv. ráðh. sé á tengingu þessara tveggja þátta. En eins og ég hef vikið áður að í mínu máli var meginhugmyndin í upphafi að reyna að ná tökum á samræmingu á þessum sviðum öllum. Og ég tel reyndar að með því frv., sem hér er til umr., séu tekin ákveðin góð skref í þá átt.

Næst vil ég ræða um Framleiðslueftirlitið og þau viðhorf sem koma fram í skýrslunni á bls. 13 frá Jóhanni Guðmundssyni forstöðumanni Framleiðslueftirlits sjávarafurða. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Þess skal hér getið, að forstöðumaður Framleiðslueftirlits sjávarafurða, Jóhann Guðmundsson, sem var gestur nefndarinnar á fundum hennar 25. júlí og 8. ágúst 1980, ritaði félmrh. bréf, dags. 22. ágúst 1980, og boðaði athugasemdir af sinni hálfu við lög nr. 46/1980 „vegna skörunar við Framleiðslueftirlit sjávarafurða“.

Nefndinni hafa engar athugasemdir borist frá forstöðumanninum og nefndarmenn ekkert frá honum heyrt frá því er hann sat á fyrrgreindum fundum með henni.“

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðh. hvort hann geti upplýst þingheim frekar um þessi mál og hvort hann kannist við það, að ríkisstj. — en það mál heyrir nú reyndar undir hæstv. sjútvrh. — hafi borist endurskoðun á skýrslu um starfsemi Framleiðslueftirlits. Eins og hv. þm. muna var áfangaskýrslu skilað á síðasta ári í þeim efnum, og ég hef rökstuddan grun um að nú hafi fyrir nokkru verið skilað skýrslu um þetta mál. Það er athyglisvert, þegar rætt er um samræmingu á hollustu- og vinnuverndarkerfinu, að taka þá inn í dæmið jafnframt Framleiðslueftirlit sjávarafurða auk annarra eftirlitsstofnana, sem reyndar er fjallað um í því frv. sem hér er til umr., og þá á ég við mengunarvarnir, geislavarnir og aðra slíka aðila sem tengjast þessum málum. Hafi hæstv. ráðh. einhverjar frekari upplýsingar um viðhorf Jóhanns Guðmundssonar, sem hann boðar í þessari skýrslu, en n. fékk ekki til sín, væri gott fyrir hv. þm. að fá upplýsingar um það. Jafnframt væri æskilegt ef hæstv. ráðh. gæti skýrt þingheimi frá því, hvort hæstv. ríkisstj. hafi borist lokaskýrsla frá þeirri nefnd sem sett var á laggirnar til að endurskoða hlutverk og stöðu Framleiðslueftirlits sjávarafurða, en það er mat margra að verulega megi draga úr kostnaði og umfangi þeirrar stofnunar.

Á bls. 15 í þessari skýrslu er fjallað um viðhorf landlæknis, en eins og allir muna gerðist það þegar lögin um vinnuvernd voru samþykkt, að landlæknir lýsti yfir andstöðu sinni opinberlega í fjölmiðlum. Landlæknir hefur komið sínum viðhorfum til skila samkv. þessari skýrslu. Hæstv. félmrh. er jafnframt hæstv. heilbrmrh. og mig langar til þess að heyra hann hér, við 1. umr. um þetta mál, segja þingheimi frá því, hvort landlæknir, hans undirmaður, sé ánægður með þá skipan mála og hvert álit hæstv. ráðh. sé á þeim umkvörtunarefnum sem komu fram frá landlækni, m.a. í blaðagreinum s.l. vor.

Á bls. 17 í skýrslunni um vinnuvernd, sem ég hef gerst ærið langorður um, er fjallað um kostnaðinn Ég rifja það upp, að eitt af því, sem kom fram í nál. hv. félmn. Nd., var einmitt það, að fyrir byrjun þessa þings lægju fyrir kostnaðaráætlunartölur sem snertu Vinnueftirlit ríkisins. Nánast það eina, sem sagt er um þessi mál í þessari skýrslu, er neðst á bls. 17, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar er stefnt að því, að eftirlitskerfið verði einfaldað og bundinn verði endir á það ófremdarástand, að tveir eða jafnvel fleiri aðilar hafi eftirlit og afskipti af sama vandamáli.“

Þetta eru fögur fyrirheit, en ég efast um að þetta sé sú niðurstaða sem hv. félmn. bjóst við að fá, miðað við þann fyrirvara sem hún gerði í nál. s.l. vor og var forsenda þess, að þetta frv. var afgreitt á því þingi. Á þetta minnist ég hér og nú, því að frá því að þessi skýrsla var skrifuð á sínum tíma í sumar eru liðnir nokkrir mánuðir og þess vegna hefur hæstv. félmrh. gefist nægur tími til að vinna að þessum hugmyndum. Og reyndar veit ég að ný stjórn Vinnueftirlitsins hefur komið saman og rætt nokkuð þessi mál, þar á meðal um iðgjöld á næsta ári. Það væri æskilegt ef hæstv. ráðh. gæti upplýst þingheim um það við 1. umr. um frv. til l. um hollustuhætti og hollustuvernd.

Nú getur það komið í ljós í ræðu hæstv. ráðh., að hann telji fulla ástæðu til þess að félmn. Nd. ræði skýrsluna og um hana fari síðan fram umr. hér á hv. Alþingi. Sé það hugmynd hæstv. ráðh. er nauðsynlegt að slík umr. fari fram sem allra fyrst og alla vega fyrir jól, því að lögin taka gildi um áramót. Verði það ofan á, að hér fari fram umr. um þessa skýrslu, þá er auðvitað ástæðulaust fyrir hæstv. ráðh. að svara þessum spurningum öllum í dag á þessum fundi, því að þá er honum í lófa lagið að taka þær upp og gera þeim ítarleg skil í framsöguræðu sinni fyrir skýrslunni þegar hún verður tekin til umr. Sé það hins vegar ekki ætlunin, þá vildi ég beina þeim tilmælum til hæstv. ráðh., að hann reyndi að greiða fyrir því, að þær upplýsingar, sem hér hefur verið beðið um, komi fram við 1. umr. þess máls sem hér er til umr.

Ég ætla mér ekki að ræða almennt um efnisatriði frv. á þskj. 148. Ég efast ekki um að hér er um að ræða afrakstur af starfi manna sem hafa lagt sig fram um að vinna sitt starf sem best, og mér sýnist á frv. að þar sé margt til bóta. Það var þó athyglisvert, sem kom fram í framsöguræðu hæstv. ráðh., að hann sagði að frv. færi lagt fram án skuldbindinga um stuðning stjórnarflokkanna. Þetta er harla óvenjulegt orðalag, ef ég man rétt, og mig tangar til að spyrja hæstv. ráðh. hvort þetta þýði það, að frv. hafi ekki fengið umræður í ríkisstj. eða hvort einhver fyrirvari sé af hálfu einhvers aðilans að stjórnarsamstarfinu eða hvort þetta sé aðeins orðalag sem hæstv. ráðh. notar til vara til þess að koma ekki hugsanlega í bakið á einum eða öðrum. En orðalagið var sérkennilegt því að þetta gerist venjulega ekki um stjórnarfrv.

Frv. til l. um hollustuhætti og hollustuvernd er frv. sem gerir ráð fyrir því, að lögin séu rammalög og taki ekki yfir þau svið sem við getum kallað sérsvið. Ég lýsi ánægju minni með að þetta frv. er komið fram, og ég veit að nm. í heilbr.- og trn. muni gera sitt til þess að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Á það hefur verið bent, að slíkt sé nauðsynlegt. Hv. síðasti ræðumaður fór nokkrum orðum um það, og ég er honum fyllilega sammála í þeim efnum. Hitt er svo annað, að það er umhugsunarefni fyrir okkur þm. þessarar hv. d., þegar við gerum „samning“ við hæstv. ráðh. — þá nota ég samningur innan gæsalappa — um að ákveðin störf séu unnin, ákveðin endurskoðunarstörf, skýrsla er gefin út, sem því miður — og það er reyndar ekki hæstv. ráðh. að öllu leyti að kenna kom seint til nm., þá skuli ekki fara fram sérstök umr. um þá skýrslu. Ég vil þó nefna það, að enn er hægt að bjarga því máli við ef hæstv. ráðh. hefur lagt fram skýrsluna um vinnuvernd í trausti þess, að hún verði rædd hér á þinginu.

Að lokum vil ég aðeins ítreka þær óskir mínar, að ráðh. segi það annaðhvort klárlega hér, hvort hann ætlist til þess að skýrslan sé rædd fyrir jól, eða ef svo verður ekki, að hann geri þá frekari grein fyrir þeim fsp. og viðhorfum sem komu fram í þessari ræðu minni.