10.12.1980
Neðri deild: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

123. mál, hollustuhættir

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka þær góðu undirtektir, sem þetta frv. hefur fengið, og vona að það sé til marks um það, að hv. Alþingi treysti sér til að afgreiða þegar á þessum vetri það viðamikla mál sem hér er á dagskránni. Í þeim umr., sem hér hafa farið fram, hafa menn vikið að öðru máli, sem hér var á dagskrá s.l. vor og vissulega kemur af eðlilegum ástæðum upp í hugann þegar rætt er um þetta mál, en það eru lögin um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.

Ég vil fyrst víkja að þeim orðum og spurningum sem komu fram varðandi það mál frá hv. 10. þm. Reykv. Hann spurði hvort ég hygðist beita mér fyrir því, að fram færi sérstök umr. um þá skýrslu sem samin hefur verið og dreift á hv. Alþingi um það mál. Ég hafði hugsað þetta mál þannig, eftir að hafa lagt skýrsluna ásamt öllum fylgigögnum fyrir félmn. deildarinnar, að það væri í raun og veru fyrst og fremst á valdi n., hvort hún eða einstakir menn þar óskuðu eftir því að umr. færu fram um málið. Ég fyrir mitt leyti hef að sjálfsögðu ekkert á móti slíku, en mér finnst eðlilegast að þeir, sem í n. eru og höfðu með málið að gera s.l. vor, beiti sér í málinu ef þeir vilja að fram fari umr. um það. Ég hef síður en svo neitt við slíkt að athuga af minni hálfu.

Hv. þm. gagnrýndi nokkuð skipun þeirrar nefndar, sem vann að skoðun frv. í sumar. Ég taldi heppilegast að sama nefndin fengi athugasemdir við frv. til skoðunar og vann upphaflega gerð þess, vegna þess að þar eru þeir menn saman komnir sem handgengnastir eru efni frv. Ég man ekki betur — ég held að það sé alveg öruggt — en að ég hafi látið það koma fram í umr. á Alþingi í vor, að ég ætlaði mér einmitt að biðja þessa sömu menn að skoða lögin sérstaklega, og það komu engar athugasemdir fram við það af hálfu hv. þm.

Hv. 10. þm. Reykv. innti eftir starfi nefndar þeirrar sem kannar nú málefni Brunamálastofnunar ríkisins. Hún hefur ekki skilað mér endanlegu áliti svo að ég get ekki svarað til um það, hvað hún hefur um þessa hluti að segja. Hins vegar vísa ég til þess sem segir í tölul. 4.2 á bls. 9 í því gagni sem hér hefur verið dreift og heitir Vinnuvernd og hv. þm. vitnaði til, en þar kemur fram að nefndin, sem hefur unnið að þessum málum í sumar, telur „að eldvarnir á hvers kyns vinnustöðum séu mjög veigamikill hluti af öryggismálum þeirra, sem þar vinna, og falli þar af leiðandi undir lög nr. 46/1980. Telur nefndin eðlilegast að innan Vinnueftirlits ríkisins starfi sérstök deild er fjalli um brunavarnamál á sérfræðigrundvelli, en að eldvarnaeftirlit á vinnustöðum verði hluti af eftirliti eftirlitsmanna stofnunarinnar um land allt. Jafnframt verði eldvarnamálefnin hluti af verksviði öryggistrúnaðarmanna, öryggisvarða og öryggisnefnda er starfa innan veggja fyrirtækja og öryggisnefnda sérgreina samkv. lögum nr. 46/1980.“

Hv. þm minntist á þann kafla sem hér fjallar um landbúnað. Það er rétt, að þegar málin voru til meðferðar hér á hv. Alþingi kom fram gagnrýni frá einstökum þm., m.a. hv. þm. Stefáni Valgeirssyni og fleirum, um það, að ekki væri nægilegt tillit tekið til sjónarmiða landbúnaðarins við gerð þess frv. sem þá lá fyrir þinginu. Niðurstaðan varð sú, að sett var inn ákvæði til bráðabirgða um að samin yrði fyrir mitt ár 1981 reglugerð um það, hvernig lög þessi snúi að landbúnaðinum í framkvæmd og fyrr tækju lögin í rauninni ekki gildi gagnvart landbúnaðinum. Það er sú niðurstaða sem varð á hv. Alþingi í vor.

Þegar þessi endurskoðunarnefnd ræddi síðan í sumar um málið við Stéttarsamband bænda og fulltrúa Búnaðarfélags Íslands, sem komu tvisvar sinnum á fundi nefndarinnar, varð niðurstaðan, að Stéttarsamband bænda gerði tillögur að því, hvernig þessi mál snertu landbúnaðinn, og að um þetta verði fjallað á Búnaðarþingi — eða eins og það er orðað: „Fulltrúi Stéttarsambandsins áréttaði á fundi með nefndinni, að hraða þyrfti samningu reglugerðarinnar, og varpaði því fram, hvort ekki væri skynsamlegt að Stéttarsambandið ynni að þessu verkefni nú í haust með það í huga, að Búnaðarþing fjallaði um málið í febr. 1981. Töldu nefndarmenn það góða hugmynd.“ Hér er að sjálfsögðu ekki um neitt valdaframsal að ræða af hálfu rn. Hér er aðeins um það að ræða, að Búnaðarþing og Stéttarsamband bænda munu gera tillögur, en ráðuneytið mun síðan koma þessum tillögum á framfæri við stjórn Vinnueftirlits ríkisins og síðan taka ákvarðanir í málinu.

Þá er það varðandi hugmynd um samstarf Vinnueftirlits ríkisins annars vegar og hins vegar hollustueftirlits ríkisins, sem er verið að tala um í því máli sem hér er á dagskrá. Það kom fram í endurskoðunarnefndinni að setja skyldi upp sérstaka samstarfsnefnd sem í eiga sæti forstöðumenn Hollustuverndar ríkisins, Vinnueftirlits ríkisins og Framleiðslueftirlits sjávarafurða. Skal þessi samstarfsnefnd koma sér saman um framkvæmd hollustueftirlits í takmarkatilvikum og gæta þess, að þessir aðilar fari ekki hver inn á annars svið né að mismunandi kröfur séu gerðar um sama eða sömu atriði. Með því að koma á slíkri samstarfsnefnd telur endurskoðunarnefndin að hægt verði að koma á föstu samráði um framkvæmd umrædds eftirlits og nánari verkaskiptingu og að á þennan hátt megi koma í veg fyrir skörun. Í framsöguræðu, sem ég flutti fyrir frv. því sem hér er á dagskrá, gerði ég grein fyrir því, að brtt., sem þarna er nefnd, er sett fram í góðu samráði við mig og ég mun koma henni á framfæri við þá n. sem um málið fjallar hér á hv. Alþingi. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé skynsamlegt og nauðsynlegt að koma þegar í stað á slíkri samstarfsnefnd til að samhæfa starfsemi þessara stofnana.

Ég get hins vegar miklu minna sagt hv. þm. um Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Mér hefur ekki borist skýrsla um endurskoðun á starfsháttum Framleiðslueftirlitsins og ég hef ekki heldur orðið var við það, að félmrn. hafi fengið svör eða það hafi fengið sérstakt bréf, eins og boðað er í aths. nr. 6.1 á bls. 13 í þessu skjali um Vinnueftirlit ríkisins. Ég get því í rauninni lítið um það mál sagt.

Varðandi landlækni, þá hefur hann gert ýmsar athugasemdir við þetta sem m.a. komu fram í blaðagreinum um það leyti sem málið var til afgreiðslu hér á Alþingi. Þegar endurskoðunarnefndin var að störfum í sumar kvaddi hún á sinn fund landlækni og aðstoðarlandlækni og óskaði eftir skriflegum brtt. þeirra eða ábendingum í sambandi við frv. um hollustuhætti og hollustuvernd. Þær brtt. eru ekki komnar, og ég get ekkert annað um málið sagt en að biðja hv. heilbr.- og trn. þessarar deildar að kalla landlækni og aðstoðarlandlækni og óskaði eftir skriflegum brtt. þeirra eða ábendingum í sambandi við frv. um hollustuhætti og hollustuvernd. Þær brtt. eru ekki komnar, og ég get ekkert annað um málið sagt en að biðja hv. heilbr.- og trn. þessarar deildar að kalla landlækni og aðstoðarlandlækni á sinn fund og ræða við þá svo og forstöðumann Heilbrigðiseftirlitsins um það, hvað þeir hafi um málið að segja.

Í sambandi við kostnaðinn við þetta liggur auðvitað fyrir hvaða tillaga er gerð varðandi kostnað fyrir árið 1981. Ég veit ekki betur en hv. þm. sitji í fjvn. — eða a.m.k. sat hann þar — og mig minnir að talan í fjárlagafrv. sé 274 millj. kr. (Gripið fram í: Er þá miðað við að það sé í fullu starfi?) Það er miðað við það, að Öryggiseftirlit ríkisins eða það starfslið, sem þar hefur verið, flytjist mestallt yfir og síðan sé bætt við að auki þremur nýjum stöðum, ef ég man rétt, þannig að samtals verði við Vinnueftirlitið 18 stöðugildi. Forstöðumaður Öryggiseftirlitsins, Eyjólfur Sæmundsson, hafði lagt til að þarna yrði fjölgað upp í 30 strax, með 15 nýjum stöðugildum. Ég taldi ekki skynsamlegt að fallast á þá ósk strax vegna þess að mér finnst eðlilegast að svona stofnun þróist stig af stigi. Okkar tillögur urðu því þær, að bætt yrði við þremur stöðugildum til að byrja með og þá fyrst og fremst til að fullnægja þörf fyrir vissar lykilstöður svo sem stöðu embættislæknis sem á að starfa við Vinnueftirlitið, og stöðu efnaverkfræðings samkv. lögunum.

Hins vegar sýnist mér alveg ljóst, og það kom fram á þessum óformlega stjórnarfundi Vinnueftirlits ríkisins um daginn, að tölurnar í fjárlagafrv. eru of lágar. Ég minni á í þessu sambandi, að gert er ráð fyrir að stofnunin sé alfarið fjármögnuð af sama gjaldstofni og slysatryggingar Tryggingastofnunar ríkisins. Prósentan í slysatryggingunum hefur verið 0.352% á þessu ári, og í fjárlagafrv. — eins og það lítur út núna — er gert ráð fyrir að sú prósenta lækki nokkuð, þar sem hafi verið oftekið í rauninni með síðustu ákvörðun. Þessar gjaldtökur þarf að stilla af, og ég varð var við góðan skilning á því máli hjá þeim mönnum í stjórn Vinnueftirlits ríkisins sem ég hitti á óformlegum fundi nú á dögunum.

Hv. þm. spyr hvað það þýði, að frv. sé lagt fram án skuldbindingar að hálfu ríkisins. Hér er um að ræða tiltölulega mjög flókið mál tæknilega séð. Ég taldi því eðlilegast að málið væri lagt í hendur Alþingis, að Alþingi fái það til meðferðar án þess að verið sé að binda menn á einstaka þætti þess fyrir fram lið fyrir lið. Það var eingöngu það sem ég átti við með þeim ummælum sem hv. þm. vitnaði til. Síðan kom hér í ræðustól hv. 5. þm. Vestf. og kvartaði yfir því, að hér væri verið að setja upp nýja stofnun. Hann hefur greinilega meiri trú á vissu málgagni ríkisstj. en hv. 10. þm. Reykv., en það var innihaldið í leiðara Dagblaðsins á dögunum að verið væri að búa til nýtt bákn með þessari stofnun. Hér er verið að búa til eina nýja stofnun úr fimm stofnunum og nefndum sem eru þegar með starfslið í kerfinu. Hér er ekki verið að hlaða neinu upp í stórum stíl. Hér er með skipulagsbreytingu verið að gera tilraun til að koma í veg fyrir margverknað og tvíverknað. Það er því um að ræða reginmisskilning bæði hjá leiðarahöfundi Dagblaðsins, sem hv. 10. þm. Reykv. vitnaði til, og hjá hv. 5. þm. Vestf. — og hélt ég að við ættum ekki eftir að lifa það, að þessir tveir mætu menn gengju nákvæmlega í takt í almennum pólitískum málflutningi.

Hitt þótti þó hv. 5. þm. Vestf. miklu merkilegra, að það skyldi geta komið fyrir að í svona lagafrv. væri ákvæði um það, að farga mætti baneitruðum matvörum án þess að setja áður undirrétt og hæstarétt í málinu með viðeigandi tímatöfum, eins og það kerfi er nú hér í landinu. Það var á honum að skilja, að salmonellasýkillin ætti í rauninni að njóta alveg sömu verndar til að lifa og mannskepnan. Ég held að hv. þm. hafi misskilið málið í grundvallaratriðum. Það geta verið full rök fyrir því í mörgum tilvikum, að bráðnauðsynlegt sé að farga eitruðum eða skemmdum matvælum af ýmsum toga, og það er fáránlegt að láta sér detta í hug að keyra slík mál í gegnum okkar seinvirka réttarkerfi.

Að lokum þakka ég fyrir þær góðu undirtektir við málið í heild sem hér hafa komið fram hjá öllum ræðumönnum.