10.12.1980
Neðri deild: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

29. mál, Grænlandssjóður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Fyrir hönd flm., sem eru úr öllum þingflokkum, vil ég færa nefndinni bestu þakkir fyrir skjóta og ágæta afgreiðslu á þessu máli. Ég vil geta þess, að einmitt á meðan málið var hjá nefndinni komu hingað til lands í heimsókn fyrsti forsrh. Grænlendinga og með honum atvinnumálaráðherra og tveir aðrir menn. Þeir fréttu af þessu frv., eftir að þeir voru hingað komnir, og fylltust áhuga. Var auðheyrt á þeim, að þeim þótti þessi hugmynd sýna hina mestu vinsemd af hálfu okkar Íslendinga og gerðu sér vonir um að slíkur sjóður gæti orðið að raunhæfu gagni til þess sem hann er ætlaður.

Ég vil ítreka þakkir mínar og vænti þess að þessi hv. deild ljúki afgreiðslu málsins og að Ed. geri það líka skjótlega.