10.12.1980
Neðri deild: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

123. mál, hollustuhættir

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína með það, að þetta lagafrv. er nú fram komið. Þótt ég hafi á sínum tíma átt þátt í undirbúningi málsins hef ég enn ekki vegna fjarveru haft tækifæri til að kynna mér frv. í lokafrágangi þess. Efnislega mun ég því ekki ræða málið á þessu stigi, enda gefst tækifæri til þess síðar.

Ég legg mikla áherslu á sameiningu þeirra mörgu stofnana sem eftirlit hafa með vinnustöðum, bæði til einföldunar og til þæginda fyrir viðkomandi aðila og til verulegs sparnaðar í opinberum rekstri, gagnstætt því sem hv. 5. þm. Vestf. hélt fram. Ég er sannfærður um að miklum árangri má ná í þeim efnum. Þótt ég ræði málið á þessu stigi ekki efnislega vil ég ítreka ánægju mína með að málið er nú fram komið.